21. febrúar 2005

Eitthvað að bardúsa

Ég er búin að vera að leika mér í Photo story forritinu, alveg rosalega gaman. Bjó til ferðasögu með myndunum sem elstu börnin í Kópahvoli tóku. Gaman þegar myndirnar fljóta svona hjá á skjánum. Ég er einnig byrjuð að læra á Flash, vonandi á ég fyrir reikningnum um næstu mánaðarmót. Er ekki annars komið eitthvað þak á niðurhalið, kannski sleppur þetta. Veit kannski einhver um góðar leiðbeiningar á netinu á íslensku?
Í kvöld er ég að fara á íbúafund/hverfisfund hér í mínum bæ. Það á víst að fara að breyta skipulagi þannig að í staðinn fyrir fallegan trjálund komi bílaumboð og bensínstöð. Það er eins og það megi aldrei láta græn svæði í friði, allt verður að víkja fyrir "fjandans" bílnum. Spaugstofan er drjúg við að benda á ýmislegt sem betur má fara hér í Kópavogi, s.b. sl. laugardag. Það er að verða til flokkur brandara, Kópavogsbrandarar. "Það er dýrt að búa í Kópavogi!" (borið fram dimmraddað) .
Það var umfjöllun í þættinum Í brennidepli í gærkvöld um geymslu á stafrænum myndum. Þar sögðu sérfræðingar að líklega myndu myndir nútímans ekki verða til í framtíðinni. Tæknin og búnaður til þess að geyma myndirnar hafa þar áhrif. Gömlu myndirnar sem geymdar eru á glerplötum munu líklega lifa stafrænu myndirnar af. Það var ekki fjallað um myndir sem fólk er að setja inn á veraldarvefinn, verða myndirnar þar til eilífðarnóns? Maður á auðvitað að vera duglegri að varðveita það sem er í tölvunni, en þá er það ekki nóg það þarf að vera stöðugt að uppfæra í takt við tækninýjungarnar. Ég á alveg fullt af diskettum sem eru einskinsnýtar í dag, lokaritgerðin mín úr sérkennslufræðunum er á einum þeirra. Floppydrif er á undanhaldi, ég var bara svo gamaldags að ég lét flytja drifið yfir í nýju tölvuna, en sennilega verður það ekki gert næst þegar uppfæra þarf. Skrítið þegar maður er orðinn "gamaldags" ekki nema ári síðar. Hér einu sinni var maður gamaldag ef maður hélt í eitthvað sem var "inn" fyrir áratug eða svo.

19. febrúar 2005

Ein ánægð með sig

Nú er ég búin að vera alveg sérlega dugleg að vinna/læra. Búin að breyta heimasíðunni, vonandi til batnaðar. Ég er búin að eyða mörgum stundum við að yfirfara allt það góða efni sem fylgdi lýsingum á verkefnunum á skólaspjallinu. Það er greinilega til eitt og annað þarna úti á vefnum, alveg hægt að detta inn í þennan heim. Stundum tapa ég mér alveg, en rata sem betur fer til baka aftur. Núna er ég búin að hlaða niður ýmsu sem við eigum að nota við gerð verkefnanna í staðbundnu lotunni. Það er bara gaman að fikta í þessu. Ég náði sem betur fer áttum í kartöflugarðinum með dyggri aðstoð samnemenda. Ákvað að prufa líka að gera svona spurningaleik. Mig langar rosalega mikið að gera svona flash dæmi á kennsluvef. Kannski ég prufi sjálf og athuga hvað ég kemst langt. Vildi að ég hefði haft tækifæri á að fara í margmiðlunarkúrsinn, það er greinilega gaman í honum, á það bara eftir í haust. Ég er alltaf að reyna að tengja námið við það sem ég er að fást við í vinnunni. Ég fór með nokkur elstu börnin í Kópahvoli í heimsókn í Furugrund í gær föstudag. Þau fengu að taka myndir á leiðinni. Það var eitt og annað sem vakti athygli þeirra. Mig langar að gera ljósmyndasögu úr þessari ferð og leyfa þeim að semja texta til að hafa með. Ég eyddi drjúgum tíma í að skoða svona dropdown hnappa, sem Eyþór hjálpaði mér með. Ég komst að því að maður þarf að vera nokkuð vel að sér í HTML til þess að eiga við það dæmi. Ég gat komið þessum hnöppum á síðuna með aðstoð sonar míns, en svo fannst mér þetta ekkert spes. Endaði á því að endurhanna allt útlit síðunnar og skipta um alla hnappa. Ég er bara nokkuð ánægð með síðuna núna.

16. febrúar 2005

Hratt líður stund

Vá!! allt í einu er ég búin að vera í fjóra klukkutíma í tölvunni. Það er alveg ótrúlegt hvað maður getur gleymt sér. Ég er búin að gera bloggið mitt voða fínt með myndasýningu og alles. Þökk sé Eyþóri. Ég er mikið búin að vera að skoða og breyta útliti heimasíðunnar, en einhvernveginn enda ég alltaf á því að hafa hana svo til óbreytta. Veit eiginlega ekkert hverju ég ætti að breyta. Mig langar alveg rosalega að gera svona hnappa eins og eru á fyrirtækjasíðum. Svona hnapp sem hefur undirhnappa. Skilur einhver hvað ég er að meina. Þá er eins og ef maður fer yfir hnapp sem heitir t.d. krækjur, þá birtist listi með mörgum hnöppum/krækjum undir. Ef einhver kann að gera svona hnappa þá væri gaman að fá að læra það.

10. febrúar 2005

Verkefnin

Ég hef ekki mikið verið að vinna í heimasíðunni síðustu daga, en því meira verið að prufa mig áfram í forritum og hugsa næstu skref. Það kemur auðvitað ekki alltaf fram hvað maður er duglegur að vinna á bak við tjöldin. Ég er búin að leysa verkefni 1. að ég held, alla vega er ég búin að setja inn snjómyndir og búin að skrá mig sem notanda í Del.ico.us. Þetta með 43things.com hlýtur að eiga að bíða eitthvað alla vega held ég að ég hafi ekki fengið sent aðgangsorð í það kerfi. Kannski hef ég hent bréfinu með öðrum ruslpósti, veit ekki. Verkefni 2. hef ég mikið pælt í, ætli sé ekki í lagi að gera leiðbeiningavef fyrir deildastjóra í Kópavogi svo þeir kunni að setja eitthvað inn á heimasíður leikskólanna. Ég er mikið í því að kenna það, en það væri auðvitað snilld að útbúa kennsluvef. Verkefni 3 er ég að hugsa um að nýta með elstu börnunum í leikskólanum, gæti tengt það þemanu "Bærinn okkar". Mér datt í hug að láta börnin taka ljósmyndirnar og velja lagið. Varðandi verkefni 4 og 5 þá er spurning hvort það má ekki vinna þau með öðrum. Held það væri upplagt ef t.d. einhver annar eða aðrir leikskólakennarar í hópnum væru til í að vera memm. Er ekki rétt skilið að það á að vinna þau verkefni í staðbundnu lotunni? Svo var eitthvað annað eftir, já var ekki eitthvað verkefni hjá Sólveigu? Könnunin, það er sennilega hægt að gera hana í apríl. Ég hlakka til að takast á við þetta, mér finnst svo gaman að öllu svona fikti með forrit. Í gær gerði ég glærusýningu fyrir leikskólann með 75 myndum af öskudagsfjöri. Það er hægt að skoða hana á heimasíðunni . Ég notaði til þess forrit sem heitir Photolightning . Var að nota það í fyrsta sinn og gekk eins og í lygasögu. Nú er ég búin að nota bloggið til þess að hugsa upphátt, Hvað með það, það auðveldar mér að átta mig á þessu öllu. Ég var í morgun að læra á nýtt myndvinnsluforrit í vinnunni sem við vorum að fjárfesta í Flicker heitir það. Ég talaði upphátt allan tímann og reglulega kom einhver inn í vinnuherbergið og hló að mér. Mér er auðvitað alveg sama, það er svo misjafnt hvernig fólk fer að því að læra. Það hentar mér að tala mig í gegnum verkefnin, stundum meira að segja syng ég líka.

6. febrúar 2005

Að halda áfram

Ég hef undanfarna daga svona hægt og bítandi verið að laga til á heimasíðunni. Ég þurfti að leiðrétta og bæta við í tæknisögunni, svo þurfti ég að taka af hnökra í vefrallýinu. Ég á eftir að skoða betur vefleiðangurinn, sýnist eithvað ólag vera á skráningunni sem fylgir. Svo ætla ég líka að reyna að skýra myndirnar sem fylgja leiðbeiningunum. Útlit síðunnar er líka algerlega eftir. Það eru mörg bekkjarsystkin mín komin með fallegar síður, svo ef maður á ekki vera þeim til skammar verður maður að laga þetta eitthvað til. Núna er litli frændi í heimsókn og vill að ég sýni honum áhuga frekar en tölvunni. Senilega hef ég tíma seinnipartinn til þess að byrja á útliti heimasíðunnar. Mér lýst vel á þau verkefni sem framundan eru í náminu. Mér finnst alltaf svo gaman að fikta í hinum og þessum forritum, ef maður er afslappaður fyrir því að gera mistök þá er þetta bara gaman. Verð samt að fara varlega og gleyma mér ekki í tölvunni, það hefur slæm áhrif á öxlina.

2. febrúar 2005

Lítið eitt.

Það er bara orðið svolítið síðan að ég skrifaði síðast. Ég hef bara einginlega ekkert haft að segja. Ég hef ekki mikið verið að vinna við heimasíðuna undanfarið. Fékk verki í öxlina og verð því að fara varlega. Núna stilli ég GSM símann svo hann hringi á 30 mín fresti og þá verð ég að standa upp og hreyfa mig. Ég horfði á Innlit- útlit í gær. Þar var heimsókn til manns sem kallaður er Nonni. Mér fannst þetta alveg frábær heimsókn, heimili hans var svo litríkt og flott. Það var greinilegt að það býr einhver heima hjá honum. Mér hefur alltaf fundist eins og þau heimili sem Vala Matt er að heimsækja svo köld og fráhrindandi, ekkert svona út um allt eins og er á venjulegum heimilum. Það er alltaf eins og það búi enginn í íbúðunum. Ég fæ stundum alveg sting fyrir hjartað þegar hún fer inn á heimili ungs fólks, sem er jafnvel með sína fyrstu íbúð. Allt svo nýtt og engin sál í neinu. Má ég þá heldur biðja um heimilslegt „drasl“ . Af því að við erum að fara að ferma ætlum við aðeins að taka í gegn hjá okkur. Við höfum verið að spá í hvort við ættum að mála svefnherbergið, en svo sagði Nonni, sem var heimsóttur í gær, að bleikur litur táknaði ást og fyrirheit. Ég held að við séum ekkert að mála herbergið, enda líður okkur vel að sofa í því eins og það er. Höfum bara orðið fyrir þrýsingi undanfarið vegna ummæla fólks um að karlmenn eigi ekki að þola það að sofa í bleikum litum. Hér eftir vitna ég bara í Nonna sem hefur vit á því hvað litir geta gert fyrir sálarlíf fólks. Það væri gaman að heyra viðhorf ykkar sem þetta lesið. Eigum við að mála herbergið ljóst, eða eigum við að sleppa því?