Sýnir færslur með efnisorðinu samskiptavefsvæði. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu samskiptavefsvæði. Sýna allar færslur

18. október 2015

Nýleg öpp/smáforrit

Ég ætti sennilega að skrifa í fyrirsögnina öpp/smáforrit sem ég er nýlega farin að nota. Það bara verður svo löng fyrirsögn. Hvað um það ég ætla semsagt að segja ykkur frá smáforritum sem mér hefur nýlega verið bent á og ég byrjaði strax að nota í starfi og einkalífi.

BULLER
BULLER er smáforrit sem allir kennarar eiga að hafa í símanum sínum. Smáforrit sem mælir hávaða í umhverfinu. Ég get sýnt börnunum í símanum mínum hversu mikill hávaði er í stofunni og þau lækka sig með það sama. Forritið er mjög sjónrænt og litaglatt. Á meðan að græniliturinn ríkir erum við í góðum málum, en þurfum að hafa gát á þegar gula ljósið kemur og lækka okkur heldur betur þegar ljósið er orðið rautt. Það var vinnueftirlitið í Noregi sem lét útbúa þetta smáforrit.


GOOGLE TRANSLATE
Google Translate smáforritið er alger snilld. Það er auðvitað ekki ný uppgvötun að nýta sér Google Translate til þess að þýða yfir á önnur tungumál. Nýjungin felst aðallega í því að nýta appið/smáforritið í daglegu spjalli við foreldra af erlendum uppruna í leikskólanum. Þá er ég aðalega að tala um þann möguleika að geta þýtt íslensku eða ensku yfir á annað tungumál og nota míkrafón möguleikann. Þannig getum við með auðveldum hætti spjallað saman og það er merkilegt nokk hvað við skiljum hvert annað með þessum hætti. Stutt skilaboð eins og um foreldrafund, barnið fór í gönguferð, vantar pollagalla, bleiur og slíkt verða leikur einn með þessu smáforriti. Hvet alla kennara til þess að nýta sér þessa snilld og gera þannig foreldra upplýstari um hagi barnanna frá degi til dags. Hér er áhugaverður sjónvarpsþáttur um tilurð þessa frábæra smáforrits. Hér er svo upptaka sem sýnir hvernig við getum notað samtalsþátt smáforritsins.  Ég er búin að vera að prófa þetta með pólskum foreldrum og þetta svínvirkar.

PERISCOPE
Periscope smáforritið er nýkomið á markað og er ætlað til beinnar útsendingar á efni. Eigendur þess og framleiðendur eru þeir sömu og eiga Twitter, en þú þarft samt ekkert að tengja það saman frekar en þú vilt. Ég er ekki mikið búin að vera að prófa það, en svona smávegins samt og þá aðallega til þess að fylgjast með öðrum að tjá sig um hitt og þetta. Smáforritið er ætlað til þess að streyma á Netið viðburðum í rauntíma. Það verður að teljast líklegt að þetta smáforritið verði nýjasta æðið (Trendið) í unglingaheimnum. Sennilega kemur það líka til með að marka straumhvörf í fjölmiðlaumfjöllun. Með því er hægt að sjónvarpa um alla veröld því sem er að gerast t.d. á hamfarasvæðum, í stríði o.s.frv. Hér er sýnt hvernig hægt er að nota forritið.Hér eru líka leiðbeiningar.

11. október 2015

Alþjóðlegur dagur kennara

Í tilefni af Alþjóðadegi kennara mánudaginn 5. október ákvað ég að gefa þeim sem fylgja mér á samfélagsmiðlum smá innsýn í starfið mitt. Sendi þannig inn reglulega yfir daginn myndir ásamt texta þar sem ég sagði frá því hvað ég var að fást við.
Fyrstu færsluna sendi ég inn á samfélagsmiðla rétt upp úr átta um morguninn. Þá var ég byrjuð að kenna. Fyrst á morgnanna stýri ég leikhópi þar sem lögð er áhersla á málþroska/læsi. Í leikhópnum nota ég yfirleitt alltaf iPad og þá smáforritið hennar Bryndísar Guðmunds talmeinafræðings Lærum og leikum með hljóðin.
Ég er afar ánægð með þetta smáforrit og sé miklar framfarir hjá börnunum mínum, sér í lagi þeim sem ekki hafa íslensku sem móðurmál.

Eftir smá kaffipásu tók við kennsla elstu barnanna. Þau koma alltaf til mín í upplýsingatækni einu sinni í viku. Ég er að gera tilraun með að kennna þeim í hóp fjórum í einu og legg þá áherslu á eitt smáforrit í senn. Við hófum vinnu við skemmtilegt verkefni í vikunni á undan. Börnin sömdu sögu og gerðu söguborð við hana. Í þessum tíma var því komið að því að útbúa persónur og leikendur í sögunni og einnig þá bakgrunna sem þau vilja nota við sögugerðina. Börnin eru að læra á smáforritið Pubbet Pals. Þau læra að útbúa eigin sögu alveg frá grunni. Þetta var alveg einstaklega skemmtileg kennslustund enda börnin afar hugmyndarík og klár. Þau nýttu vel efniviðinn sem var í boði og höfðu ákveðnar skoðanir á því hvernig þau vildu hafa söguna.
Eftir hádegisverð er komið að hvíld og bóklestri. Ég er svo heppin að fá að lesa fyrir nokkur elstu barnanna og valdi að byrja á bókinni Tröllagleði. Við lásum ca. 1/3 af henni og fórum svo í smáforrit sem heitir Froskaleikur og er eins og Lærum og leikum með hljóðin úr smiðju Bryndísar Guðmundsdóttur. Frábært forrit sem börnin eru afar spennt yfir því við erum svo lengi að fara í gegnum það allt. Höfum núna verið í þrjár vikur að vinna í því og erum ekki ennþá búin að komast í kastalann. Það styttist samt í það og þess vegna eru börnin afar spennt orðin.
Eftir hádegi tók svo aftur við vinna með elstu börnunum. Núna voru það aðrir tveir hópar sem komu í upplýsingatæknitíma.Eins og um morguninn þá vorum við að skapa persónur og leikendur, bakgrunna og æfa okkur í forritinu Pubbet Pals. Mikið rosalega hef ég gaman af því að vera með þeim í þessari vinnu. Börnin eru svo skemmtileg og hugmyndarík. Hægt er að fylgja okkur eftir hér.
Rétt fyrir kl. 16 hentist ég svo úr leikskólanum og náði rétt svo í tæka tíð á málþing um samfélagsmiðla sem haldið var í tilefni Alþjóðadags kennara á Grand Hótel. Þar voru mjög áhugaverð erindi flutt um notkun samfélagsmiðla í kennslu. Ég hélt áfram að senda inn myndir á samfélagsmiðla frá þessum viðburði. Hægt er að sjá og hlusta á erindin hér.
Það var eftirminnilegt þegar Ingvi Hrannar lét þrjá sjálfboðaliða tæma tannkremstúpu, sjampóbrúsa og raksápu. Hætti svo við í miðjum klíðum og bað fólkið um að taka efnið til baka. Það var auðvitað ekki hægt og svipurinn á þeim var óborganlegur. Þetta gerði hann til þess að sýna verklega fram á það hversu varkár við verðum að vera á samfélagsmiðlum. Það sem við skrifum og setjum á miðlana er ekki aftur tekið.
Alþjóðadag kennara endaði ég svo á því að útbúa Fréttabréf fyrir Faghóp um skapandi leikskólastarf. Í fyrsta sinn kom Fréttabréfið eingöngu út í rafrænu formi, áður hafði það verið útbúið í word og sent á Netið í pdf formi. Fréttabréfið útbjó ég í Tackk sem ég er afar ánægð með. Hentar ljómandi vel til þess að útbúa fréttabréf.

18. ágúst 2015

Læsi er lykill

Föstudaginn 14. ágúst var haldin ráðstefnan Læsi er lykill á vegum Samtaka áhugafólks um skólaþróun. Ráðstefnan stóð svo sannarlega undir væntingum mínum og hvet ég heilshugar fólk til þess að kynna sér skjákynningar fyrirlesara.
Fyrir hádegi voru frábærir fyrirlestrar í Háskólabíó, en ég var sérlega hrifin af fyrirlestri Fríðu Bjarneyjar þar sem hún fjallaði um þróun bernskulæsis og galdurinn við að kveikja áhuga allra barna á tungumálinu. Fríða Bjarney hefur unnið mjög gott starf með tvítyngdum börnum og kennurum þeirra.
Eftir hádegi voru í boði margar mismunandi málstofur og vinnustofur. Ég valdi fyrst að fara í vinnustofu með þeim Birte Harksen, Söru Grímsdóttur og Geirþrúðu Guðmundsdóttur sem unnið hafa með leikskólabörnum að því að efla læsi í gegnum dans, tónlist, leiki og takt. Birte heldur úti frábærum vef sem ég hef notað mikið undan farin ár Börn og tónlist.
Í lok dagsins fór ég svo í málstofu með þeim Svövu Pétursdóttur og Tryggva Thayer sem þau kölluðu upplýsingalæsi.
Það var mjög gaman í málstofunni enda umræðuefnið afar áhugavert fyrir mig. Sérstaklega umræðan um "Síubólur". Ég hafði ekki velt því fyrir mér að þær hefðu neikvæðar hliðar, heldur finnst mér eins og fleirum afar þægilegt á stundum þegar mér er vísað á efni sem ég hef áhuga á. Gott stundum að þurfa ekki að hugsa of mikið, eða þannig. Auðvitað er þetta svo ekki svona einfalt og getur í framtíðinni verið mikil ógn og skoðanamyndandi fyrir fólk.
Hér er ágætis myndband þar sem fjallað er um Síubólur eða Filter Bubbles.


12. ágúst 2015

Vinnustofa með Bart Verswijel

Í gær tók ég þátt í vinnustofu ásamt félögum mínum í Samspil 2015. Vinnustofan var reyndar auglýst sem eTwinning vinnustofa með Bart Verswijel. Bart kom nú ekki mikið inn á eTwinning öðruvísi en að vísa til þess að öll verkfærin sem hann kynnti er hægt að nýta í eTwinningverkefnum. 
Bart fór víða og máttum við hafa okkur öll við að fylgja honum eftir. Ég var einmitt að rifja upp daginn og finnst alveg ótrúlegt hvað hann komst yfir að kynna mörg verkfæri fyrir okkur. 
Því miður þá er þarna ansi margt sem ég sé ekki að nýtist okkur með börnunum í leikskólanum. Ætla samt ekki að fullyrða það að svo stöddu því oft er það þannig að það sem virðist alls ekki passa reynist svo bara hið besta tól. 
Hér er að finna yfirlit yfir þau verkfæri sem Bart fór í, en mig langar til þess að fjalla hér sérstaklega um nokkur verkfæri sem mér finnst sniðug og hef verið að nota eða ætla að nota í framtíðinni. 

Bitly sýnist mér vera sniðugt tól. Bart segist nota það mikið sérstaklega þegar hann er að kenna í vinnustofum eins og þeirri sem við vorum á. Bitly einfaldar manni að útbúa vefslóðir sem maður vill benda fólki á. Oft er það þannig að áhugavert efni á vef hefur svo langa vefslóð (URL) að það tekur fólk langan tíma að skrifa þær, ef það er þá bara hægt. Bitly auðveldar þetta mjög mikið. Það er einfalt að læra á Bitly og hægt að úbúa eigin reikning og flokka vefslóðir á auðveldan hátt. Hér má sjá dæmi sem hann Bart notaði í kennslunni: 
bit.ly/visitcity - Sticky Moose 
bit.ly/favorvity - Answer Garden  
bit.ly/countrysong - Padlet


Spurningarleikir eru sívinsælir og Bart benti okkur á þrjú verkfæri til þess að útbúa slíka leiki. Við höfðum áður fengið kynningu á þeim, en af þessum þrem verkfærum, SocrativeMentimeter og Kahoot (to create: getkahoot.com) sem nefnd voru finnst mér Kahoot skemmtilegast. Ég hef áður fjallað um það verkfæri hér á blogginu mínu. Kahoot er að mínu mati einfaldast til þess að útbúa skemmtilega spurningarleiki. Það er mun sjónrænna og því heppilegra fyrir t.d. ung börn. Börnunum í leikskólanum þykir mjög gaman að fara í svona spurningarleiki.


Jigsaw Planet er verkfæri sem gaman verður að nota með leikskólabörnunum. Hægt er að setja inn í það eigin myndir og nota það eins og Bart gerði til þess að senda ákveðin skilaboð. Þannig birtast skilaboðin þegar púslunninni er lokið. Skemmtilegt verkfæri sem ég sjálf gleymdi mér aðeins í.


Bart fór yfir nokkur verkfæri sem hægt er að nýta í tengslum við Twitter. Þetta eru allt verkfæri sem geta nýst kennurunum sjálfum til gamans og gagns. Eitt af þeim verkfærum er Tweetdeck sem ég hef notað og finnst algjör snilld. Með því getur maður fylgst með ákveðnum umræðum (# hastag) sem í gangi eru.

12. maí 2015

Stafræn borgaravitund

Áhugaverður fyrirlestur hjá henni Sólveigu Jakobsdóttur. Ég held að okkur veitti ekki af að fá svona fyrirlestur reglulega, það er svo auðvelt að gleyma sér í hinu starfræna umhverfi. Hver á? og Hver má?
Vinnu minnar vegna hef ég undanfarið mikið verið að spá í siðferði kennara og þá sérstaklega á samfélagsmiðlum, velti því fyrir mér hvort við þurfum aðrar siðareglur fyrir hið stafræna umhverfi.. Það er með ólíkindum hvað fólk lætur frá sér fara og þeir sem fyrir verða eru algjörlega máttlausir gagnvart því.
Það er eiginlega ekki hægt að tala um stafræna borgaravitund öðruvísi en að ræða um siðferði um leið.

Á vefnámskeiðinu var vísað í áhugaverðan vef í Alberta fylki í USA. Greinilegt að þar á bæ eru skólayfirvöld komin mun lengra en við í að nálgast kennsluhætti 21. aldarinnar. Hvet alla til þess að skoða vefinn. Þar á bæ hafa verið gefnar út sérstakar leiðbeinandi reglur. Digital Citizenship Policy Development Guide

12. apríl 2015

4. apríl 2015

Vefnámskeið með Richard Byrne

Mjög seint á s.l. fimmtudagskvöld (skírdag) tók ég þátt í vefnámskeiði (Best Backchannel and Informal Assessment Tools) hjá Richard Byrne. Richard þessi heldur reglulega svona stutt námskeið þar sem hann fjallar um margskonar veftól sem hægt er að nýta í námi og kennslu. Námskeiðið var fjölmennt og þátttakendur héðan og þaðan úr veröldinni. Richard, sem er Íslandsvinur og á leið í sína þriðju ferð til landsins, er afar afkastamikill bloggari (Free Technology for teachers) og óspar á góð ráð og hugmyndir um það á hvern hátt við kennarar getum nýtt upplýsingatækni í starfi okkar við kennslu.
Námskeiðið fór fram í vefkerfi sem heitir Training Wiewer. Bráðsniðugt tól til þess að halda svona stutt námskeið. Richard tók upp námskeiðið jafnóðum svo þið getið séð og heyrt það hér. 

Á námskeiðinu fjallaði hann m.a. um eftirfarandi veftól sem eru ókeypis:

Todays Meet sem er mjög sniðugt til þess t.d. að nota í bekknum, þá geta börnin skipst á hugmyndum, lagt inn fyrirspurnir til hvers annars eða fjallað um eitthvað ákveðið efni. Nemendur geta t.d. safnað saman heimildum sem varða ákveðið verkefni sem þau eru að vinna að. Möguleikarnir eru í raun óþrjótandi.

Tozzl er svipað kerfi, en hefur þó meiri möguleika á að deila ljósmyndum og myndböndum til þess að kalla fram umræðu í bekknum. Mér sýndist þetta kerfi sniðugra og auðveldara í notkun, gæti líka hentað með mjög ungum börnum. Hægt er að vista umræðuna sem fór fram og líka að senda hana í tölvupósti.

QR Droid Zapper sem er forrit til þess að útbúa QR kvóða til þess að vísa nemendum á viðeigandi verkefni. Börn hafa svakalega gaman af slíkum kvóðum, það hef ég reynt sjálf í leikskólanum.

Padlet er sniðugt til þess að vinna með börnum og Richard sýndi nokkra einfalda möguleika á að nýta það kerfi í kennslu. Hér er líka kennslumyndband á hvern hátt hægt er að nota Padlet sem hann hefur gert og sett á YouTube.

Socrative er skemmtilegt til þess að útbúa t.d. spurningar. Hægt er að fara í spurningaleiki með nemendum og það þykir þeim ákaflega skemmtilegt. Reyndar gekk kerfið ekki alveg upp hjá okkur þetta kvöld, netsambandið var ekki nógu tryggt.

Kahoot er að mínu mati einfaldara kerfi til þess að útbúa skemmtilega spurningarleiki. Það er mun sjónrænna og því heppilegra fyrir t.d. ung börn. Börnunum í leikskólanum þykir mjög gaman að fara í svona spurningarleiki.

81Dash er kerfi til þess að nota með bekknum á svipaðan hátt og hin kerfin sem ég benti á hér á undan. Þú getur sent nemendum skilaboð og vísað þeim á ákveðið efni og sett inn krækjur og verkefni sem börnin eiga að vinna að.

Frábært að taka þátt í svona örnámskeiðum á Netinu og mæli ég með að allir prófi að taka þátt.

Takk fyrir mig Richard Byrne.