18. ágúst 2015

Læsi er lykill

Föstudaginn 14. ágúst var haldin ráðstefnan Læsi er lykill á vegum Samtaka áhugafólks um skólaþróun. Ráðstefnan stóð svo sannarlega undir væntingum mínum og hvet ég heilshugar fólk til þess að kynna sér skjákynningar fyrirlesara.
Fyrir hádegi voru frábærir fyrirlestrar í Háskólabíó, en ég var sérlega hrifin af fyrirlestri Fríðu Bjarneyjar þar sem hún fjallaði um þróun bernskulæsis og galdurinn við að kveikja áhuga allra barna á tungumálinu. Fríða Bjarney hefur unnið mjög gott starf með tvítyngdum börnum og kennurum þeirra.
Eftir hádegi voru í boði margar mismunandi málstofur og vinnustofur. Ég valdi fyrst að fara í vinnustofu með þeim Birte Harksen, Söru Grímsdóttur og Geirþrúðu Guðmundsdóttur sem unnið hafa með leikskólabörnum að því að efla læsi í gegnum dans, tónlist, leiki og takt. Birte heldur úti frábærum vef sem ég hef notað mikið undan farin ár Börn og tónlist.
Í lok dagsins fór ég svo í málstofu með þeim Svövu Pétursdóttur og Tryggva Thayer sem þau kölluðu upplýsingalæsi.
Það var mjög gaman í málstofunni enda umræðuefnið afar áhugavert fyrir mig. Sérstaklega umræðan um "Síubólur". Ég hafði ekki velt því fyrir mér að þær hefðu neikvæðar hliðar, heldur finnst mér eins og fleirum afar þægilegt á stundum þegar mér er vísað á efni sem ég hef áhuga á. Gott stundum að þurfa ekki að hugsa of mikið, eða þannig. Auðvitað er þetta svo ekki svona einfalt og getur í framtíðinni verið mikil ógn og skoðanamyndandi fyrir fólk.
Hér er ágætis myndband þar sem fjallað er um Síubólur eða Filter Bubbles.


Engin ummæli: