Datt þetta svona í hug, af því ég var að lesa í bréfi frá Sólveigu að það á að halda fræðslufund í fyrramálið um áhrif tölvuleikja á börn og unglinga.
Þegar maðurinn minn var lítill í sveitinni fyrir austan, áttu systur hans að passa hann í heyskapnum. Þær voru auðvitað uppteknar í eigin leik og vildu ekki hafa of mikið fyrir honum svo þær ákváðu að hræða hann. Sögðu við hann að ef hann færi niður að bæjarlæknum gæti hann dottið ofan í hann og þá myndi hann deyja. Einn sólbjartann daginn kom hann hágrátandi heim að bæ, rennblautur frá toppi til táa og sagðist vera dáinn. Systurnar vissu strax upp á sig skömmina og hugguðu hann, en voru lengi að sannfæra hann um það að hann væri ekki dáinn.
Fyrir mánuði eða svo gerðist það í leikskólanum mínum að einn fimm ára strákur kom hágrátandi fram úr herbergi, þar sem hann hafði verið í leik með tveimur öðrum drengjum, í trékubbum. Hann virtist óhuggandi og þegar hann mátti mæla gat hann sagt mér að vinir hans segðu að hann ætti ekkert líf eftir. Þeir sem þekkja til tölvuleikja vita hvaðan það er komið.
Svona breytast tímarnir og mennirnir með.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli