11. október 2015

Alþjóðlegur dagur kennara

Í tilefni af Alþjóðadegi kennara mánudaginn 5. október ákvað ég að gefa þeim sem fylgja mér á samfélagsmiðlum smá innsýn í starfið mitt. Sendi þannig inn reglulega yfir daginn myndir ásamt texta þar sem ég sagði frá því hvað ég var að fást við.
Fyrstu færsluna sendi ég inn á samfélagsmiðla rétt upp úr átta um morguninn. Þá var ég byrjuð að kenna. Fyrst á morgnanna stýri ég leikhópi þar sem lögð er áhersla á málþroska/læsi. Í leikhópnum nota ég yfirleitt alltaf iPad og þá smáforritið hennar Bryndísar Guðmunds talmeinafræðings Lærum og leikum með hljóðin.
Ég er afar ánægð með þetta smáforrit og sé miklar framfarir hjá börnunum mínum, sér í lagi þeim sem ekki hafa íslensku sem móðurmál.

Eftir smá kaffipásu tók við kennsla elstu barnanna. Þau koma alltaf til mín í upplýsingatækni einu sinni í viku. Ég er að gera tilraun með að kennna þeim í hóp fjórum í einu og legg þá áherslu á eitt smáforrit í senn. Við hófum vinnu við skemmtilegt verkefni í vikunni á undan. Börnin sömdu sögu og gerðu söguborð við hana. Í þessum tíma var því komið að því að útbúa persónur og leikendur í sögunni og einnig þá bakgrunna sem þau vilja nota við sögugerðina. Börnin eru að læra á smáforritið Pubbet Pals. Þau læra að útbúa eigin sögu alveg frá grunni. Þetta var alveg einstaklega skemmtileg kennslustund enda börnin afar hugmyndarík og klár. Þau nýttu vel efniviðinn sem var í boði og höfðu ákveðnar skoðanir á því hvernig þau vildu hafa söguna.
Eftir hádegisverð er komið að hvíld og bóklestri. Ég er svo heppin að fá að lesa fyrir nokkur elstu barnanna og valdi að byrja á bókinni Tröllagleði. Við lásum ca. 1/3 af henni og fórum svo í smáforrit sem heitir Froskaleikur og er eins og Lærum og leikum með hljóðin úr smiðju Bryndísar Guðmundsdóttur. Frábært forrit sem börnin eru afar spennt yfir því við erum svo lengi að fara í gegnum það allt. Höfum núna verið í þrjár vikur að vinna í því og erum ekki ennþá búin að komast í kastalann. Það styttist samt í það og þess vegna eru börnin afar spennt orðin.
Eftir hádegi tók svo aftur við vinna með elstu börnunum. Núna voru það aðrir tveir hópar sem komu í upplýsingatæknitíma.Eins og um morguninn þá vorum við að skapa persónur og leikendur, bakgrunna og æfa okkur í forritinu Pubbet Pals. Mikið rosalega hef ég gaman af því að vera með þeim í þessari vinnu. Börnin eru svo skemmtileg og hugmyndarík. Hægt er að fylgja okkur eftir hér.
Rétt fyrir kl. 16 hentist ég svo úr leikskólanum og náði rétt svo í tæka tíð á málþing um samfélagsmiðla sem haldið var í tilefni Alþjóðadags kennara á Grand Hótel. Þar voru mjög áhugaverð erindi flutt um notkun samfélagsmiðla í kennslu. Ég hélt áfram að senda inn myndir á samfélagsmiðla frá þessum viðburði. Hægt er að sjá og hlusta á erindin hér.
Það var eftirminnilegt þegar Ingvi Hrannar lét þrjá sjálfboðaliða tæma tannkremstúpu, sjampóbrúsa og raksápu. Hætti svo við í miðjum klíðum og bað fólkið um að taka efnið til baka. Það var auðvitað ekki hægt og svipurinn á þeim var óborganlegur. Þetta gerði hann til þess að sýna verklega fram á það hversu varkár við verðum að vera á samfélagsmiðlum. Það sem við skrifum og setjum á miðlana er ekki aftur tekið.
Alþjóðadag kennara endaði ég svo á því að útbúa Fréttabréf fyrir Faghóp um skapandi leikskólastarf. Í fyrsta sinn kom Fréttabréfið eingöngu út í rafrænu formi, áður hafði það verið útbúið í word og sent á Netið í pdf formi. Fréttabréfið útbjó ég í Tackk sem ég er afar ánægð með. Hentar ljómandi vel til þess að útbúa fréttabréf.

2. október 2015

Skólaþing 8. deildar FL og FSL á Selfossi

Ég var í dag með vinnustofu á skólaþingi á Selfossi. Þetta var einhver fjölmennasta vinnustofa sem ég hef verið með. Gekk alveg ótrúlega vel, enda þátttakendur afar áhugasamir og með á nótunum. Markmiðið með vinnustofunni var m.a. að þátttakendur yfirvinni óöryggi sitt í að nota iPadinn í leikskólanum. Það er nefnilega þannig að í mörgum leikskólum liggur iPadinn upp í hillu og enginn finnur not fyrir hann. Ég lagði áherslu á að þátttakendur setji sér markmið með notkun hans og bæti honum inn í það góða starf sem fyrir er í leikskólanum. Svo kenndi ég þeim á fjögur mjög góð smáforrit. Þátttakendur fengu góðan tíma til þess að æfa sig í öppunum og markmiðið var að þeir gætu strax á mánudeginum farið í leikskólann og byrjað að vinna með börnunum í iPadinum. Öll smáforritin eru þannig gerðar að þau ýta undir sköpun og ímyndunarafl barnanna og eru læsishvetjandi um leið. Smáforritin sem ég kenndi þeim á eru:

Book Creator

Chatter Pix

Little Story Creator

Pubbet Pals
























23. september 2015

Skapandi leikskólastarf í Garðaseli á Akranesi

Ég var svo heppin að hafa tækifæri á að skreppa upp á Skaga með Faghópi um skapandi leikskólastarf í gær. Faghópurinn heldur reglulega yfir veturinn viðburði til þess að vekja athygli á skapandi starfi í leikskólum. Núna var röðin komin að Skagamönnum að bjóða heim.
Þær tóku vel á móti okkur Ingunn leikskólastjóri, Guðlaug og Hafrún sem eru kennarar elstu barnanna í leikskólanum. Garðasel starfar eftir heilsustefnunni og leggja mikla áherslu á hreyfingu, góða næringu og listir.
Umhverfið sem þær nýta vel er dásamlegt, hægt er að fara í langar og stuttar ferðir út í náttúruna, niður á Langasand og upp í skógrækt. Ekki laust við að ég öfundi þær svolítið og það læðist að mér og ekki í fyrsta sinn sú spurning; hvað ef ég hefði farið aftur heim..... ég er nefnilega Skagamaður að uppruna.
Hér má sjá skjákynninguna þeirra og ljósmyndir frá viðburðinum.


20. september 2015

Menntaspjall um karla í kennslu

Í morgun tók ég þátt í fjörugu menntaspjalli á Twitter. Það voru óvenju margir karlkennarar mættir til leiks og vonandi eru þeir komnir til að vera. Gátan var að sjálfsögðu ekki leyst í svona stuttu spjalli, en það komu fram margir áhugaverðir vinklar í umræðunni. Föstudaginn 9. október stendur FL og FSL fyrir morgunverðarfundi ásamt samstarfsaðilum um þetta efni Karlar í yngri barna kennslu - hvað ætlar þú að gera? Við vonum að það verði fjölmennt, en fundurinn er í og með haldinn til þess að vekja athygli á ráðstefnu sem við verðum einnig með föstudaginn 12. febrúar 2016.
Hér má sjá samantekt umræðunnar í morgun.

17. september 2015

Upplýsingatækni í leikskólanum

Jæja, nú hef ég fylgt eftir kennsluáætluninni sem ég útbjó fyrir elstu börnin í leikskólanum. Eins og ég hef áður komið inn á hér í blogginu mínu þá ákvað ég að gera tilraun í vetur með að kenna þeim sérstaklega að nota ákveðin smáforrit einu sinni í viku. Þetta eru allt smáforrit sem krefjast skapandi hugsunar og samvinnu barnanna.
Ég hef vikulega sett in fréttir fá vinnunni og geta lesendur fylgst með hér á heimasíðu Lundar. Ég ákvað að hafa myndaalbúmið sem tengist kennslunni opið þannig að allir geti fylgst með og kannski lært eitthvað af því sem við erum að gera.
Það hefur komið mér á óvart hversu vel hefur gengið. Börnin eru alveg ótrúlega áhugasöm og námsfús. Þau hafa af þessu líka mikla ánægju og það hefur verið frábært að sjá hversu mikið þeim fer fram.
Mig langar að nefna eitt dæmi, en þannig er að það er eitt barn í hópnum (þau eru þrjú í hópnum) sem hefur annað móðurmál en íslensku. Barnið hefur verið frekar þögult í leikskólanum og er í verunni einnig mjög hlédrægt. Strax í fyrstu tímunum fór ég að taka eftir því að það tók virkan þátt í því að tala inn á í forritinu Chatter Pix. Síðustu tvær vikur höfum við svo verið að vinna í smáforritinu Pubbet Pals og barnið er bókstaflega að blómstra. Það talar og talar fyrir brúðurnar og segir mjög skemmtilega frá. Það skemmtilega við þetta er ekki hvað síst hvað barnið kemur vinum sínum mikið á óvart. Þau hafa orð á því hvað barnið sé skemmtilegt. Börnin eru greinilega að sjá alveg nýja hlið á barninu.
Hér er smá sýnishorn af því sem er að gerast í upplýsingatæknikennslustund hjá okkur.


IMG_3131

13. september 2015

20 færniþættir sem kennarar þurfa að hafa á 21. öldinni

Vefurinn Educatorstechnology.com hefur birt lista yfir 20 helstu færniþætti sem kennarar þurfa að búa yfir á 21. öldinni. Það er áhugavert að lesa yfir þennan lista og máta sig við hann. Það besta við listann er að ef kennarar eru vanmáttugir á einhverju þeirra sviða sem nefnd eru þá er bent á hvar er hægt að æfa sig og sækja sér þekkingu til þess að vera betri kennari.


20 mikilvæg tól til þess að nota í námi og kennslu

Vefurinn Graphite.com var að birta lista yfir þau 20 tól sem kennarar í henni Ameríku vilja meina að séu mikilvæg í námi og kennslu núna um þessar mundir. Það er athyglisvert að sjá svona lista og ósjálfrátt fer maður að máta við sig, já þetta þekki ég og þetta ekki. Allavega eru svona listar til þess að ég fer að prófa þessi tól sem svona listar benda á. Stundum gerir maður merkilegar uppgötvanir og finnur öpp sem maður getur notað strax með ungum börnum í leikskólanum. Annað er ónothæft með börnunum, en getur verið áhugavert fyrir kennarana sjálfa að nota.
Mæli með að lesendur gefi svona listum tækifæri og skoði þau tól sem bent er á.


7. september 2015

Nýtt fréttabréf Samspil 2015

Það var að koma út nýtt Fréttabréf Samspil 2015. Margt framundan og allt afar spennandi.

Photo published for Samspil 2015

Menntaspjall um sköpun í skólastarfi

Ég tók þátt í Menntaspjalli á Twitter í gær. Magnað hvað það eru margir kennarar til í að eyða frítíma sínum á sunnudegi í spjall um skólastarf. Sé það nú ekki alveg fyrir mér að margar aðrar stéttir myndu gera það sama, en hver veit.
Að þessu sinni var umfjöllunarefnið sköpun í skólastarfi og komu fram mörg sjónarmið, en almennt fannst mér á fólki að þessi mál væru í þokkalegu fari. Allavega voru þátttakendur jákvæðir og sammála um mikilvægi list- og verkgreina í skólum. Helst var að heyra (eða lesa) að það vantaði meiri samþættingu námsgreina í grunnskólanum, en það er ekki í fyrsta sinn sem ég heyri það. Flestir voru sammála um mikilvægi þekkingar og færni þeirra kennara sem hafa menntað sig á sviði list- og verkgreina og þess að aðrir kennarar þurfi að njóta þekkingar þeirra. Ég er á því að það eigi að vera til "sköpunartorg" alveg eins og UT torg, tungumálatorg og fl.
Það er spurning hvort Menntamiðja komi ekki til með að þróast áfram og taki þetta verkefni að sér.
Hér má sjá samantekt viðræðananna.

30. ágúst 2015

Innleiðing upplýsingatækni í leikskóla



Um þessar mundir er eitt ár síðan að leikskólar í Kópavogi fengu úthlutað auknum tæknibúnaði til þess að innleiða upplýsingatækni í skólastarfið. Þannig fengum við hér í Álfaheiði úthlutað iPad inn á hverja deild og tvær nýjar fartölvur einnig.
Afhendingu þessa búnaðar fylgdi síðan ekkert meira, þeir sem höfðu þörf fyrir gátu jú farið á námskeið til þess að læra á nokkur smáforrit. Engin aðstoð við innleiðingu á upplýsingatækni fór fram, engin kennslufræðileg ráðgjöf eða eftirfylgni, heldur var starfsfólki leikskólanna hennt út í djúpu laugina og þeim ætlað að synda að landi.
Sem betur fer á að fara aðra leið núna þegar kemur að innleiðingu iPads í grunnskólum bæjarins og er það vel.
Það sem við höfum gert hér í Álfaheiði er að reyna eftir megni að nýta okkur stefnu í upplýsingatækni fyrir leikskóla Kópavogs og vinna í anda hennar. Í henni kemur fram að í leikskóla skiptir fjölbreytni í kennsluaðferðum og vinnubrögðum miklu máli. Mikilvægt er að börn öðlist tækifæri og þjálfun í nútímatækni.  Leikskólarnir eiga að stuðla að fjölbreyttum vinnubrögðum og veita börnum jöfn tækifæri til að afla sér þekkingar til að miðla á skapandi hátt.
En í stefnunni segir ennfremur að til þess að svo geti orðið þurfa leikskólakennarar að hafa góða þekkingu á upplýsingatækni og aðgang að tækjabúnaði sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma.
Reynslan hefur sýnt að fjölmargir þættir skipta máli fyrir árangursríka innleiðingu spjaldtölva í skólastarfi. Fjárfesting í spjaldtölvum ein og sér skilar ekki sjálfkrafa árangri. Rannsóknir benda til þess að áhugi kennara og skuldbinging þeirra við verkefnið skipti megin máli. Eigi að ná fram umbreytingu á námi þá þarf að nálgast vekefnin á nýjan hátt, prófa sig stöðugt áfram og leita nýrra leiða til að ná þeim markmiðum sem unnið er að.

Evrópska skólanetið
gerði úttekt í þrjátíu og einum skóla í Evrópu til þess að skoða hvaða þættir eru líklegastir til að styðja við innleiðingu iPads í skólastarfi, en þeir eru:
  • Breytingar þurfa að vera vel skipulagðar og studdar kennslufræðilegum gildum.
  • Sveigjanlegur rammi þarf að vera um starfið sem inniheldur markmið, leiðbeiningar og verkfæri fyrir breytingarnar.
  • Breytingarnar þurfa að verða hluti af menningu skólans og einhverskonar hvatning þarf að vera til staðar fyrir kennara svo að þeir sjái hag í því að taka virkan þátt.
  • Meta þarf áhrif breytinganna reglulega og taka til greina nýja færni sem getur komið fram við nám með notkun upplýsingatækni.
  • Starfsþróun kennara og stuðningur við þá þarf að viðhaldast allt ferlið og þá er félagsstuðningur ein þeirra leiða sem getur stutt við það. Gagnlegt er fyrir kennara að fylgjast með kennslu hjá samkennurum.
Þar sem við hér í Álfaheiði höfum verið að feta, að margra kennara mati, algerlega nýjar slóðir með innleiðingu á iPad í skólastarfið finnst okkur rétt að líta um öxl. Það er reynsla okkar að halda að hlutirnir breytist við það eitt að kaupa tækin sé megin fyrra, kaupin sjálf eru minnsta málið.
Það sem innleiðingin snýst um er kennslufræði og markmið skólastarfs… ekki öpp eða bara það eitt að kaupa tæki. Fyrir hverja var verið að kaupa þau og hvað ætlum við að gera með þau?
Þess vegna finnst okkur rétt að staldra við á þessum tímamótum og skoða hvað við höfum verið að gera og hvað við viljum gera til framtíðar. 
Við höfum því ákveðið að leita okkur upplýsinga eins víða og hægt er til þess að gera eins vel og hægt er.  Við höfum því verið að grúska á Netinu eftir upplýsingum og þá einnig eftir því hvað hefur ekki tekist nógu vel til þess að geta lært af þeim mistökum sem kennarar hafa gert.

Við innleiðingu á upplýsingatækni í skólastarfi er mikilvægt að kennarar og skólastjórnendur hafi mikla þolinmæði og að kennari þori að prófa eitthvað nýtt, gera mistök og sé tilbúinn að læra af þeim. Innleiðingin er allajafna ekki eitthvað sem gerist hratt og aldrei á einfaldan hátt.
Dr. Ruben R Puentedura  hefur unnið að og þróað líkan til þess að fólk geti betur áttað sig á þeim skrefum sem eiga sér stað við innleiðingu á iPad í skólastarfi. Líkanið kallar hann SAMR módelið og Því er skipt í 4 stig (Substiturion, Augmentation, Modification og Redefinition) en til þess að hjálpa íslenskum kennurum að skilja það betur þá ákvað Ingvi Hrannar Ómarsson ásamt Erni Arnarsyni að snara því yfir á íslensku. 


Frábært og auðskiljanlegt módel, en dæmin eru mjög grunnskólamiðuð og því okkar að reyna að finna dæmi sem vísa til leikskólans.
Eftir mikið grúsk á Netinu fannst ekkert sem við getum stuðst við hvað varðar leikskólastarf.
Eftir reynslu okkar síðastliðið ár í innleiðingu iPads í skólastarfið í Álfaheiði höldum við að dæmin geti verið eftirfarandi.
1. Skipting – tæknin kemur bara í stað þess gamla án þess að bæta neinu við. Hér höfum við t.d. verið að nýta iPad til þess að taka ljósmyndir og myndupptökur. Í sjálfu sér bætir það engu við sem myndavélar gerðu áður. Við höfum verið að leita upplýsinga, t.d. um opnunartíma stofnanna, ferðir strætó og fl.. Í sjálfu sér hefði verið hægt að leita heimilda í bæklingum sem við eigum fyrir.
2. Viðbót – Tæknin kemur í stað annars með viðbættum möguleikum.  Hér höfum við t.d. verið að nýta iPad og einnig iPod til þess að miðla tónlist í daglegu starfi. Við nýtum núna Spotify og höfum þannig aðgang að geysilega miklu magni af tónlist.
Við höfum einnig í stað landakorts af Kópavogi nýtt okkur Google Maps til þess að skoða hvar börnin eiga heima áður en farið er í ferð að heimilum þeirra og síðan unnið út frá því í hópastarfi. 
3. Aðlögun – Tæknin býður upp á verulegar breytingar á verkefnum. Hér höfum við nýtt iPadinn í auknum mæli til þess að afla okkur heimilda og kennslufræðilegs efnis sem hentar við úrvinnslu ákveðinna verkefna. Í vetur nýttum við okkur t.d. iPadinn til þess að skoða myndrænar heimildir í tengslum við ákveðin verkefni s.s.  verkefni um sólkerfið. Það var stórkostlegt að geta nýtt iPadinn í þeirri vinnu.
4. Tæknin gerir okkur kleift að gera nýja hluti sem væri annars óhugsandi.  Ýmiskonar smáforrit höfum við nýtt á skapandi og hugmyndaríkan hátt í námi barnanna. Við höfum lagt áherslu á að börnin hafi aðgang að íslenskum smáforritum eða forritum þar sem boðið er upp á skapandi vinnu. Börnin hafa þannig haft aðgang að smáforritum sem gera þeim kleift með auðveldum hætti að búa til myndrænt efni sem þau geta birt á heimasíðu leikskólans. Við getum einnig séð fyrir okkur að halda áfram að nýta iPadinn á fjölbreyttari hátt í útikennslu. Við höfum t.d. aðeins verið að skoða ratleiki þar sem hægt er að nýta iPadinn á skemmtilegan hátt.

Liðið ár hefur fært okkur eitt og annað í reynslubankann og það sem stendur upp úr er að flest allir kennarar skólans eru jákvæðir í garð nýrrar tækni og tilbúnir að læra eitthvað nýtt,  gera mistök og læra af þeim.  Kennararnir reyna eftir mætti að nýta iPadinn með skapandi hætti og í uppeldis- og kennslufræðilegum tilgangi. iPadinn hefur ekki verið notaður til afþreyingar í starfinu.

Næsta skólaár ætlum við að leggja okkur fram um að finna fleiri leiðir til þess að nýta iPad í kennslufræðilegum tilgangi í leikskólastarfinu. Við höfum ákveðið að vinna sérstaklega einu sinni í viku með elstu börnin í fjögurra manna hópum, þannig að börnin eru tvö um hvern iPad.
Unnið verður samkvæmt stefnu Kópavogsbæjar í upplýsingatækni í leikskólum. Þar er lögð megin áhersla á að börnin fái tækifæri til þess að kynnast fjölbreyttri notkun upplýsingatækninnar.
Megin áhersla verður á að  börnin
:  
  • læri á smáforrit í iPad sem ætluð eru til þess að auðga ímyndunaraflið og sköpunarkraft þeirra.
  • læri umgengni við iPadinn 
  • eflist félagslega í nánu samstarfi við hvert annað.
Við gerum síðan ráð fyrir að börnin fái að æfa sig í iPadinum á milli stunda í þeim forritum sem þau eru að læra á.  Við höfum gert kennsluáætlun fyrir einn mánuð í senn og verður hún endurskoðuð jafnóðum ef þurfa þykir. Foreldrar geta þannig fylgst með og þá tekið þátt í með börnunum að læra á ákveðin smáforrit.
Allt efnið sem börnin skapa fer inn á heimasíðu leikskólans þannig að allir geti fylgst með því sem fram fer. 
Eins og áður hefur komið fram er mikilvægt að kennarar miðli þekkingu og færni sín á milli og þess vegna er nauðsynlegt að í skipulagningu starfsins sé gert ráð fyrir því að þeir geti fylgst með því sem hver og einn er að gera í upplýsingatækni eins og öðrum þáttum starfsins. Við ætlum að reyna eftir mætti að gefa okkur ráðrúm til þess í vetur.
Við sjáum fram á skemmtilegt vetrarstarf með nýjum ákskorunum þar sem við komum til með að læra með börnunum á nýja tækni.  Við höfum sterklega í huga að framtíðin er núna.