5. janúar 2017

Nýtt ár og nýjar áskoranir

Gleðilegt ár ef það er einhver að lesa bloggið mitt.

Ég nefni þessa færslu nýtt ár og nýjar áskoranir aðallega vegna þess að ég er að hefja nám að nýju. Ég var svo heppin að vinnuveitandi minn Kópavogsbær veitti mér námsleyfi í 9 mánuði til þess að mennta mig frekar á sviði upplýsingatækni. Ég er afar þakklát og ætla að reyna að standa mig í því að verða vitrari og ekki hvað síst að deila með öðrum því sem ég læri.
Það er margt sem á daga mína hefur drifið frá því ég bloggaði síðast og aðallega hef ég nú verið að nota fésbókina til þess að miðla því sem ég hef lært. Ég hef samt ekki alveg verið sátt við þann miðil vegna þess að færslurnar hverfa jafnóðum og þær verða til þar. Þess vegna ætla ég að skrásetja hér ferðalagið mitt í náminu og deila því svo á samfélagsmiðlum. Þannig held ég að efnið verði líka aðgengilegra fyrir aðra kennara sem eru leitandi að nýjungum og upplýsingum sem þeir geta nýtt í starfi sínu.
Ég er þessa dagana að koma mér í lærdómsgírinn, aðeins búin að kíkja inn á námsvefina þar sem námskeiðin mín eru. Það er búið að setja fyrir í einu námskeiðinu Starfendarannsóknir sem er rosalega spennandi. Ég á sem sagt að lesa tvær greinar fyrir staðlotuna sem verður í næstu viku. Grein eftir Hafþór Guðjónsson, Kennarinn sem rannsakandi og svo grein eftir Ívar Rafn Jónsson, Að virkja sjálfstæða hugsun nemenda.
Ekker er ennþá komið inn á vef námskeiðsins Hönnun námsefnis og stafræn miðlun, en ég er mest spennt fyrir þessu námskeiði, enda hef ég ákveðna hugmynd um lokaverkefni því tengt. Þriðja námskeiðið er svo eigindlegar rannsóknaraðferðir, námskeið sem ég held að verði áhugavert.
Ég ætla að reyna að vera dugleg að setja inn reglulega fréttir hér, en mest verða þær sennilega tengdar upplýsingatækni í kennslu, en kannski líka hugleiðingar mínar sem tengjast náminu almennt.

Engin ummæli: