Sýnir færslur með efnisorðinu Hugleiðingar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Hugleiðingar. Sýna allar færslur

22. janúar 2017

#menntaspjall um áskoranir fyrir framtíð menntunar

Í morgun tók ég þátt í #menntaspjalli á Twitter um áskoranir í menntun með tilliti til framtíðarinnar og sérstaklega hvað þurfi, eða eigi, að kenna í skólum og hverju megi sleppa. Jón Torfi Jónasson var stjórnandi umræðunnar. Þetta voru að vanda áhugaverðar umræður og mér finnst alveg frábært og faglega uppörvandi að taka þátt í því faglega umhverfi sem þetta #menntaspjall er. Þarna hittast kennarar á öllum skólastigum og ræða saman á jafningjagrunni allt mögulegt sem tengist menntun og skólastarfi. Hér má sjá samantekt Ingva Hrannars á umræðu morgunsins. 
Hér er að finna nýlega grein Jóns Torfa sem ætluð var til þess að undirbúa umræðurnar. Jón Torfi setti einnig inn krækju á myndband um hugleiðingar Gert Biesta. Þær fjalla um það hvað mun skipta máli í menntun í framtíðinni.
Þessi spakmæli birtust í #menntaspjall dagsins.


Verkefni 1. í starfendarannsóknum

Ég var að skila af mér fyrsta verkefninu í starfendarannsóknum. 

Hvað eru starfendarannsóknir fyrir mér?

  Ég hef nú ekki áður velt þessari spurningu fyrir mér, en útskýringar fræðimanna eru trúverðugar og því liggur beint við að nýta sér þær. Mér þykir líklegt að starfendarannsóknir stuðli að aukinni fagmennsku kennara og menntun nemenda. Mér þykir einnig líklegt að starfendarannsóknir auki færni kennara í starfi og viðhaldi starfsánægju þeirra. Regluleg ígrundun í starfi er nauðsynleg að mínu mati og forsenda þess að framfarir verði í stað stöðnunnar.

  Ég er svo heppin að hafa valið mér að kenna í leikskólum með örlitlu fráviki í fjögur ár þegar ég kenndi í framhaldsskóla. Báðar greinarnar sem við áttum að lesa eru nokkuð miðaðar að því að kennarinn sé einn í skólastofunni og þurfi því að stóla á sjálfan sig. Allan minn kennsluferil  hef ég starfað við hlið annarra kennara, frá fjórum til fimm í einu, ég hef því ekki þá reynslu sem lýst er í greinunum og eru veruleiki grunn- og framhaldsskólakennara.
  Ég var að hugsa um það við lestur greinanna hvað í raun við í leikskólanum erum að nýta þessar aðferðir ómeðvitað og köllum það ekkert sérstakt. Við vinnum saman að því að mennta nemendur okkar. Við setjumst niður hálfsmánaðarlega og ræðum hvernig gengur, hvað hefur verið framkvæmt, hvernig og var markmiðum náð (rýnt í dagbók hvers og eins). Hver og einn kennari segir frá því hvað hann hefur verið að fást við, hvernig og hvaða aðferðir hann notaði og hvað virkaði að hans mati best hverju sinni. Hvernig gengur með hópinn og einstaka nemendur. Það má alveg kalla það rýnisamtöl. Við höfum öll skrifað reglulega niður atburðarrás, framfarir og framvindu námsins hjá hverju og einu barni. Við tökum síðan sameiginlegar ákvarðanir um framhaldið og felum hvert öðru verkefni til þess að vinna að. Málin eru rædd af fagmennsku og allir miðla af reynslu sinni og fá hugmyndir hver frá öðrum. Það sem ég hef lesið undanfarnar vikur og það sem rætt hefur verið í þriðjudagstímunum er mjög í anda þess sem ég hef reynslu af. Ég vissi bara ekki að það væri starfendarannsókn, ég er einhvernvegin alltaf að bíða eftir að þessi fræði séu flóknari en virðist. Ætti sennilega bara að slaka á og fljóta með.
  Það vakti athygli mína að í flestum dæmunum sem voru í þeim greinum sem ég las vantaði að mati kennaranna sjálfra meira líf í kennsluhætti þeirra og lausnin var meiri „leikur“ og þátttaka nemendanna. Er furða að mér finnist ég heppin að vera leikskólakennari þar sem leikurinn er viðurkennd námsleið og sú kennsluaðferð sem mér finnst skemmtilegust.

5. janúar 2017

Nýtt ár og nýjar áskoranir

Gleðilegt ár ef það er einhver að lesa bloggið mitt.

Ég nefni þessa færslu nýtt ár og nýjar áskoranir aðallega vegna þess að ég er að hefja nám að nýju. Ég var svo heppin að vinnuveitandi minn Kópavogsbær veitti mér námsleyfi í 9 mánuði til þess að mennta mig frekar á sviði upplýsingatækni. Ég er afar þakklát og ætla að reyna að standa mig í því að verða vitrari og ekki hvað síst að deila með öðrum því sem ég læri.
Það er margt sem á daga mína hefur drifið frá því ég bloggaði síðast og aðallega hef ég nú verið að nota fésbókina til þess að miðla því sem ég hef lært. Ég hef samt ekki alveg verið sátt við þann miðil vegna þess að færslurnar hverfa jafnóðum og þær verða til þar. Þess vegna ætla ég að skrásetja hér ferðalagið mitt í náminu og deila því svo á samfélagsmiðlum. Þannig held ég að efnið verði líka aðgengilegra fyrir aðra kennara sem eru leitandi að nýjungum og upplýsingum sem þeir geta nýtt í starfi sínu.
Ég er þessa dagana að koma mér í lærdómsgírinn, aðeins búin að kíkja inn á námsvefina þar sem námskeiðin mín eru. Það er búið að setja fyrir í einu námskeiðinu Starfendarannsóknir sem er rosalega spennandi. Ég á sem sagt að lesa tvær greinar fyrir staðlotuna sem verður í næstu viku. Grein eftir Hafþór Guðjónsson, Kennarinn sem rannsakandi og svo grein eftir Ívar Rafn Jónsson, Að virkja sjálfstæða hugsun nemenda.
Ekker er ennþá komið inn á vef námskeiðsins Hönnun námsefnis og stafræn miðlun, en ég er mest spennt fyrir þessu námskeiði, enda hef ég ákveðna hugmynd um lokaverkefni því tengt. Þriðja námskeiðið er svo eigindlegar rannsóknaraðferðir, námskeið sem ég held að verði áhugavert.
Ég ætla að reyna að vera dugleg að setja inn reglulega fréttir hér, en mest verða þær sennilega tengdar upplýsingatækni í kennslu, en kannski líka hugleiðingar mínar sem tengjast náminu almennt.