Sýnir færslur með efnisorðinu framhaldsskóli. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu framhaldsskóli. Sýna allar færslur

22. janúar 2017

#menntaspjall um áskoranir fyrir framtíð menntunar

Í morgun tók ég þátt í #menntaspjalli á Twitter um áskoranir í menntun með tilliti til framtíðarinnar og sérstaklega hvað þurfi, eða eigi, að kenna í skólum og hverju megi sleppa. Jón Torfi Jónasson var stjórnandi umræðunnar. Þetta voru að vanda áhugaverðar umræður og mér finnst alveg frábært og faglega uppörvandi að taka þátt í því faglega umhverfi sem þetta #menntaspjall er. Þarna hittast kennarar á öllum skólastigum og ræða saman á jafningjagrunni allt mögulegt sem tengist menntun og skólastarfi. Hér má sjá samantekt Ingva Hrannars á umræðu morgunsins. 
Hér er að finna nýlega grein Jóns Torfa sem ætluð var til þess að undirbúa umræðurnar. Jón Torfi setti einnig inn krækju á myndband um hugleiðingar Gert Biesta. Þær fjalla um það hvað mun skipta máli í menntun í framtíðinni.
Þessi spakmæli birtust í #menntaspjall dagsins.


9. janúar 2017

#menntaspjall

Ég var svo óheppin að geta ekki tekið þátt í #menntaspjall á Twitter í gær. Umræðuefnið var skólahúsnæði. Það var ángæjulegt að lesa yfir umræðuþráðinn eftir spjallið. Ég get ekki betur séð en að þeir sem tóku þátt, sem flestir eru grunn- og framhaldsksólakennarar óski eftir leikskólabyggingu.

Það hefur og er reyndar alltaf í umræðunni hvort það eigi að færa fimm ára börnin úr leikskólanum í grunnskólann. Ég hef alltaf verið andstæðingur þess og talið að umhverfið í grunnskólanum henti ekki þetta ungum börnum. Ég myndi reyndar vilja sjá það að börnin fari ekki úr leikskólaumhverfi fyrr en þau eru á áttunda ári, þá séu þau tilbúin að vera í því umhverfi sem grunnskólinn býður þeim. Það verður sennilega ekki á minni starfsævi sem það gerist.
Hér er samantekt á umræðunni sem Ingvi Hrannar gerði.

11. nóvember 2015

UTis2015 á Sauðárkróki

Ég var svo heppin að fá að dvelja á Sauðárkróki 5-7. nóvember s.l. með helstu UT nördum þessa lands. Það voru þau Ingvi Hrannar og Margrét í Árskóla sem áttu veg og vanda að þessari uppákomu sem nefnd var Utís á Sauðárkróki 2015.
Mikið svakalega var gaman, gaman að hitta allt fólkið sem ég hef verið í samskiptum við nánast daglega á fésbókinni, twitter og fl. samfélagsmiðlum.  Við höfum verið að hittast í menntabúðum, vefráðstefnum, Bett í London og á fleiri viðburðum í gegnum árin, en aldrei áður komið svona saman á einum stað.
Allur aðbúnaður og aðstaða var til fyrirmyndar hjá þeim Ingva Hrannari, Margréti og samkennurum í Árskóla, dekrað við okkur á allan hátt.

Samkoman hófst á móttöku og síðan skoðunarferð um Árskóla. Þar er greinilega gott starf í gangi, við spjölluðum við kennara og nemendur sem voru að fást við ýmis verkefni. Verkefni sem tengdust einelti á einhvern hátt því þennan dag var Dagur einleltis. Ég átti gott spjall við kennara á unglingastigi sem sagði mér að hún væri mjög upptekin af námsumhverfinu þessa dagana, hún væri að lesa sér til um viðfangsefnið og sagðist hafa fundið nú þegar ýmsar rannsóknir um efnið. Ég gat bent henni á M.ed ritgerð Fannýar Heimisdóttur. Þessi kennari var búin að taka inn í stofuna sína Lazyboy stóla, koma fyrir púðum á gólfinu og fl. til þess að nemendur hefðu margskonar umgjörð til þess að einbeita sér í námi sínu. Frábært að fá tækifæri til þess að kynnast kennara sem þorir að fara nýjar leiðir. Í Árskóla eru iPadar á hvern nemenda á unglingastigi og stefnt að því að taka inn iPad í kennslu í áföngum fyrir alla nemendur.
Við skoðuðum inn í alla bekki, algengast er að það sé samkennsla í árgöngum, þannig að það eru tveir kennarar með tvo bekki í kennslustofum sem hægt er að opna á milli. Við röbbuðum einnig við sérgreinakennarana og var gaman að heyra af ýmsum nýjungum sem þeir eru að vinna að.





Í hádeginu var boðið í veislu í Húsi frítímans og eftir hádegi var hópstarf, sem var skemmtilega skipulagt í fjórum skrefum. Í hverju skrefi var stokkað upp á borðum þannig að við unnum í hóp með þeim sem við höfðum ekki endilega hitt áður. Ég var svo heppin að lenda í eitt sinn eina konan í hóp með karlkynskennurum, held að það hafi ekki komið fyrir mig áður á kennarasamkomum.  Í lok hópastarfsins lágu fyrir í margar hugmyndir að þemavinnu þar sem upplýsingatækni er innvinkluð í alla vinnuna.


Þá var komið að vinnustofum í Árskóla. Þátttakendur höfðu val um að fara í fjórar vinnustofur.
-iBooks Author (Guðný Sigríður og Bergmann)
-Nearpod (Ingvi Hrannar)
-GAFE – Google Apps For Education (Hans Rúnar og Álfhildur)
FabLab (Valur Valsson, verkefnastjóri hjá NMÍ).



Ég var búin að velja Nearpod vinnustofuna og aðeins byrjuð að skoða þetta vefforrit og smáforrit.
Ingvi Hrannar leiddi okkur í gegnum allan sannleikann hvað varðar notkun á Nearpod og við vorum svo heppin að fá frían aðgang að kerfinu í eitt ár. Ég var fyrirfram með hugmynd af verkefni sem ég ætaði að vinna með og lagði því áherslu á að kynna mér nánar þá þætti sem ég var búin að sjá að gætu nýst mér.
Eftir vinnustofurnar var hlé og nýttu það margir til þess að fara í sund, rabba saman eða að skreppa í Kaupfélagið á staðnum. Það var einmitt það sem ég gerði og það var upplifun. Það fæst sko allt í kaupfélaginu. Matvörur, vefnaðarvara, byggingarvörur, tölvur og svo var hægt að fara í blóðsykursmælingu í lok verslunarferðar. Við skoðuðum okkur vel um og einhver verslaði sér jólakjól og jólabækur.
Um kvöldið var svo komið saman í Árskóla og gengið þaðan í veitingahúsið í Drangey. Þar var gestum einnig skipt upp á milli rétta svo fólk kynntist og gæti rætt við þá sem þeir þekktu ekki fyrir. Skemmtilegt fyrirkomulag sem við vorum öll sátt við.

Við vöknuðum snemma á laugardagsmorgun og fórum strax í Árskóla þar sem voru að byrja menntabúðir með frjálsum framlögum frá þátttakendum. Ég valdi að fara á tvær kynningar í fyrrihlutanum. Ég hlustaði á Guðjón Hauk segja frá því hvernig Menntaskólinn á Akureyri hefur innleitt og nýtt sér Offiice365 og svo hlustaði ég á Gunnlaug segja frá innleiðingu iPads í grunnskólum Kópavogs.
Í seinnihluta menntabúðanna valdi ég að fara í Námstæki 21. aldarinnar. Þar bauðst okkur að leika okkur með hin og þessi tól og tæki sem nýkomin voru til landsins. Ég valdi að prófa 3D penna í fyrsta sinn. Ég lenti í smá brasi með pennan, sambandsleysi háði mér við vinnuna. Mér tókst samt að útbúa körfu sem hægt var að setja í smá nammi sem gestum var boðið upp á. Þetta var mjög skemmtilegt og mér sýndist allir hafa gaman af.

Eftir hádegi var svo framhald af vinnustofu frá deginum áður, en núna var komið að hverjum og einum að halda áfram með eigin viðfangsefni. Ég vann því að mínu verkefni og fékk góða hjálp við það frá vinum á staðnum. Mitt aðalviðfangefni var að byrja á verkefni þar sem ég geri sögu sem við í leikskólanum Álfaheiði höfum notað í umfjöllun okkar um lífsgildið „Virðingu“. Þetta er sagan af henni Hönnu hlébarða sem er ólík öðrum hlébörðum. Verkefnið fólst aðalleg í því að setja inn söguna og útbúa síðan gagnvirk verkefni sem tengjast sögunni. Ég ætla síðan að halda áfram með þetta viðfangsefni og ég sé líka að ég get útbúið margskonar gagnvirkt efni sem hægt er að nota í leikskólanum, verkefni í stærðfærði o.fl..




Það var svo komið að heimferð um kl. 16 þennan laugardag. Við vorum öll á því að þetta hafi verið velheppnaðir dagar og tilbúin að hittast aftur að ári. Ingva Hrannari og Margréti var vel þakkað fyrir frábært skipulag og góða viðkynningu á Króknum.
Takk kærlega fyrir mig. Þetta var frábært og ég stefni að því að koma að ári.

18. október 2015

Nýleg öpp/smáforrit

Ég ætti sennilega að skrifa í fyrirsögnina öpp/smáforrit sem ég er nýlega farin að nota. Það bara verður svo löng fyrirsögn. Hvað um það ég ætla semsagt að segja ykkur frá smáforritum sem mér hefur nýlega verið bent á og ég byrjaði strax að nota í starfi og einkalífi.

BULLER
BULLER er smáforrit sem allir kennarar eiga að hafa í símanum sínum. Smáforrit sem mælir hávaða í umhverfinu. Ég get sýnt börnunum í símanum mínum hversu mikill hávaði er í stofunni og þau lækka sig með það sama. Forritið er mjög sjónrænt og litaglatt. Á meðan að græniliturinn ríkir erum við í góðum málum, en þurfum að hafa gát á þegar gula ljósið kemur og lækka okkur heldur betur þegar ljósið er orðið rautt. Það var vinnueftirlitið í Noregi sem lét útbúa þetta smáforrit.


GOOGLE TRANSLATE
Google Translate smáforritið er alger snilld. Það er auðvitað ekki ný uppgvötun að nýta sér Google Translate til þess að þýða yfir á önnur tungumál. Nýjungin felst aðallega í því að nýta appið/smáforritið í daglegu spjalli við foreldra af erlendum uppruna í leikskólanum. Þá er ég aðalega að tala um þann möguleika að geta þýtt íslensku eða ensku yfir á annað tungumál og nota míkrafón möguleikann. Þannig getum við með auðveldum hætti spjallað saman og það er merkilegt nokk hvað við skiljum hvert annað með þessum hætti. Stutt skilaboð eins og um foreldrafund, barnið fór í gönguferð, vantar pollagalla, bleiur og slíkt verða leikur einn með þessu smáforriti. Hvet alla kennara til þess að nýta sér þessa snilld og gera þannig foreldra upplýstari um hagi barnanna frá degi til dags. Hér er áhugaverður sjónvarpsþáttur um tilurð þessa frábæra smáforrits. Hér er svo upptaka sem sýnir hvernig við getum notað samtalsþátt smáforritsins.  Ég er búin að vera að prófa þetta með pólskum foreldrum og þetta svínvirkar.

PERISCOPE
Periscope smáforritið er nýkomið á markað og er ætlað til beinnar útsendingar á efni. Eigendur þess og framleiðendur eru þeir sömu og eiga Twitter, en þú þarft samt ekkert að tengja það saman frekar en þú vilt. Ég er ekki mikið búin að vera að prófa það, en svona smávegins samt og þá aðallega til þess að fylgjast með öðrum að tjá sig um hitt og þetta. Smáforritið er ætlað til þess að streyma á Netið viðburðum í rauntíma. Það verður að teljast líklegt að þetta smáforritið verði nýjasta æðið (Trendið) í unglingaheimnum. Sennilega kemur það líka til með að marka straumhvörf í fjölmiðlaumfjöllun. Með því er hægt að sjónvarpa um alla veröld því sem er að gerast t.d. á hamfarasvæðum, í stríði o.s.frv. Hér er sýnt hvernig hægt er að nota forritið.Hér eru líka leiðbeiningar.

Menntaspjall um vinnumat

Ég tók þátt í #menntaspjall um vinnumat á Twitter í morgun. Ég hef ekkert vit á því efni enda varðar það mig ekki þar sem ég er kennari í leikskóla.
Ég hef þó fylgst með umræðunni, bæði á vefmiðlum og einnig innan Kennarasambandsins. Ég verð að segja að mér finnst þetta óttalegt kjaftæði. Skil ekki af hverju grunnskólakennarar eru svo á móti því að skýra frá því hvaða verkefnum þeir eru að sinna í daglegu starfi sínu og fá þá metna. Það hlýtur að vera betra að fá greitt fyrir það sem þú ert að vinna að, ekki satt. Ekki það að mér finnst að þetta sé óþarfi, kennarar eru allajafna afar duglegir og vinnusamir. Það á bara að vera viðurkennt í samfélaginu að þeir eru að vinna vinnuna sína. Það sem hefur farið fyrir brjóstið á almenningi er að þeir eru ekki að vinna á vinnustaðnum og því hefur litið svo út sem þeir séu að svíkjast um. Almenningur lítur yfir bílastæðin fyrir utan grunnskólana og segir að kennarar séu farnir úr vinnu kl. 14 í stað 16. Þetta er að einhverju leiti skiljanlegt viðhorf.
Spurning hvort viðhorfið kemur til með að breytast eitthvað við gerð þessa vinnumats, veit ekki.
Við höfum hingað til borið þá gæfu í leikskólanum að vinna einfaldlega þau verkefni sem þarf að vinna. Við höfum ekkert alltaf tíma til þess, en það er önnur saga.
Við höfum hingað til nýtt okkur mannauðinn í starfsmannahópnum og góða samvinnu, þeir sem eru flinkari í einhverju ákveðnu taka að sér þau verk o.s.frv. Spurning hvort það er þannig einnig í grunnskólanum?

11. október 2015

Alþjóðlegur dagur kennara

Í tilefni af Alþjóðadegi kennara mánudaginn 5. október ákvað ég að gefa þeim sem fylgja mér á samfélagsmiðlum smá innsýn í starfið mitt. Sendi þannig inn reglulega yfir daginn myndir ásamt texta þar sem ég sagði frá því hvað ég var að fást við.
Fyrstu færsluna sendi ég inn á samfélagsmiðla rétt upp úr átta um morguninn. Þá var ég byrjuð að kenna. Fyrst á morgnanna stýri ég leikhópi þar sem lögð er áhersla á málþroska/læsi. Í leikhópnum nota ég yfirleitt alltaf iPad og þá smáforritið hennar Bryndísar Guðmunds talmeinafræðings Lærum og leikum með hljóðin.
Ég er afar ánægð með þetta smáforrit og sé miklar framfarir hjá börnunum mínum, sér í lagi þeim sem ekki hafa íslensku sem móðurmál.

Eftir smá kaffipásu tók við kennsla elstu barnanna. Þau koma alltaf til mín í upplýsingatækni einu sinni í viku. Ég er að gera tilraun með að kennna þeim í hóp fjórum í einu og legg þá áherslu á eitt smáforrit í senn. Við hófum vinnu við skemmtilegt verkefni í vikunni á undan. Börnin sömdu sögu og gerðu söguborð við hana. Í þessum tíma var því komið að því að útbúa persónur og leikendur í sögunni og einnig þá bakgrunna sem þau vilja nota við sögugerðina. Börnin eru að læra á smáforritið Pubbet Pals. Þau læra að útbúa eigin sögu alveg frá grunni. Þetta var alveg einstaklega skemmtileg kennslustund enda börnin afar hugmyndarík og klár. Þau nýttu vel efniviðinn sem var í boði og höfðu ákveðnar skoðanir á því hvernig þau vildu hafa söguna.
Eftir hádegisverð er komið að hvíld og bóklestri. Ég er svo heppin að fá að lesa fyrir nokkur elstu barnanna og valdi að byrja á bókinni Tröllagleði. Við lásum ca. 1/3 af henni og fórum svo í smáforrit sem heitir Froskaleikur og er eins og Lærum og leikum með hljóðin úr smiðju Bryndísar Guðmundsdóttur. Frábært forrit sem börnin eru afar spennt yfir því við erum svo lengi að fara í gegnum það allt. Höfum núna verið í þrjár vikur að vinna í því og erum ekki ennþá búin að komast í kastalann. Það styttist samt í það og þess vegna eru börnin afar spennt orðin.
Eftir hádegi tók svo aftur við vinna með elstu börnunum. Núna voru það aðrir tveir hópar sem komu í upplýsingatæknitíma.Eins og um morguninn þá vorum við að skapa persónur og leikendur, bakgrunna og æfa okkur í forritinu Pubbet Pals. Mikið rosalega hef ég gaman af því að vera með þeim í þessari vinnu. Börnin eru svo skemmtileg og hugmyndarík. Hægt er að fylgja okkur eftir hér.
Rétt fyrir kl. 16 hentist ég svo úr leikskólanum og náði rétt svo í tæka tíð á málþing um samfélagsmiðla sem haldið var í tilefni Alþjóðadags kennara á Grand Hótel. Þar voru mjög áhugaverð erindi flutt um notkun samfélagsmiðla í kennslu. Ég hélt áfram að senda inn myndir á samfélagsmiðla frá þessum viðburði. Hægt er að sjá og hlusta á erindin hér.
Það var eftirminnilegt þegar Ingvi Hrannar lét þrjá sjálfboðaliða tæma tannkremstúpu, sjampóbrúsa og raksápu. Hætti svo við í miðjum klíðum og bað fólkið um að taka efnið til baka. Það var auðvitað ekki hægt og svipurinn á þeim var óborganlegur. Þetta gerði hann til þess að sýna verklega fram á það hversu varkár við verðum að vera á samfélagsmiðlum. Það sem við skrifum og setjum á miðlana er ekki aftur tekið.
Alþjóðadag kennara endaði ég svo á því að útbúa Fréttabréf fyrir Faghóp um skapandi leikskólastarf. Í fyrsta sinn kom Fréttabréfið eingöngu út í rafrænu formi, áður hafði það verið útbúið í word og sent á Netið í pdf formi. Fréttabréfið útbjó ég í Tackk sem ég er afar ánægð með. Hentar ljómandi vel til þess að útbúa fréttabréf.

20. september 2015

Menntaspjall um karla í kennslu

Í morgun tók ég þátt í fjörugu menntaspjalli á Twitter. Það voru óvenju margir karlkennarar mættir til leiks og vonandi eru þeir komnir til að vera. Gátan var að sjálfsögðu ekki leyst í svona stuttu spjalli, en það komu fram margir áhugaverðir vinklar í umræðunni. Föstudaginn 9. október stendur FL og FSL fyrir morgunverðarfundi ásamt samstarfsaðilum um þetta efni Karlar í yngri barna kennslu - hvað ætlar þú að gera? Við vonum að það verði fjölmennt, en fundurinn er í og með haldinn til þess að vekja athygli á ráðstefnu sem við verðum einnig með föstudaginn 12. febrúar 2016.
Hér má sjá samantekt umræðunnar í morgun.

13. september 2015

20 færniþættir sem kennarar þurfa að hafa á 21. öldinni

Vefurinn Educatorstechnology.com hefur birt lista yfir 20 helstu færniþætti sem kennarar þurfa að búa yfir á 21. öldinni. Það er áhugavert að lesa yfir þennan lista og máta sig við hann. Það besta við listann er að ef kennarar eru vanmáttugir á einhverju þeirra sviða sem nefnd eru þá er bent á hvar er hægt að æfa sig og sækja sér þekkingu til þess að vera betri kennari.


7. september 2015

Menntaspjall um sköpun í skólastarfi

Ég tók þátt í Menntaspjalli á Twitter í gær. Magnað hvað það eru margir kennarar til í að eyða frítíma sínum á sunnudegi í spjall um skólastarf. Sé það nú ekki alveg fyrir mér að margar aðrar stéttir myndu gera það sama, en hver veit.
Að þessu sinni var umfjöllunarefnið sköpun í skólastarfi og komu fram mörg sjónarmið, en almennt fannst mér á fólki að þessi mál væru í þokkalegu fari. Allavega voru þátttakendur jákvæðir og sammála um mikilvægi list- og verkgreina í skólum. Helst var að heyra (eða lesa) að það vantaði meiri samþættingu námsgreina í grunnskólanum, en það er ekki í fyrsta sinn sem ég heyri það. Flestir voru sammála um mikilvægi þekkingar og færni þeirra kennara sem hafa menntað sig á sviði list- og verkgreina og þess að aðrir kennarar þurfi að njóta þekkingar þeirra. Ég er á því að það eigi að vera til "sköpunartorg" alveg eins og UT torg, tungumálatorg og fl.
Það er spurning hvort Menntamiðja komi ekki til með að þróast áfram og taki þetta verkefni að sér.
Hér má sjá samantekt viðræðananna.

23. ágúst 2015

iPad innleiðing

Ég var í dag að undirbúa fyrirlestur fyrir samstarfsfólkið í Álfaheiði. Ég ætla að fjalla um í erindi mínu um innleiðingu á notkun iPad í skólastarfi.
Nú er akkúrat ár síðan að við fengum iPad inn á allar deildir leikskólans og löngu tímabært að ræða það hvað við raunverulega erum að gera með þá. Var einmitt að hugsa um það í leiðinni af hverju Kópavogsbær leggur alla sína orku þessa dagana í að innleiða iPad í grunnskólanna, en hefur ekki einu sinni spurt okkur í leikskólunum hvað varð um iPadana. Hvað ætli séu margir ónotaðir inni í skápum?  Þeim var bara dreift um bæinn og svo bara ekkert. En það er nú önnur saga.
Ég skoðaði margskonar leiðir við innleiðingu iPads og upplýsingatækni út um lönd, en fann ekkert bitastætt sem vísar til notkunar á iPad í leikskólastarfi. Að sjálfsögðu er hægt að miða við þau módel sem þekkt eru SAMR eða SVAN eins og Ingvi Hrannar hefur þýtt það módel, en dæmin sem notuð hafa verið eru öll miðuðu við önnur skólastig.
Ég sé því að ég verð að finna dæmin sjálf og það hef ég einmitt verið að gera í allan dag, hugsa og hugsa upp dæmi. Nokkur hef ég fundið sem geta átt hér við, en ég er samt sem áður að hugsa um að heyra í samstarfsfólkinu áður en ég upplýsi um þau hér.
Í grúskinu fann ég fínan fréttapóst frá HighScope þar sem fjallað er um upplýsingatækni í leikskólastarfi. Hugsanlega hafa einhverjir áhuga á að lesa þetta. Þarna er gerð skil skýrri stefnu HichScope leikskólanna. Stefnu sem er ígrunduð og byggð á raunverulegri hugmyndafræðilegri nálgun. Þarna er verið að velta fyrir sér kostum og göllum.
Ég hrífst aðallega af því að þó svo að nokkur neikvæðni ríki í garð upplýsingatækni fyrir ung börn og rannsóknir sýni að allt niður í tveggja ára börn séu komin með 2 klst. skjátíma á sólarhring er lausnin ekki sú að banna upplýsingatækni heldur að vinna með hana á skapandi hátt.

12. maí 2015

Snilldar bók

Ég bara verð að segja ykkur að þessi bók The free education technology resources eBook er algerlega að mínu skapi og er ókeypis í þokkabót. Þarna er vísað í 200 frí verkfæri til þess að nýta í kennslu og ekki nóg með það heldur er vísað á efni til þess að læra að nota þau líka. Getur kona beðið um meira?


Stafræn borgaravitund

Áhugaverður fyrirlestur hjá henni Sólveigu Jakobsdóttur. Ég held að okkur veitti ekki af að fá svona fyrirlestur reglulega, það er svo auðvelt að gleyma sér í hinu starfræna umhverfi. Hver á? og Hver má?
Vinnu minnar vegna hef ég undanfarið mikið verið að spá í siðferði kennara og þá sérstaklega á samfélagsmiðlum, velti því fyrir mér hvort við þurfum aðrar siðareglur fyrir hið stafræna umhverfi.. Það er með ólíkindum hvað fólk lætur frá sér fara og þeir sem fyrir verða eru algjörlega máttlausir gagnvart því.
Það er eiginlega ekki hægt að tala um stafræna borgaravitund öðruvísi en að ræða um siðferði um leið.

Á vefnámskeiðinu var vísað í áhugaverðan vef í Alberta fylki í USA. Greinilegt að þar á bæ eru skólayfirvöld komin mun lengra en við í að nálgast kennsluhætti 21. aldarinnar. Hvet alla til þess að skoða vefinn. Þar á bæ hafa verið gefnar út sérstakar leiðbeinandi reglur. Digital Citizenship Policy Development Guide

10. maí 2015

Menntaspjall - Samstarf atvinnulífs og skóla

Í morgun var #menntaspjall á dagskrá á Twitter. Að þessu sinni var umræðuefnið samstarf atvinnulífs og skóla. Það voru fjörugar umræður að vanda sem Katrín Dóra Þorsteinsdóttir sá um að stjórna af mikilli röggsemi. Það var greinilegt að samstarfsfletir milli skóla og atvinnulífsins liggja víða.
Ég gat að vísu aðeins talað út frá leikskólanum og við höfum á margan hátt nýtt okkur fyrirtæki og stofnanir til þess að auðga nám barnanna. Við höfum bæði farið í heimsóknir til foreldra og fengið þá til okkar til þess að segja börnunum frá starfi sínu. Svo höfum við alltaf að einhverju leiti nýtt okkur vettvangsheimsóknir í fyrirtæki í tengslum við ákveðin þemu sem eru í gangi.
Ég man eftir því í "gamla daga" hvað hann Finnur í fiskbúðinni á Smiðjuveginum var duglegur að aðstoða okkur í leikskólanum Efstahjalla þegar við vorum að vinna með þemað fiskur. Finnur safnaði mörgum fisktegundum og kröbbum og kallaði svo í okkur svo börnin fengju að skoða fjölbreyttar tegundir af fiski. Við fórum svo alltaf með einhver sýnishorn með okkur í leikskólann. Einu sinni krufum við ýsu af því börnin vildu fá að sjá inn í hana. Börnin lærðu þannig ýmislegt um líffæri fiska. Margt sem kom þeim á óvart þá, en lyktin var víst ekki alltaf vinsæl og ég varð stundum að henda út skeljum og kröbbum vegna kvartana frá samstarfsfólki og öðrum sem ekkert vit höfðu á sjávarfangi. En það er nú önnur saga.
Hér er samantekt Ingva Hrannars á menntaspjalli dagsins.

27. apríl 2015

Menntaspjall á Twitter

Það var mikið fjör á Twitter #menntaspjall (inu) í gær. Man bara ekki eftir svo fjölmennu spjalli áður. Frábært hvað kennarar eru duglegir að leggja það á sig á sunnudagsmorgni að taka þátt í spjalli með kollegum sínum.
Í þetta sinn var ekkert ákveðið þema í gangi, heldur var leitað eftir spurningum hjá öllum fyrir laugardagssíðdegið og svo völdu þeir Tryggvi og Ingvi Hrannar umsjónarmenn menntaspjallsins úr spurningunum. Yfirskriftin að þessu sinni var því „Úr öllum áttum“. Hér má sjá samantekt Ingva Hrannars á því sem fram fór.

21. apríl 2015

Tvö Menntavörp á einum degi

Í gær hlustaði ég á tvö Menntavörp sem mig langar til þess að fjalla um.
Hið fyrra var spjall um fullyrðingu Sugata Mitra: Börn geta kennt sér sjálf. Þar sem ég hef fylgst með Sugata í mörg ár, eða áður en við í stjórn 3f fengum hann til þess að koma í heimsókn hingað til Íslands, vildi ég ekki missa af þessum viðburði.
Þátttakendur í spjallinu voru auk Sugata Mitra @Sugatam Founder, School in the Cloud
Amy Harrington @amygharrington Self-directed learning advocate
Mike Godsey @TheMrGodsey
High school teacher  og
Sunita Sehmi @WalkTheTalkGVA
Skype Granny
Spjallið var mjög áhugavert og greinilegt að starf Sugata Mitra hefur vakið áhuga viðmælendanna, en t.d. Mike Godsey telur aðferðir hans ógn við það skólastarf sem hann telur best.  Sugata var beðinn um að skýra frá því hvernig hann telji að framtíðarskólinn verði. Sugata sagði að hann vildi lýsa þessu eins og ferðalagi í strætisvagni. Þú getur ákveðið að stýra vagninum sjálfur, en þú getur líka ákveðið að leyfa nemendum að læra að aka sjálfum. Þau voru svo sannarlega ekki sammála og æstu sig stundum upp. Það er greinilegt að Sugata er að hræra vel upp í fólki og mér finnst það mjög áhugavert. Hægt er að hlusta á umræðurnar hér.  Ég hvet lesendur einnig til þess að skoða vel Twitter tístin, en samantekt á þeim eru fyrir neðan varpið. 

Seinna Menntavarpið sem ég hlustaði á var íslenskt, en þar voru að spjalla saman Ragnar Þór, Ingvi Hrannar og Björn Gunnlaugsson verkefnastjóri spjaldtölvuvæðingar í Kópavogi. Þeir voru að spjalla um væntanlega iPadvæðingu í grunnskólum Kópavogs. Þeir félagar voru mun meira sammála í þessu spjalli en í því fyrra. Björn er ósmeikur að takast á við þetta stóra verkefni. Þeir félagar Ragnar og Ingvi Hrannar spurðu hann hvort það væri ekki gefið að verkefnið myndi mistakast, því mun stærri verkefni með mikla peninga á bak við sig hefðu fallið um sjálft sig. Þar áttu þeir við iPadinnleiðinguna á LA svæðinu í USA. 
Ég reyndi að senda inn fyrirspurn í spjallið, en það var svo sem ekki mikið um svör. Hægt er að hlusta á Menntavarpið hér. 

12. apríl 2015

Menntaspjall - Samstarf skólastiga

Í dag var #menntaspjall á Twitter sem ég tók að mér að stjórna. Ingvi Hrannar tók saman umræðurnar svo hægt er að skoða þær hér.


Spennandi ráðstefna og fl.

Ég var að vafra um á Netinu og rakst á mjög spennandi ráðstefnu "iPad Summit Boston 2015" sem verður í Boston í 17 og 18. nóvember 2015. Það er svo einnig boðið upp á vinnustofur daginn áður 16. nóvember. Auðvitað poppar strax upp í hugann "Ég fer" en þegar niður á jörðina er komið er það auðvitað borin von að ég hafi efni á því. Svona ferð á ráðstefnu myndi kosta mig mánaðarlaun. Það kostar rúm 100.000 kr. bara ráðstefnugjaldið, meira ef maður tæki þátt í vinnustofunni á undan og svo er það flug, gisting og uppihald eftir og ég er búin að nýta alla styrkjamöguleika hjá vísindasjóði FL/FSL.

Þar fór það, en hvað annað get ég gert, jú það eru nú þegar gefin upp nöfn þeirra sem munu verða aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar og ég get fylgst með þeim. Ég sé að nokkur þeirra þekki ég nú þegar, kennarar sem eru duglegir við að blogga og segja frá hvernig þeir nýta upplýsingatækni í kennslu. Nú þegar er allt þetta fólk og fleiri áhugasamir farnir að tísta  á Twitter með hastakinu #ettipad og skiptast þar á fróðleik sem afar áhugavert er að fylgjast með. Svo er bara að fylgjast reglulega með heimasíðu ráðstefnunnar og pikka upp nöfn þeirra sem bjóða sig fram til að vera með í málstofum. Það verður spennandi að sjá hvort þar verða ekki einhverjir kennarar sem hafa verið að prófa sig áfram með iPad í kennslu og hafa orðið góða reynslu og færni sem nýtist okkur hinum.

Hér fyrir neðan eru krækjur á blogg þeirra sem verða aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar og hvet ég alla til þess að fylgjast með þeim.

Gay Kawasaki útskrifaðist frá Stanford 1976 sem sálfræðingur, hann segist sjálfur hafa verið latur í skóla og enginn sérstakur námsmaður. Hér er hægt að lesa meira um náms og starfsferil hans.
Gay heldur úti bloggi á heimasíðu sinni sem er áhugavert að fylgjast með. Ég hef allavega einu sinni hlustað á hann á TED, sjá hér. 

Kathy Schrock er kennari sem ég hef fylgst með lengi. Hún hefur starfað sem kennsluráðgjafi frá því 1990 og einbeitt sér að upplýsingatækni í skólum, bókasöfnum og öðrum opinberum stöðum í sínu nágrenni. Hún heldur úti nokkrum vefsíðum þar sem hún er að fjalla um upplýsingatækni m.a. í kennslu. Hún er mjög afkastamikill bloggari og bendir á margt áhugavert sem við getum nýtt okkur í kennslu.

Kristen Wideen er iPad fan og hefur kennt í leikskóla og upp í sjötta bekk. Hún setur stöðugt inn á bloggið sitt áhugavert efni sem nýtist nemendum, kennurum og foreldrum vel. Hún er hætt að kenna því það er svo mikið að gera hjá henni við að ferðast um Bandaríkin og halda erindi á ráðstefnum. Þar talar hún eingöngu um það hvernig hægt er að nýta iPad í skólastofunni. Kristen hefur á heimasíðu sinni gert lista yfir áhugaverð blogg, þar sem fjallað er um upplýsingatækni í kennslu. Endilega skoðið listann.

Justin Reich er áhugasamur um kennslufræði og menntaður fræðimaður frá Harvard háskóla og heldur úti að eigin sögn rafrænni ferilmöppu þar sem hann segir frá því sem hann upplifir og lærir í upplýsingatækni. Hann er einn af stofnendum Ed Teach Teacher sem heldur ráðstefnuna.

Kyle Pearce er stærðfræðikennari af líf og sál. Hann bloggar um stæðrfærði og vísindi og hvernig hægt er að nýta iPad í kennslu. Margt mjög áhugavert sem hann er að bendir á. Tab into TeenMinds heitir bloggið hans.

Reshan Richards er framkvæmdastjóri Educational Technology ans Mobile learning sem ég hef fylgst mikið með lengi. Reshan hefur í seinni tíð snúið sér að smáforritagerð og er t.d. einn af höfundum Explain Everything appinu. Hann samdi líka bókina Leading Online sem hægt er að kaupa á Appstore.

Greg Kulowic veit ég bara lítið um, en hann er einn af þeim sem eru með Ed Teach Teacher og bloggið hans heitir The History 2.0 Classroom. 

Patrick Larkin er kennari sem starfar sem kennsluráðgjafi í Burlington skóla. Hann hefur verið að innleiða iPad í skólastarfið. Margt hægt að græða af reynslu hans.

Jonathan R Werner er bókasafns og upplýsingafræðingur sem er afar áhugasamur um upplýsingatækni í kennslu. Hann starar sem bókasafnsfræðingur og tækniráðgjafi í Cape Elizabet bókasafninu í Maine í USA. Hann er mjög virkur á Twitter með hastakið #1to1teacht, en hann var í mastersnámi og hélt þá úti bloggi sem er að finna hér. 

Thomas Daccord er víðförull kennsluráðgjafi, hefur verið til ráðgjafar við námskrárgerð í mörgum heimsálfum. Hér er hægt að hlusta á eitt af erindum hans.

Sabba Quitwai er háskólkennari í Suður Californíu. Hún hefur reynslu af því að innleiða iPad í kennslu á unglingastigi. Heimasíðan sem hún kemur að var valin ein sú besta í fyrra. Það er síðan iPad Educators: iPad in Education

Graig Badura er upplýsingatækni kennari og hefur verið að innleiða UT í kennslu Auroraskóla í Nebraska í USA. Bloggið hans var valið eitt af 10 bestu bloggum um kennslustarf í fyrra.

Beth Holland er kennari sem útskrifaðist með meistaragráðu frá Harvard. Hún er ein af Ed Teach Teacher teyminu og bloggar um UT í skólatarfi. 

Lawrence Reiff er sögukennari í Roslyn High School in Roslyn, NY. Hann er þekktastur fyrir Shakespeare’s Romeo & Juliet 

7. apríl 2015

Fréttabréf Samspil 2015

Það var að koma út fyrsta Fréttabréf Samspil 2015. Ég er alltaf að vona að fleiri leikskólakennarar vilji vera með. Það kemur fram í fréttabréfinu að það eru 250 kennarar skráðir og er það ljómandi gott.

Það eru þemu í hverjum mánuði og í apríl verður þemað samfélagsmiðlar og í maí verður það sköpun. Ég hlakka til að takast á við viðfangsefnin sem boðið verður uppá. Búin að skrá hjá mér tímasetningar svo það fari ekki fyrir mér eins og síðast þá missti ég af vefnámskeiðinu þar sem Hans Rúnar fjallaði um skýjalausnir. Það er hægt að hlusta á upptökur frá hans erindi fyrri hluti er hér og seinni hluti hér.


4. apríl 2015

Vefnámskeið með Richard Byrne

Mjög seint á s.l. fimmtudagskvöld (skírdag) tók ég þátt í vefnámskeiði (Best Backchannel and Informal Assessment Tools) hjá Richard Byrne. Richard þessi heldur reglulega svona stutt námskeið þar sem hann fjallar um margskonar veftól sem hægt er að nýta í námi og kennslu. Námskeiðið var fjölmennt og þátttakendur héðan og þaðan úr veröldinni. Richard, sem er Íslandsvinur og á leið í sína þriðju ferð til landsins, er afar afkastamikill bloggari (Free Technology for teachers) og óspar á góð ráð og hugmyndir um það á hvern hátt við kennarar getum nýtt upplýsingatækni í starfi okkar við kennslu.
Námskeiðið fór fram í vefkerfi sem heitir Training Wiewer. Bráðsniðugt tól til þess að halda svona stutt námskeið. Richard tók upp námskeiðið jafnóðum svo þið getið séð og heyrt það hér. 

Á námskeiðinu fjallaði hann m.a. um eftirfarandi veftól sem eru ókeypis:

Todays Meet sem er mjög sniðugt til þess t.d. að nota í bekknum, þá geta börnin skipst á hugmyndum, lagt inn fyrirspurnir til hvers annars eða fjallað um eitthvað ákveðið efni. Nemendur geta t.d. safnað saman heimildum sem varða ákveðið verkefni sem þau eru að vinna að. Möguleikarnir eru í raun óþrjótandi.

Tozzl er svipað kerfi, en hefur þó meiri möguleika á að deila ljósmyndum og myndböndum til þess að kalla fram umræðu í bekknum. Mér sýndist þetta kerfi sniðugra og auðveldara í notkun, gæti líka hentað með mjög ungum börnum. Hægt er að vista umræðuna sem fór fram og líka að senda hana í tölvupósti.

QR Droid Zapper sem er forrit til þess að útbúa QR kvóða til þess að vísa nemendum á viðeigandi verkefni. Börn hafa svakalega gaman af slíkum kvóðum, það hef ég reynt sjálf í leikskólanum.

Padlet er sniðugt til þess að vinna með börnum og Richard sýndi nokkra einfalda möguleika á að nýta það kerfi í kennslu. Hér er líka kennslumyndband á hvern hátt hægt er að nota Padlet sem hann hefur gert og sett á YouTube.

Socrative er skemmtilegt til þess að útbúa t.d. spurningar. Hægt er að fara í spurningaleiki með nemendum og það þykir þeim ákaflega skemmtilegt. Reyndar gekk kerfið ekki alveg upp hjá okkur þetta kvöld, netsambandið var ekki nógu tryggt.

Kahoot er að mínu mati einfaldara kerfi til þess að útbúa skemmtilega spurningarleiki. Það er mun sjónrænna og því heppilegra fyrir t.d. ung börn. Börnunum í leikskólanum þykir mjög gaman að fara í svona spurningarleiki.

81Dash er kerfi til þess að nota með bekknum á svipaðan hátt og hin kerfin sem ég benti á hér á undan. Þú getur sent nemendum skilaboð og vísað þeim á ákveðið efni og sett inn krækjur og verkefni sem börnin eiga að vinna að.

Frábært að taka þátt í svona örnámskeiðum á Netinu og mæli ég með að allir prófi að taka þátt.

Takk fyrir mig Richard Byrne.