4. apríl 2015

Vefnámskeið með Richard Byrne

Mjög seint á s.l. fimmtudagskvöld (skírdag) tók ég þátt í vefnámskeiði (Best Backchannel and Informal Assessment Tools) hjá Richard Byrne. Richard þessi heldur reglulega svona stutt námskeið þar sem hann fjallar um margskonar veftól sem hægt er að nýta í námi og kennslu. Námskeiðið var fjölmennt og þátttakendur héðan og þaðan úr veröldinni. Richard, sem er Íslandsvinur og á leið í sína þriðju ferð til landsins, er afar afkastamikill bloggari (Free Technology for teachers) og óspar á góð ráð og hugmyndir um það á hvern hátt við kennarar getum nýtt upplýsingatækni í starfi okkar við kennslu.
Námskeiðið fór fram í vefkerfi sem heitir Training Wiewer. Bráðsniðugt tól til þess að halda svona stutt námskeið. Richard tók upp námskeiðið jafnóðum svo þið getið séð og heyrt það hér. 

Á námskeiðinu fjallaði hann m.a. um eftirfarandi veftól sem eru ókeypis:

Todays Meet sem er mjög sniðugt til þess t.d. að nota í bekknum, þá geta börnin skipst á hugmyndum, lagt inn fyrirspurnir til hvers annars eða fjallað um eitthvað ákveðið efni. Nemendur geta t.d. safnað saman heimildum sem varða ákveðið verkefni sem þau eru að vinna að. Möguleikarnir eru í raun óþrjótandi.

Tozzl er svipað kerfi, en hefur þó meiri möguleika á að deila ljósmyndum og myndböndum til þess að kalla fram umræðu í bekknum. Mér sýndist þetta kerfi sniðugra og auðveldara í notkun, gæti líka hentað með mjög ungum börnum. Hægt er að vista umræðuna sem fór fram og líka að senda hana í tölvupósti.

QR Droid Zapper sem er forrit til þess að útbúa QR kvóða til þess að vísa nemendum á viðeigandi verkefni. Börn hafa svakalega gaman af slíkum kvóðum, það hef ég reynt sjálf í leikskólanum.

Padlet er sniðugt til þess að vinna með börnum og Richard sýndi nokkra einfalda möguleika á að nýta það kerfi í kennslu. Hér er líka kennslumyndband á hvern hátt hægt er að nota Padlet sem hann hefur gert og sett á YouTube.

Socrative er skemmtilegt til þess að útbúa t.d. spurningar. Hægt er að fara í spurningaleiki með nemendum og það þykir þeim ákaflega skemmtilegt. Reyndar gekk kerfið ekki alveg upp hjá okkur þetta kvöld, netsambandið var ekki nógu tryggt.

Kahoot er að mínu mati einfaldara kerfi til þess að útbúa skemmtilega spurningarleiki. Það er mun sjónrænna og því heppilegra fyrir t.d. ung börn. Börnunum í leikskólanum þykir mjög gaman að fara í svona spurningarleiki.

81Dash er kerfi til þess að nota með bekknum á svipaðan hátt og hin kerfin sem ég benti á hér á undan. Þú getur sent nemendum skilaboð og vísað þeim á ákveðið efni og sett inn krækjur og verkefni sem börnin eiga að vinna að.

Frábært að taka þátt í svona örnámskeiðum á Netinu og mæli ég með að allir prófi að taka þátt.

Takk fyrir mig Richard Byrne.
Engin ummæli: