28. maí 2005

Þetta er helst í fréttum

Nú er ég bara orðin löt að blogga, námskeiðinu lokið hjá Salvöru og þess vegna kannski hef ég slakað á í þessu bloggi. Stundum á maður í vandræðum með að ákveða hvað maður ætti að skrifa, finnst ekkert sérstakt í fréttum, eða eru dagleg störf manns eitthvað fréttnæm. Kannski á maður ekkert að vera að spá í það, bara segja fá einhverju sem manni finnst áhugavert. Ég held samt að í upphafi hafi ég ætlað þetta blogg til þess að skrásetja það sem ég er að fást við í náminu hverju sinni, kannski best að halda sig við það. Þessa dagana er ég að ná áttum á nýjum námskeiðum. Á námskeiðinu hjá Stefáni Jökulssyni, Menntun, miðlun og samfélag höfum við Ásdís ákveðið að vinna saman. Við ætlum að spá í stelpur og blogg. Við höfum svolítið verið að spá í kúltúrinn sem er þarna að baki. Við höfum komist að því að sennilega verður erfiðast að takmarka sig efnislega. Svo er námskeiðið hjá Sólveigu Fjarnám og kennsla. Það er ekki slegið af kröfum á því námskeiði og best að hafa sig alla við svo vel gangi. Ég var búin að hugsa upp verkefni á því námskeiði, en svo gekk það ekki upp. Ég hef núna hugmynd um að gera heimasíðu málþings/ráðstefnu sem stefnt er að því að halda í haust í tengslum við námskeiðið. Sýnist að Ella Jóna vilji vera með í því verkefni og það er frábært. Svo er það þriðja námskeiðið Vettvangsnám. Við erum búin að vera að vinna úr niðurstöðum fyrir "Netnot" sem nemarnir söfnuðu í síðasta námskeiði NKN. Síðan förum við til Spánar 6. júní á ráðstefnuna 3rd International Conference on Multimedia and ICTs in Education. Þar verður margt áhugavert í boði og hlakka ég mikið til. Hér á heimavígstöðum er svo allt í besta gengi. Það fækkar á heimilinu eins og alltaf á sumrin. Drengirnir farnir út á land í vinnu og stutt í að heimasætan fari í tónleikaferð um Norðurlönd. Við verðum að öllum líkindum mikið tvö heima í sumar, skrítið hvað manni finnst allt breytast um leið og það fækkar. Í gær fannst mér það varla taka því að vera að elda mat það voru svo fáir til þess að borða hann. Núna verður að safna í þvottavél í stað þess að útúr fljóti í þvottahúsinu. Er það ekki skrítið þetta líf.

18. maí 2005

Vordagar

Það er svo sem ekki mörg afrek framin á sviði námsins þessa dagana. Ég er ekki alveg að fatta þennan nýja kennara sem segist ætla að hvíla sig á WebCT, en bíður svo ekkert í staðinn. Á meðan er maður auðvitað ekki að nýta tímann í spjall um viðfangsefni eins og ætti að gera. Ég hef svolítið verið að lesa mér til um ungt fólk og miðla, en á svakalega erfitt með að ná landfestu í því viðfangsefni. Vefirnir sem bent var á eru mjög afvegaleiðandi fyrir mig. Ég er kominn út um víðan völl um leið og ég opna inn á vefina og svo er liðinn langur tími án þess að ég hafi í raun verið að gera neitt að viti. Ég hef haft nóg að gera í vinnunni í staðinn. Ákvað að gera fleiri myndasögur, finnst það orðið alveg rosalega gaman. Núna var það útskrifarferð elstu barnanna í Furugrund. Ferðin var alveg einstaklega vel heppnuð í alla staði. Ég tók eftir því þegar ég leit í spegil í kvöld að ég er orðin nokkuð brún í andliti, sem segir manni að það er svona nokkurn veginn komið vor, jafnvel sumar. Það eru auðvitað forréttindi að vinna í leikskóla og hafa möguleika á allri þessari útiveru, vafstur við kulda- og pollagalla um veturinn gleymst fljótt í svona góðu veðri.

10. maí 2005

Námið hafið að nýju

Þetta var nú ekki eins löng pása frá námi og ég hélt. Ég hef haft heilmikið að gera. Búin að vera alla helgina að vinna úr gögnum sem söfnuðust við rannsókn sem við nemarnir gerðum í Nám og kennsla á netinu. Þetta er liður í námskeiði sem heitir Vettvangsnám. Það verður hluti af því námskeiði að fara til Spánar á ráðstefnu um tölvutækni í menntun. Ekki ónýtt að fá einingar fyrir að leggjast á flakk til Spánar. Svo byrjaði námskeiðið Miðlun, menntun og samfélag í dag. Ég fór nú reyndar á smá bömmer yfir því, það lítur nefnilega út fyrir að því námskeiðinu eigi að ljúka strax í júní. Ég sem hélt að maður hefði skilafrest þar til í ágúst og byrjaði að vinna allan daginn núna í maí í skiptum fyrir ágúst. Ég verð víst að vera dugleg að nýta helgarnar til þess að læra. Kannski er betra að vera búin að þessu áður en maður byrjar í sumarfríi í júlí. Námskeið sem ég ætla á og heitir Fjarnám og kennsla hefst ekki fyrr en síðar í maí og stendur lengur yfir.
Ég byrjaði aftur fyrir alvöru að hreyfa mig, ákvað að skrá mig á lokað námskeið til þess að ég neiddist til þess að fara að minnsta kosti þrisvar í viku í íþróttir. Ég er búin að vera alveg skelfilega ódugleg í íþróttum frá því um áramót. Núna verður þar breyting á. Ný forgangsröðun.

6. maí 2005

Óvissuferð

Nú bloggar maður ekki mikið um nám, enda búið og gert í bili. Reyndar ætla ég að taka að mér verkefni um helgina fyrir Sólveigu. Það þarf að vinna úr niðurstöðum sem bekkjarfélagarnir söfnuðu í mars/apríl á netnotkun barna og unglinga.
Það sem ég ætlaði að skrifa um er frábær óvissuferð sem ég fór í s.l. miðvikudagskvöld. Ég vissi auðvitað ekkert frekar en hinir hvert ferðinni var heitið, en það var farið með okkur á Draugasetrið á Stokkseyri. Mikið rosalega var gaman, ég mæli hiklaust með því að fólk komi þar við og gleymi sér í heimi drauga um stund. Frábær hugmynd að breyta svona gömlu frystihúsi, sem ekkert not var fyrir í þessa líka skemmtilegu afþreyingu. Svo var farið með okkur á veitingahúsið Við fjöruborðið. Ég hef reyndar komið þangað áður og alltaf er humarinn jafn góður og staðurinn sjarmerandi. Það voru allir mættir fyrir utan eina sem veiktist og komst ekki með. Það er auðvitað alveg frábært að skemmta sér svona með vinnufélögum og ekki verra þegar svona vel tekst til.