22. janúar 2017

#menntaspjall um áskoranir fyrir framtíð menntunar

Í morgun tók ég þátt í #menntaspjalli á Twitter um áskoranir í menntun með tilliti til framtíðarinnar og sérstaklega hvað þurfi, eða eigi, að kenna í skólum og hverju megi sleppa. Jón Torfi Jónasson var stjórnandi umræðunnar. Þetta voru að vanda áhugaverðar umræður og mér finnst alveg frábært og faglega uppörvandi að taka þátt í því faglega umhverfi sem þetta #menntaspjall er. Þarna hittast kennarar á öllum skólastigum og ræða saman á jafningjagrunni allt mögulegt sem tengist menntun og skólastarfi. Hér má sjá samantekt Ingva Hrannars á umræðu morgunsins. 
Hér er að finna nýlega grein Jóns Torfa sem ætluð var til þess að undirbúa umræðurnar. Jón Torfi setti einnig inn krækju á myndband um hugleiðingar Gert Biesta. Þær fjalla um það hvað mun skipta máli í menntun í framtíðinni.
Þessi spakmæli birtust í #menntaspjall dagsins.


Verkefni 1. í starfendarannsóknum

Ég var að skila af mér fyrsta verkefninu í starfendarannsóknum. 

Hvað eru starfendarannsóknir fyrir mér?

  Ég hef nú ekki áður velt þessari spurningu fyrir mér, en útskýringar fræðimanna eru trúverðugar og því liggur beint við að nýta sér þær. Mér þykir líklegt að starfendarannsóknir stuðli að aukinni fagmennsku kennara og menntun nemenda. Mér þykir einnig líklegt að starfendarannsóknir auki færni kennara í starfi og viðhaldi starfsánægju þeirra. Regluleg ígrundun í starfi er nauðsynleg að mínu mati og forsenda þess að framfarir verði í stað stöðnunnar.

  Ég er svo heppin að hafa valið mér að kenna í leikskólum með örlitlu fráviki í fjögur ár þegar ég kenndi í framhaldsskóla. Báðar greinarnar sem við áttum að lesa eru nokkuð miðaðar að því að kennarinn sé einn í skólastofunni og þurfi því að stóla á sjálfan sig. Allan minn kennsluferil  hef ég starfað við hlið annarra kennara, frá fjórum til fimm í einu, ég hef því ekki þá reynslu sem lýst er í greinunum og eru veruleiki grunn- og framhaldsskólakennara.
  Ég var að hugsa um það við lestur greinanna hvað í raun við í leikskólanum erum að nýta þessar aðferðir ómeðvitað og köllum það ekkert sérstakt. Við vinnum saman að því að mennta nemendur okkar. Við setjumst niður hálfsmánaðarlega og ræðum hvernig gengur, hvað hefur verið framkvæmt, hvernig og var markmiðum náð (rýnt í dagbók hvers og eins). Hver og einn kennari segir frá því hvað hann hefur verið að fást við, hvernig og hvaða aðferðir hann notaði og hvað virkaði að hans mati best hverju sinni. Hvernig gengur með hópinn og einstaka nemendur. Það má alveg kalla það rýnisamtöl. Við höfum öll skrifað reglulega niður atburðarrás, framfarir og framvindu námsins hjá hverju og einu barni. Við tökum síðan sameiginlegar ákvarðanir um framhaldið og felum hvert öðru verkefni til þess að vinna að. Málin eru rædd af fagmennsku og allir miðla af reynslu sinni og fá hugmyndir hver frá öðrum. Það sem ég hef lesið undanfarnar vikur og það sem rætt hefur verið í þriðjudagstímunum er mjög í anda þess sem ég hef reynslu af. Ég vissi bara ekki að það væri starfendarannsókn, ég er einhvernvegin alltaf að bíða eftir að þessi fræði séu flóknari en virðist. Ætti sennilega bara að slaka á og fljóta með.
  Það vakti athygli mína að í flestum dæmunum sem voru í þeim greinum sem ég las vantaði að mati kennaranna sjálfra meira líf í kennsluhætti þeirra og lausnin var meiri „leikur“ og þátttaka nemendanna. Er furða að mér finnist ég heppin að vera leikskólakennari þar sem leikurinn er viðurkennd námsleið og sú kennsluaðferð sem mér finnst skemmtilegust.

16. janúar 2017

Rannsóknaraðferðir

Í síðustu viku voru staðlotur í náminu mínu. Ég er að leggja stund á tvennskonar rannsóknaraðferðir á þessu vormisseri. Fyrst sat ég staðlotu í eigindlegum rannsóknaraðferðum. Í þessari lotu var megin markmiðið að setja okkur inn í námsefni áfangans og rifja upp hvað eru eigindlegar rannsóknaraðferðir. Eigindlegar rannsóknaraðferðir eru notaðar ef markmiðið er að grafast fyrir um hvaða merkingu eða skilning fólk leggur í ákveðna hluti. Slíkar rannsóknir byggja á viðtölum við einstaklinga og/eða hópa um ákveðið málefni. Bæði einstaklingsviðtöl og rýnihópar falla undir eigindlegar rannsóknaraðferðir. Aldrei er hægt að alhæfa útfrá niðurstöðum sem fengnar eru með þessum hætti yfir á stærri hóp heldur veita eigindlegar rannsóknir dýpri innsýn í viðfangsefnið.
Við vorum sett í hópa í lok kennslunnar og þar ræddum við um hverskonar verkefni við höfum hugsað okkur að vinna að. Þar sem að ég hef ákveðið að verkefnið mitt er ekki rannsókn ætla ég að vinna að eigindlegri rannsókn í þessum áfanga sem gæti hugsanlega nýttst mér í greinagerð með verkefninu. Mig langar að skoða hvernig innleiðing á iPad hefur gengið í grunnskólum Kópavogs og til þess að rannsóknin verði ekki of yfirgripsmikil þá ætla ég að einbeita mér að einum grunnskóla.

Í lok vikunnar var ég í staðlotu í starfendarannsóknum. Ég er mjög heilluð af þeirri rannsóknaraðferð og sé að hún muni nýtast mjög vel í leikskólanum. Ég hef í gegnum árin fylgst með nemum sem hafa komið til okkar í leikskólann og notað þessa aðferð. Ég hef einnig verið þátttakandi í slíkum rannsóknum í gegnum tíðina.
Seinni daginn í staðlotunni vorum við fengin til þess að setja fram rannsóknarspurningu og ákvað ég þar sem ég er ekki starfandi á vettvangi leikskólans að rannsaka sjálfa mig. Ég er í mörgum hlutverkum dag hvern og það kom nokkuð óvænt uppá að ég varð námsmaður að nýju, þess vegna finnst mér upplagt að skoða hvernig ég get fundið jafnvægi á milli þessara ólíku hlutverka. Ég ætla að halda rannsóknardagbók og skrá hjá mér ferlið og svo ætla ég að rannsaka einnig hvaða tól og tæki ég finn til þess að gera mér lifið auðveldara. Hvað hefur reynst mér best og hvað get ég haldið áfram að nýta mér í framtíðinni.
Þetta er allt mjög spennandi og hlakka ég til að takast á við námið samhliða öllu því sem ég er að gera dags daglega.
Læt hér fylgja með flæðirit sem ég skilaði áðan í starfendarannsóknum. Við áttum að segja frá því af hverju við erum í því námskeiði.

11. janúar 2017

Hönnun námsefnis og stafræn miðlun

Ég var í staðlotu í gær á námskeiðinu Hönnun námsefnis og stafræn miðlun. Ég valdi þetta námskeið með hliðsjón af M.Ed. verkefninu mínu. Margt hef ég lært áður á námskeiði sem hét þá Margmiðlun eða eitthvað slíkt, en ég sá í gær að þetta námskeið verður mjög gott til upprifjunar og svo tækifæri til þess að takast á við nýja hluti. Það er þannig í upplýsingatækni að það sem þú lærir í dag getur verið úrelt á morgun.

Torfi Hartarson kennari námskeiðsins var að fara yfir hönnunarferli kennslukerfa og ég sá að þetta er eitthvað sem ég get nýtt mér og ætla því að kynna mér það nánar.


Í bókinni Designing Effective Instruction eftir þá Gary R. Morrison, Steven M. Ross og Jerrold E. Kemp er birt þetta líkan sem er endurbætt líkan Jerrolds. 

Líkanið er ekki tengt margmiðlun heldur námsefnisgerð og kennslu yfirleitt og miðar að kennslukerfum sem taka ekki bara til námsgagna heldur einnig kennslu, náms, forprófunar og mats. Líkanið gerir ráð fyrir endurteknu mati og endurbótum þar sem allir þættir eru undir með það fyrir augum að útrýma veilum í kerfinu. Mikil áhersla er lögð á kerfisbundin vinnubrögð og nákvæmar skilgreiningar á námsmarkmiðum, efnisatriðum, færniviðmiðum og þar fram eftir götum. Lítil áhersla er lögð á stíl, yfirbragð og miðlun efnis, athyglin beinist að þekkingaratriðunum, færniþáttunum og þeim náms- og kennsluferlum sem tryggja eiga skilvirkt nám.
Mér finnst þetta áhugavert líkan og sé fyrir mér að það gæti nýttst mér við hönnun á því verkefni sem ég á framundan.
Torfi kynnti einnig fyrir okkur örðu ferli sem hægt er að nýta við hönnun á gagnvirku efni. Ferli sem Kristof og Satran kynna í bók sinni
Web ReDesign- Workflow that Works. Kristof og Satran tala um þrjú þrep hönnunar á gagnvirku efni.  Tilgangurinn er ekki endilega sá að gefa uppskrift að efni sem unnt er að fylgja lið fyrir lið heldur á ferlislýsingin að varpa ljósi á alla hluta hönnunarinnar. Þannig draga þeir fram undirliggjandi meginatriði hönnunarinnar. Þrepin koma skipulagi á flókið og vandasamt verkefni. Þetta þrískipta ferli byggir á þremur einföldum spurningum.
  • Hvað á að búa til?
  • Hvernig á það að virka?
  • Hvernig á það að líta út?
Mér finnst þetta allt saman mjög áhugavert og mikilvæg þekking, það er ekkert grín ef maður byrjar á öfugum enda skal ég segja ykkur. Ég hef reynslu af því í heimasíðugerð ef fólk hefur verið upptekið af útliti vefjarins frekar en innihaldi. Það er alveg skelfilegt að fá slíka vefi í „viðgerð“ en ég hef reynslu af því.
Hægt er að lesa meira um þetta viðfangsefni hér í grein eftir Torfa

9. janúar 2017

Börn og snjalltæki

Ingvi Hrannar var að skrifa á bloggið sitt áhugaverða grein um notkun barna á snjalltækjum. Ég er svo sammála honum um það sem hann skrifar að ég vildi gjarnan að allir gæfu sér tíma til að lesa greinina hans. Þess vegna deili ég henni sem víðast. Hér má lesa greinina hans. 


#menntaspjall

Ég var svo óheppin að geta ekki tekið þátt í #menntaspjall á Twitter í gær. Umræðuefnið var skólahúsnæði. Það var ángæjulegt að lesa yfir umræðuþráðinn eftir spjallið. Ég get ekki betur séð en að þeir sem tóku þátt, sem flestir eru grunn- og framhaldsksólakennarar óski eftir leikskólabyggingu.

Það hefur og er reyndar alltaf í umræðunni hvort það eigi að færa fimm ára börnin úr leikskólanum í grunnskólann. Ég hef alltaf verið andstæðingur þess og talið að umhverfið í grunnskólanum henti ekki þetta ungum börnum. Ég myndi reyndar vilja sjá það að börnin fari ekki úr leikskólaumhverfi fyrr en þau eru á áttunda ári, þá séu þau tilbúin að vera í því umhverfi sem grunnskólinn býður þeim. Það verður sennilega ekki á minni starfsævi sem það gerist.
Hér er samantekt á umræðunni sem Ingvi Hrannar gerði.

5. janúar 2017

Nýtt ár og nýjar áskoranir

Gleðilegt ár ef það er einhver að lesa bloggið mitt.

Ég nefni þessa færslu nýtt ár og nýjar áskoranir aðallega vegna þess að ég er að hefja nám að nýju. Ég var svo heppin að vinnuveitandi minn Kópavogsbær veitti mér námsleyfi í 9 mánuði til þess að mennta mig frekar á sviði upplýsingatækni. Ég er afar þakklát og ætla að reyna að standa mig í því að verða vitrari og ekki hvað síst að deila með öðrum því sem ég læri.
Það er margt sem á daga mína hefur drifið frá því ég bloggaði síðast og aðallega hef ég nú verið að nota fésbókina til þess að miðla því sem ég hef lært. Ég hef samt ekki alveg verið sátt við þann miðil vegna þess að færslurnar hverfa jafnóðum og þær verða til þar. Þess vegna ætla ég að skrásetja hér ferðalagið mitt í náminu og deila því svo á samfélagsmiðlum. Þannig held ég að efnið verði líka aðgengilegra fyrir aðra kennara sem eru leitandi að nýjungum og upplýsingum sem þeir geta nýtt í starfi sínu.
Ég er þessa dagana að koma mér í lærdómsgírinn, aðeins búin að kíkja inn á námsvefina þar sem námskeiðin mín eru. Það er búið að setja fyrir í einu námskeiðinu Starfendarannsóknir sem er rosalega spennandi. Ég á sem sagt að lesa tvær greinar fyrir staðlotuna sem verður í næstu viku. Grein eftir Hafþór Guðjónsson, Kennarinn sem rannsakandi og svo grein eftir Ívar Rafn Jónsson, Að virkja sjálfstæða hugsun nemenda.
Ekker er ennþá komið inn á vef námskeiðsins Hönnun námsefnis og stafræn miðlun, en ég er mest spennt fyrir þessu námskeiði, enda hef ég ákveðna hugmynd um lokaverkefni því tengt. Þriðja námskeiðið er svo eigindlegar rannsóknaraðferðir, námskeið sem ég held að verði áhugavert.
Ég ætla að reyna að vera dugleg að setja inn reglulega fréttir hér, en mest verða þær sennilega tengdar upplýsingatækni í kennslu, en kannski líka hugleiðingar mínar sem tengjast náminu almennt.