19. desember 2005

Podcasting - talmál á netinu

ODEO er vefbundin þjónusta sem gerir öllum sem áhuga hafa kleift að hlusta á, gerast áskrifendur að, taka upp og gera aðgengilegt hvers kyns hljóðefni á Netinu án endurgjalds. ODEO er án efa einfaldasta leiðin til þess að búa til og dreifa stafrænu hljóðefni á Netinu, þ.e. svo kölluðu "podcasting".
Ég mátti til með að prufa þetta nýja fyrirbæri. Hægt er að nálgast upptökurnar mínar hér.

13. desember 2005

Borðstofa námsmannsins

Frelsið er yndislegt, ég vil gera það sem ég vil. Svona leit borðstofan út þegar ég kom heim í gær, tíbilcal námsmannastofa. Núna er ég sem sagt komin í jólafrí í skólanum. Enginn skóli fyrr en um miðjan janúar, það verður frábært. Ég ætla ekki aftur að taka svo margar einingar í einu. Það var bara rugl og hættir að vera gaman að læra. Eftir áramót fer ég í skemmtilegan áfanga sem heitir Margmiðlun til náms og kennslu. Þá erum við að læra á ýmis forrit og það finnst mér svo gaman. Í júní ætla ég svo að láta útskrifa mig það verður líka gaman. Ég skálaði við Ásdísi í gærkvöldi, nú er hún búin í skólanum á bara eftir að útskrifast í júní. Það styttist í að við förum til Frakklands, var að segja við krakkana að nú þyrftum við að fara að þvo og svona... Það hefur allt setið á hakanum vegna náms og vinnu. Nú verður breyting þar á. Gaman að lifa.


bordstofa namsmannsins
Originally uploaded by Myndasida Fjolu.

25. nóvember 2005

Námskeið

Ég fór á skemmtilegt námskeið í gær. Það var afmæli Tölvumiðstöðvar fatlaðra. Þar voru nokkur stutt erindi flutt og hvert öðru skemmilegra. Það sem vakti hvað mest athygli mína var hvað tölvutæknin er að koma að góðum notum fyrir fatlaða. Mjög margir hreyfihamlaðir, blindir og fólk sem býr við margskonar fatlanir hafa rofið einangrun sína með tölvutækninni. Ég var sérstaklega hrifin af manni sem heitir Hallgrímur Eymundsson. Hann sagði frá því hvað tölvutæknin skiptir miklu máli fyrir hann í daglegu lífi. Hann á m.a. bíl sem er algerlega tölvustýrður. Alveg frábært að sjá stjórnborðið í bílnum. Hann stjórnar tölvunni sinni m.a. með GSM símanum sínum. Þarna voru líka þroskaþjálfar úr Ölduselsskóla sem eru greinilega að gera mjög góða hluti með tveimur mikið hreyfihömluðum nemendum.
Eftir námskeiðið fór ég svo á fund leikskólasérkennara. Þar var m.a. til umfjöllunar tillögur vinnuhóps sem skipaður var á fundi s.l. vor. Gott starf sem nefndin vann og góðar tillögur að úrbótum sem þær leggja fram. Vonandi að þær verði kynntar sem víðast.
Af náminu er það að frétta að ég er að leggja lokahönd á verkefnin á tveimur námskeiðum og byrja að lesa undir próf á einu. Það skal alltaf vera jafnmikið að gera á þessum árstíma í náminu. Annað í lífinu gengur sinn vana gang. Allir eru hraustir og við hér heima farin að telja niður dagana þar til við förum til Frakklands. Það sama gerir Hrafn hinum megin við hafið.

16. nóvember 2005

Staðbundin lota

Þá er ég enn og aftur í skólanum. Núna er staðbundin lota í aðferðafræðinni. Það er ekki sem verst, enda er þetta alveg að verða búið. Styttist í prófið og bara eftir að skila einu verkefni næsta þriðjudag. Það er alveg ótrúlega erfitt að sitja kyrr svona lengi í einu, en það hefst. Í dag er dagur íslenskrar tungu. Ég og Jónas fæddumst þennan dag svo það er um að gera að halda upp á hann. Ég fékk tíma í nuddi í afmælisgjöf frá fjölskyldunni, skilaboð um að ég þurfi að slaka meira á. Ég er að hugsa um að panta mér nudd daginn fyrir aðferðarprófið, held að þá verði helst þörf á slökun. Það er alveg ótrúlega gaman á námskeiðinu Tölvur með fötluðum. Við erum að fá svo mikið af upplýsingum um hin og þessi forrit sem koma að góðum notum í kennslunni. Ekki grunaði mig að til væri svo mikið af ókeypist kennsluefni á veraldarvefnum.
Flensa hefur annars verið á bænum, við höfum öll veikst af henni, ekki gott. Ágætt samt að vera búin að afgreiða þann pakka, vonandi verðum við þá öll hress þegar við förum í ferðalagið. Ég virðist ætla að vera á faraldsfæti á næsta ári. Fer til Frakklands í desember, London í janúar og Prag í apríl, Spánar í maí-júní og svo líklegast til USA í október.

22. október 2005

Nám og nám

Það er fylgni á milli fjölda blogga og afkasta í námi þessa vikuna. Þ.e.a.s. mikið að læra minni tími til að blogga. Svona tala ég orðið dags daglega, er ekki sagt að þekking festist í minni með því að á hana sé reynt. Aðferðafræðin er töff, ég er að reyna að vera í Pollýönuleik og líta á björtu hliðarnar. Ég var t.d. sett í hópavinnu þessa vikuna og þegar á reyndi vorum við tvær eftir í hópnum. Hópavinnan varð því einstaklega auðveld við Gréta Mjöll köstuðum á milli okkar umsögn um rannsóknargrein og hiss-bang verkefnið varð til á met tíma. Svo eigum við að tala viðtal og það verður ekki vandamál að finna einhvern til þess að tala við sig.
Verkefnin á námskeiðinu Tölvur með fötluðum verða til samhliða vafri á netinu. Við erum að fá aðgang hjá kennaranum að ýmsu áhugaverðu efni. Eins og vanalega "dett ég í það" á netinu. Þannig verður til samsafn af mörgum krækjum sem við erum að skoða. Alveg ótrúlegt hvað það er til mikið af efni á þessum veraldarvef.
Af öðru er allt gott að frétta. Við njótum þess að halda okkur innan dyra í skammdeginu. Kúrum upp í sófa eða sláumst um tölvuna. Það hefur verið gestkvæmt hjá okkur undanfarið og er það fínt. Allt gengur vel hjá Hrafni í Frans, hann er farinn að hlakka til að hitta mömmu í desember. Skrítið hvað fjarlægðin gerir alltaf fjöllin blá. Annars er hann á skypinu alla daga svo við spjöllum að ég held meira núna en þegar hann er heima.

12. september 2005

Staðbundin lota

Í dag var ég í skólanum. Staðbundin lota í aðferðafræði. Svakalega verður maður þreyttur á því að sitja svona allan daginn. Ég er óvön því að sitja kyrr í langan tíma, er vön að vera á ferðinni. Við lærðum eitt og annað um eigindlegar rannsóknir. Nú liggur fyrir að læra heima fyrir morgundaginn bara lesa nokkra kafla. Líst annars bara nokkuð vel á þetta, ekki eins leiðinlegt og ég hélt.

8. september 2005

Haustnámskeiðin að byrja

Þá eru námskeiðin að byrja eitt af öðru. Námskeiðið hjá Sólveigu byrjað og námskeiðið hjá S.Fjalari byrjar á mánudag. Þann sama dag fer ég í fyrstu staðbundnu lotuna í Aðferðafræðinni. Ég er nú farin að hallast að því að það námskeið sé ekki fjarnámskeið heldur staðbundið nám. Allavega er lítið að græða á því sem komið er og svo eru 2-3 dagar í mánuði staðbundnar lotur. Verst að það stangast á loturnar í Tölvur með fötluðum og svo Aðferðafræðin. Frábær þjónusta sem ég fékk hjá Bókasafni Kópavogs. Ég fór þangað til þess að athuga með bækur um aðferðafræði. Það voru engar til, en starfsfólkið bauðst til að kaupa bækur. Svo í gær fékk ég tölvupóst frá þeim, bækurnar komnar. Frábært!!! þetta kalla ég góða þjónustu.
Ég er nú svolítið farin að bíða eftir niðurstöðum úr námskeiðunum í sumar, veit ekki hvenær við fáum þær.
Ég var að skoða mig um á heimasíðu BETT og mig langar svakalega að fara á þessa sýningu, ef það er einhver þarna úti sem vill styrkja mig til fararinnar þá er ég til í að þyggja það.

8. júní 2005

Á Spáni

Nú eru vid Linda, Sólveig og ég komin á áfangastad. Rádstefnan hófs í gaer og vid byrjadar ad medtaka UT upplýsingar frá hinum og tessum stodum í veroldinni. Dagskráin er rosalega tétt. Vid erum á alveg ágaetu hóteli og lídur vel. Tad er alveg rosalega heitt fer yfir 40 stig á daginn og nidur í 37 seint á kvoldin. Í morgun hlustudum vid á fólk skýra frá mimunandi leidum sem farnar eru í dreifnámi. Svo sem ekkert nýtt sem vid hofum heyrt, Spánverjar eru ekki komnir jafn langt í taekninni og vid Íslendingar. Teir eru líka svolítid ad reyna ad finna hjólid upp aftur. Á morgun eigum vid ad flytja okkar erindi kl 19.15 vonandi verdur einhver enn til tess ad hlusta á okkur.
Kaer kvedja frá Spáni.

2. júní 2005

Skóladagar

Í dag og á morgun verð ég í staðbundnum lotum í KHÍ. Í dag var það menntun, miðlun, samfélag og á morgun fjarnám og kennsla. Ég verð alltaf svo þreytt að sitja svona kyrr lengi í einu, er óvön því, í vinnunni er enginn tími til að sitja. Við vorum að ræða mikið um væntanleg verkefni og fleira áhugavert varðandi miðlun. Við vorum í síðustu viku að vinna að miðlunarverkefni í leikskólanum Furugrund. Börnin voru búin að búa til tröllasögur í vetur í þemavinnu. Með minni aðstoð settu þau sögurnar út á veraldarvefinn. Þetta var alveg nýtt og mjög spennandi fyrir þau. Í fyrstu voru þau sum hrædd um að tölvan myndi gleypa myndina og ekki skila henni aftur. Þeim fannst líka rosalega spennandi að tala í hljóðnema. Þau voru mjög áhugasöm og forvitin um hvernig virkilega sagan gæti verið í tölvunni og allir í heiminum gæti skoðað. Kallaði það á mikla umræðu um veraldarvefinn. Sum þeirra voru að heyra um veraldarvefinn í fyrsta sinn, héldu að það væri ekki hægt að hafa það sama í tölvunni í leikskólanum og heima.

28. maí 2005

Þetta er helst í fréttum

Nú er ég bara orðin löt að blogga, námskeiðinu lokið hjá Salvöru og þess vegna kannski hef ég slakað á í þessu bloggi. Stundum á maður í vandræðum með að ákveða hvað maður ætti að skrifa, finnst ekkert sérstakt í fréttum, eða eru dagleg störf manns eitthvað fréttnæm. Kannski á maður ekkert að vera að spá í það, bara segja fá einhverju sem manni finnst áhugavert. Ég held samt að í upphafi hafi ég ætlað þetta blogg til þess að skrásetja það sem ég er að fást við í náminu hverju sinni, kannski best að halda sig við það. Þessa dagana er ég að ná áttum á nýjum námskeiðum. Á námskeiðinu hjá Stefáni Jökulssyni, Menntun, miðlun og samfélag höfum við Ásdís ákveðið að vinna saman. Við ætlum að spá í stelpur og blogg. Við höfum svolítið verið að spá í kúltúrinn sem er þarna að baki. Við höfum komist að því að sennilega verður erfiðast að takmarka sig efnislega. Svo er námskeiðið hjá Sólveigu Fjarnám og kennsla. Það er ekki slegið af kröfum á því námskeiði og best að hafa sig alla við svo vel gangi. Ég var búin að hugsa upp verkefni á því námskeiði, en svo gekk það ekki upp. Ég hef núna hugmynd um að gera heimasíðu málþings/ráðstefnu sem stefnt er að því að halda í haust í tengslum við námskeiðið. Sýnist að Ella Jóna vilji vera með í því verkefni og það er frábært. Svo er það þriðja námskeiðið Vettvangsnám. Við erum búin að vera að vinna úr niðurstöðum fyrir "Netnot" sem nemarnir söfnuðu í síðasta námskeiði NKN. Síðan förum við til Spánar 6. júní á ráðstefnuna 3rd International Conference on Multimedia and ICTs in Education. Þar verður margt áhugavert í boði og hlakka ég mikið til. Hér á heimavígstöðum er svo allt í besta gengi. Það fækkar á heimilinu eins og alltaf á sumrin. Drengirnir farnir út á land í vinnu og stutt í að heimasætan fari í tónleikaferð um Norðurlönd. Við verðum að öllum líkindum mikið tvö heima í sumar, skrítið hvað manni finnst allt breytast um leið og það fækkar. Í gær fannst mér það varla taka því að vera að elda mat það voru svo fáir til þess að borða hann. Núna verður að safna í þvottavél í stað þess að útúr fljóti í þvottahúsinu. Er það ekki skrítið þetta líf.

18. maí 2005

Vordagar

Það er svo sem ekki mörg afrek framin á sviði námsins þessa dagana. Ég er ekki alveg að fatta þennan nýja kennara sem segist ætla að hvíla sig á WebCT, en bíður svo ekkert í staðinn. Á meðan er maður auðvitað ekki að nýta tímann í spjall um viðfangsefni eins og ætti að gera. Ég hef svolítið verið að lesa mér til um ungt fólk og miðla, en á svakalega erfitt með að ná landfestu í því viðfangsefni. Vefirnir sem bent var á eru mjög afvegaleiðandi fyrir mig. Ég er kominn út um víðan völl um leið og ég opna inn á vefina og svo er liðinn langur tími án þess að ég hafi í raun verið að gera neitt að viti. Ég hef haft nóg að gera í vinnunni í staðinn. Ákvað að gera fleiri myndasögur, finnst það orðið alveg rosalega gaman. Núna var það útskrifarferð elstu barnanna í Furugrund. Ferðin var alveg einstaklega vel heppnuð í alla staði. Ég tók eftir því þegar ég leit í spegil í kvöld að ég er orðin nokkuð brún í andliti, sem segir manni að það er svona nokkurn veginn komið vor, jafnvel sumar. Það eru auðvitað forréttindi að vinna í leikskóla og hafa möguleika á allri þessari útiveru, vafstur við kulda- og pollagalla um veturinn gleymst fljótt í svona góðu veðri.

10. maí 2005

Námið hafið að nýju

Þetta var nú ekki eins löng pása frá námi og ég hélt. Ég hef haft heilmikið að gera. Búin að vera alla helgina að vinna úr gögnum sem söfnuðust við rannsókn sem við nemarnir gerðum í Nám og kennsla á netinu. Þetta er liður í námskeiði sem heitir Vettvangsnám. Það verður hluti af því námskeiði að fara til Spánar á ráðstefnu um tölvutækni í menntun. Ekki ónýtt að fá einingar fyrir að leggjast á flakk til Spánar. Svo byrjaði námskeiðið Miðlun, menntun og samfélag í dag. Ég fór nú reyndar á smá bömmer yfir því, það lítur nefnilega út fyrir að því námskeiðinu eigi að ljúka strax í júní. Ég sem hélt að maður hefði skilafrest þar til í ágúst og byrjaði að vinna allan daginn núna í maí í skiptum fyrir ágúst. Ég verð víst að vera dugleg að nýta helgarnar til þess að læra. Kannski er betra að vera búin að þessu áður en maður byrjar í sumarfríi í júlí. Námskeið sem ég ætla á og heitir Fjarnám og kennsla hefst ekki fyrr en síðar í maí og stendur lengur yfir.
Ég byrjaði aftur fyrir alvöru að hreyfa mig, ákvað að skrá mig á lokað námskeið til þess að ég neiddist til þess að fara að minnsta kosti þrisvar í viku í íþróttir. Ég er búin að vera alveg skelfilega ódugleg í íþróttum frá því um áramót. Núna verður þar breyting á. Ný forgangsröðun.

6. maí 2005

Óvissuferð

Nú bloggar maður ekki mikið um nám, enda búið og gert í bili. Reyndar ætla ég að taka að mér verkefni um helgina fyrir Sólveigu. Það þarf að vinna úr niðurstöðum sem bekkjarfélagarnir söfnuðu í mars/apríl á netnotkun barna og unglinga.
Það sem ég ætlaði að skrifa um er frábær óvissuferð sem ég fór í s.l. miðvikudagskvöld. Ég vissi auðvitað ekkert frekar en hinir hvert ferðinni var heitið, en það var farið með okkur á Draugasetrið á Stokkseyri. Mikið rosalega var gaman, ég mæli hiklaust með því að fólk komi þar við og gleymi sér í heimi drauga um stund. Frábær hugmynd að breyta svona gömlu frystihúsi, sem ekkert not var fyrir í þessa líka skemmtilegu afþreyingu. Svo var farið með okkur á veitingahúsið Við fjöruborðið. Ég hef reyndar komið þangað áður og alltaf er humarinn jafn góður og staðurinn sjarmerandi. Það voru allir mættir fyrir utan eina sem veiktist og komst ekki með. Það er auðvitað alveg frábært að skemmta sér svona með vinnufélögum og ekki verra þegar svona vel tekst til.

30. apríl 2005

Verkefnaskil

Í dag er 31.apríl og skiladagur verkefna á námskeiðinu Nám og kennsla á netinu. Ég er búin að eyða einhverjum helling af tíma, þolinmæði og þrautsegju í námið núna á vorönn. Afraksturinn er heimasíða sem ég er ánægð með. Til þess að auðvelda Salvöru kennara yfirferð gerði ég yfirlitssíðu þar sem ég velti vöngum yfir hverjum þætti námskeiðsins. Einnig ákvað ég að gera verkefnasíðu þar sem hægt er að nálgast öll verkefnin. Þetta er búið að vera alveg frábært námskeið hjá henni Salvöru og hún fær fyrstueinkunn sem kennari. Hún er alveg ótrúlega afkastamikil hvað varðar tölvu-og upplýsingatækni og ekki amalegt að geta fengið að njóta af gnægtarbrunni þekkingar hennar. Samnemendur mínir eru líka búnir að vera frábærir og gott að leita til þeirra eftir aðstoð og móralskum stuðningi. Takk fyrir hjálpina öll sömul!! Vonandi fylgjumst við áfram að í náminu og getum haldið áfram að styðja hvort annað. Spjallið á Skype heldur vonandi áfram, engin ástæða til þess að hætta því þó þessu námskeiði sé lokið.
Ég held að ég komi til með að halda áfram að blogga, hef áform um það. Ég á vini og ættingja sem eru að fylgjast með mér og mínum í gegnum bloggið. Læt þetta duga í bili.

29. apríl 2005

Það er að koma helgi

Hratt líður stund, bara kominn föstudagskvöld. Ég hef ekki verið dugleg að vinna við heimasíðuna þessa vikuna. Fór samt upp í skóla á þriðjudag og fékk hjálp hjá Salvöru til þess að komast inn í Moodle. Það gekk ágætlega og bjó ég til leikjanámskeið, bara svona til þess að prufa kerfið. Mér líst bara alveg ágætlega á þetta og sé nokkra möguleika í notkun þessa kerfis. Þetta gæti t.d. hentað vel faghópum eins og ég er í, hægt er að hafa opið málþing, ráðstefnu eða umræðu á svona vef. Ég er alltaf að fá jákvæð viðbrögð vegna kennsluvefsins, margir leikskólakennara sem hafa haft gagn af honum. Til þess var leikurinn gerður og er það alveg frábært ef hann kemur að gagni.
Ég hef nokkuð orðið vör við að þegar kemur að tölvulausnum eða starfænum hlutum að fólk er oft nokkuð latt við að leita sér upplýsinga og vill helst láta gera fyrir sig frekar en að lesa sér til um hlutina. Vinkona mín fékk gefins stafrænann hitamælir frá Landsbankanum sem er með klukku og vekjara. Í hálft ár hefur "dótið" að hennar sögn hringt kl.20 á hverju kvöldi og hún bara slökt. Af hverju ertu ekki búin að taka hringinguna af? spurði ég eins og bjáni. Bara, ég kann ekkert á svona dót. Fylgdu ekki leiðbeiningar spurði ég. Æiii það eru einhversstaðar leiðbeiningar, en ég hef ekki nennt að kynna mér þær. Svona svör fær maður nokkuð oft og alveg ótrúleg seigla að nenna að hlaupa til og slökkva í hálft ár á hverjum degi. Svona var þetta líka einu sinni fyrir langa löngu hjá foreldrum mínum, örbylgjuofninn hringdi alltaf á ákveðnum tíma og ekki nenntu þau að lesa bæklinginn til þess að slökkva á þessu. Svona lagað verður oft til eftir að rafmagnið hefur verið tekið af tímabundið. Þá ruglast tækin og fólk lætur vera að laga styllingar, telur sig ekki kunna það eða vill að einhver annar geri það.
Jæja þetta var nú bara svona pæling. Ég ætla að vera dugleg um helgina og klára námskeiðið um helgina. Svo hef ég það bara gott í maí, það er að segja svona að mestu. Er reyndar að byrja aftur að vinna 100% vinnu í leikskólunum, það verða viðbrygði.

14. apríl 2005

Í dagsins önn

Tíminn flýgur áfram og vor í lofti. Það gengur bara ágætlega að vinna verkefnin samhliða vinnu og heimilisstörfum. Ég hef undanfarna daga verið að bæta við kennsluvefinn og hef hugsað þá viðbót sem lokaverkefni. Ég fór og hitti Salvöru kennara á mánudaginn og kom hún mér vel í gang aftur. Ég var hreinlega búin að gleyma ákveðnum tækniatriðum og það var gott að fá leiðbeiningar með þau. Það má svo ekki í miðjum erlinum gleyma að fóðara sálina og fór ég þess vegna í kostningarmiðstöðina í gærkvöld og hlustaði á Tómas R og Samúel flytja djass. Þeir voru frábærir að vanda. Það voru ekki margir mættir, fámennt en góðmennt. Við vorum fjölskyldan búin að panta sumarbústað á Klaustri um helgina, en þá er spáð foráttu veðri svo sennilega er best að halda sig heima við.

5. apríl 2005

Áhrif tölvuleikja

Datt þetta svona í hug, af því ég var að lesa í bréfi frá Sólveigu að það á að halda fræðslufund í fyrramálið um áhrif tölvuleikja á börn og unglinga.

Þegar maðurinn minn var lítill í sveitinni fyrir austan, áttu systur hans að passa hann í heyskapnum. Þær voru auðvitað uppteknar í eigin leik og vildu ekki hafa of mikið fyrir honum svo þær ákváðu að hræða hann. Sögðu við hann að ef hann færi niður að bæjarlæknum gæti hann dottið ofan í hann og þá myndi hann deyja. Einn sólbjartann daginn kom hann hágrátandi heim að bæ, rennblautur frá toppi til táa og sagðist vera dáinn. Systurnar vissu strax upp á sig skömmina og hugguðu hann, en voru lengi að sannfæra hann um það að hann væri ekki dáinn.

Fyrir mánuði eða svo gerðist það í leikskólanum mínum að einn fimm ára strákur kom hágrátandi fram úr herbergi, þar sem hann hafði verið í leik með tveimur öðrum drengjum, í trékubbum. Hann virtist óhuggandi og þegar hann mátti mæla gat hann sagt mér að vinir hans segðu að hann ætti ekkert líf eftir. Þeir sem þekkja til tölvuleikja vita hvaðan það er komið.

Svona breytast tímarnir og mennirnir með.

31. mars 2005

Skil til Sólveigar

Nú er ég búin að gera það sem ég átti að gera varðandi Sólveigar þátt, eða það ætla ég að vona. Gleymdi engu sem fram kemur á vefleiðangirnum hennar. Ég er síðustu daga búin að vera að sveiflast þetta á milli tölvunnar og fermingarundirbúningsins. Nú verður námið sett á bið fram yfir helgi. Það gengur annars allt eins og það átti að gera. Kjötið komið í maríneringu og búið að versla allt sem til þarf. Nú fer að verða tími til þess að sækja láns húsgögn og dekka borð.
Ég skráði mig á málþing sem verður á morgun e.h. Fljótandi skil milli skólastiga. Það veldur mér miklum vonbrigðum að sjá á skráningarlistanum að langflestir þátttakendur eru starfandi innan leikskólans. Það er eins og grunnskólakennurum finnist málefnið ekki koma sér við. Hvernig eiga þessi skil að vera fljótandi án þátttöku annars aðilans.

15. mars 2005

Macromedia Captivate

Jæja, ég ákvað að búa til mjög einfaldar leiðbeiningar um það hvernig á að vinna með Macromedia Captivate. Ég er nú reyndar alltaf að finna út nýja hluti í þessu forriti. Það er hægt að láta það vinna með öðrum forritum á margan hátt. En ég ætlaði reyndar ekki að fara að flækja málið fyrir einhverjum hér. Sem sagt hér eru leiðbeiningarnar.
Ég er búin að vera að rannsaka netnotkun unglinga, mikið svakalega er erfitt að kóða athugunanirnar sem ég gerði. Er ég að gera þetta of flókið? Kannski, veit ekki. Það er mikið að gera hjá mér bæði í vinnu og heima svo ég verð að sæta lagi að vinna að skólaverkefnunum. Erfitt að vera ekki kennari í grunnskóla, ég verð að grípa alla unglinga sem koma í heimsókn til þess að rannsaka netnotkunina. Verst að nú er einn unglingurinn í hópnum kominn með bílpróf og það kemst ekkert annað að en að rúnta út um borg og bý. Kannski er það bara jákvætt, þeir verða þá ekki netfíklar á meðan.




21. febrúar 2005

Eitthvað að bardúsa

Ég er búin að vera að leika mér í Photo story forritinu, alveg rosalega gaman. Bjó til ferðasögu með myndunum sem elstu börnin í Kópahvoli tóku. Gaman þegar myndirnar fljóta svona hjá á skjánum. Ég er einnig byrjuð að læra á Flash, vonandi á ég fyrir reikningnum um næstu mánaðarmót. Er ekki annars komið eitthvað þak á niðurhalið, kannski sleppur þetta. Veit kannski einhver um góðar leiðbeiningar á netinu á íslensku?
Í kvöld er ég að fara á íbúafund/hverfisfund hér í mínum bæ. Það á víst að fara að breyta skipulagi þannig að í staðinn fyrir fallegan trjálund komi bílaumboð og bensínstöð. Það er eins og það megi aldrei láta græn svæði í friði, allt verður að víkja fyrir "fjandans" bílnum. Spaugstofan er drjúg við að benda á ýmislegt sem betur má fara hér í Kópavogi, s.b. sl. laugardag. Það er að verða til flokkur brandara, Kópavogsbrandarar. "Það er dýrt að búa í Kópavogi!" (borið fram dimmraddað) .
Það var umfjöllun í þættinum Í brennidepli í gærkvöld um geymslu á stafrænum myndum. Þar sögðu sérfræðingar að líklega myndu myndir nútímans ekki verða til í framtíðinni. Tæknin og búnaður til þess að geyma myndirnar hafa þar áhrif. Gömlu myndirnar sem geymdar eru á glerplötum munu líklega lifa stafrænu myndirnar af. Það var ekki fjallað um myndir sem fólk er að setja inn á veraldarvefinn, verða myndirnar þar til eilífðarnóns? Maður á auðvitað að vera duglegri að varðveita það sem er í tölvunni, en þá er það ekki nóg það þarf að vera stöðugt að uppfæra í takt við tækninýjungarnar. Ég á alveg fullt af diskettum sem eru einskinsnýtar í dag, lokaritgerðin mín úr sérkennslufræðunum er á einum þeirra. Floppydrif er á undanhaldi, ég var bara svo gamaldags að ég lét flytja drifið yfir í nýju tölvuna, en sennilega verður það ekki gert næst þegar uppfæra þarf. Skrítið þegar maður er orðinn "gamaldags" ekki nema ári síðar. Hér einu sinni var maður gamaldag ef maður hélt í eitthvað sem var "inn" fyrir áratug eða svo.

19. febrúar 2005

Ein ánægð með sig

Nú er ég búin að vera alveg sérlega dugleg að vinna/læra. Búin að breyta heimasíðunni, vonandi til batnaðar. Ég er búin að eyða mörgum stundum við að yfirfara allt það góða efni sem fylgdi lýsingum á verkefnunum á skólaspjallinu. Það er greinilega til eitt og annað þarna úti á vefnum, alveg hægt að detta inn í þennan heim. Stundum tapa ég mér alveg, en rata sem betur fer til baka aftur. Núna er ég búin að hlaða niður ýmsu sem við eigum að nota við gerð verkefnanna í staðbundnu lotunni. Það er bara gaman að fikta í þessu. Ég náði sem betur fer áttum í kartöflugarðinum með dyggri aðstoð samnemenda. Ákvað að prufa líka að gera svona spurningaleik. Mig langar rosalega mikið að gera svona flash dæmi á kennsluvef. Kannski ég prufi sjálf og athuga hvað ég kemst langt. Vildi að ég hefði haft tækifæri á að fara í margmiðlunarkúrsinn, það er greinilega gaman í honum, á það bara eftir í haust. Ég er alltaf að reyna að tengja námið við það sem ég er að fást við í vinnunni. Ég fór með nokkur elstu börnin í Kópahvoli í heimsókn í Furugrund í gær föstudag. Þau fengu að taka myndir á leiðinni. Það var eitt og annað sem vakti athygli þeirra. Mig langar að gera ljósmyndasögu úr þessari ferð og leyfa þeim að semja texta til að hafa með. Ég eyddi drjúgum tíma í að skoða svona dropdown hnappa, sem Eyþór hjálpaði mér með. Ég komst að því að maður þarf að vera nokkuð vel að sér í HTML til þess að eiga við það dæmi. Ég gat komið þessum hnöppum á síðuna með aðstoð sonar míns, en svo fannst mér þetta ekkert spes. Endaði á því að endurhanna allt útlit síðunnar og skipta um alla hnappa. Ég er bara nokkuð ánægð með síðuna núna.

16. febrúar 2005

Hratt líður stund

Vá!! allt í einu er ég búin að vera í fjóra klukkutíma í tölvunni. Það er alveg ótrúlegt hvað maður getur gleymt sér. Ég er búin að gera bloggið mitt voða fínt með myndasýningu og alles. Þökk sé Eyþóri. Ég er mikið búin að vera að skoða og breyta útliti heimasíðunnar, en einhvernveginn enda ég alltaf á því að hafa hana svo til óbreytta. Veit eiginlega ekkert hverju ég ætti að breyta. Mig langar alveg rosalega að gera svona hnappa eins og eru á fyrirtækjasíðum. Svona hnapp sem hefur undirhnappa. Skilur einhver hvað ég er að meina. Þá er eins og ef maður fer yfir hnapp sem heitir t.d. krækjur, þá birtist listi með mörgum hnöppum/krækjum undir. Ef einhver kann að gera svona hnappa þá væri gaman að fá að læra það.

10. febrúar 2005

Verkefnin

Ég hef ekki mikið verið að vinna í heimasíðunni síðustu daga, en því meira verið að prufa mig áfram í forritum og hugsa næstu skref. Það kemur auðvitað ekki alltaf fram hvað maður er duglegur að vinna á bak við tjöldin. Ég er búin að leysa verkefni 1. að ég held, alla vega er ég búin að setja inn snjómyndir og búin að skrá mig sem notanda í Del.ico.us. Þetta með 43things.com hlýtur að eiga að bíða eitthvað alla vega held ég að ég hafi ekki fengið sent aðgangsorð í það kerfi. Kannski hef ég hent bréfinu með öðrum ruslpósti, veit ekki. Verkefni 2. hef ég mikið pælt í, ætli sé ekki í lagi að gera leiðbeiningavef fyrir deildastjóra í Kópavogi svo þeir kunni að setja eitthvað inn á heimasíður leikskólanna. Ég er mikið í því að kenna það, en það væri auðvitað snilld að útbúa kennsluvef. Verkefni 3 er ég að hugsa um að nýta með elstu börnunum í leikskólanum, gæti tengt það þemanu "Bærinn okkar". Mér datt í hug að láta börnin taka ljósmyndirnar og velja lagið. Varðandi verkefni 4 og 5 þá er spurning hvort það má ekki vinna þau með öðrum. Held það væri upplagt ef t.d. einhver annar eða aðrir leikskólakennarar í hópnum væru til í að vera memm. Er ekki rétt skilið að það á að vinna þau verkefni í staðbundnu lotunni? Svo var eitthvað annað eftir, já var ekki eitthvað verkefni hjá Sólveigu? Könnunin, það er sennilega hægt að gera hana í apríl. Ég hlakka til að takast á við þetta, mér finnst svo gaman að öllu svona fikti með forrit. Í gær gerði ég glærusýningu fyrir leikskólann með 75 myndum af öskudagsfjöri. Það er hægt að skoða hana á heimasíðunni . Ég notaði til þess forrit sem heitir Photolightning . Var að nota það í fyrsta sinn og gekk eins og í lygasögu. Nú er ég búin að nota bloggið til þess að hugsa upphátt, Hvað með það, það auðveldar mér að átta mig á þessu öllu. Ég var í morgun að læra á nýtt myndvinnsluforrit í vinnunni sem við vorum að fjárfesta í Flicker heitir það. Ég talaði upphátt allan tímann og reglulega kom einhver inn í vinnuherbergið og hló að mér. Mér er auðvitað alveg sama, það er svo misjafnt hvernig fólk fer að því að læra. Það hentar mér að tala mig í gegnum verkefnin, stundum meira að segja syng ég líka.

6. febrúar 2005

Að halda áfram

Ég hef undanfarna daga svona hægt og bítandi verið að laga til á heimasíðunni. Ég þurfti að leiðrétta og bæta við í tæknisögunni, svo þurfti ég að taka af hnökra í vefrallýinu. Ég á eftir að skoða betur vefleiðangurinn, sýnist eithvað ólag vera á skráningunni sem fylgir. Svo ætla ég líka að reyna að skýra myndirnar sem fylgja leiðbeiningunum. Útlit síðunnar er líka algerlega eftir. Það eru mörg bekkjarsystkin mín komin með fallegar síður, svo ef maður á ekki vera þeim til skammar verður maður að laga þetta eitthvað til. Núna er litli frændi í heimsókn og vill að ég sýni honum áhuga frekar en tölvunni. Senilega hef ég tíma seinnipartinn til þess að byrja á útliti heimasíðunnar. Mér lýst vel á þau verkefni sem framundan eru í náminu. Mér finnst alltaf svo gaman að fikta í hinum og þessum forritum, ef maður er afslappaður fyrir því að gera mistök þá er þetta bara gaman. Verð samt að fara varlega og gleyma mér ekki í tölvunni, það hefur slæm áhrif á öxlina.

2. febrúar 2005

Lítið eitt.

Það er bara orðið svolítið síðan að ég skrifaði síðast. Ég hef bara einginlega ekkert haft að segja. Ég hef ekki mikið verið að vinna við heimasíðuna undanfarið. Fékk verki í öxlina og verð því að fara varlega. Núna stilli ég GSM símann svo hann hringi á 30 mín fresti og þá verð ég að standa upp og hreyfa mig. Ég horfði á Innlit- útlit í gær. Þar var heimsókn til manns sem kallaður er Nonni. Mér fannst þetta alveg frábær heimsókn, heimili hans var svo litríkt og flott. Það var greinilegt að það býr einhver heima hjá honum. Mér hefur alltaf fundist eins og þau heimili sem Vala Matt er að heimsækja svo köld og fráhrindandi, ekkert svona út um allt eins og er á venjulegum heimilum. Það er alltaf eins og það búi enginn í íbúðunum. Ég fæ stundum alveg sting fyrir hjartað þegar hún fer inn á heimili ungs fólks, sem er jafnvel með sína fyrstu íbúð. Allt svo nýtt og engin sál í neinu. Má ég þá heldur biðja um heimilslegt „drasl“ . Af því að við erum að fara að ferma ætlum við aðeins að taka í gegn hjá okkur. Við höfum verið að spá í hvort við ættum að mála svefnherbergið, en svo sagði Nonni, sem var heimsóttur í gær, að bleikur litur táknaði ást og fyrirheit. Ég held að við séum ekkert að mála herbergið, enda líður okkur vel að sofa í því eins og það er. Höfum bara orðið fyrir þrýsingi undanfarið vegna ummæla fólks um að karlmenn eigi ekki að þola það að sofa í bleikum litum. Hér eftir vitna ég bara í Nonna sem hefur vit á því hvað litir geta gert fyrir sálarlíf fólks. Það væri gaman að heyra viðhorf ykkar sem þetta lesið. Eigum við að mála herbergið ljóst, eða eigum við að sleppa því?

27. janúar 2005

Um vefrallý

Í gær var í fyrsta sinn prufað vefrallýið mitt. Elstu börnin á einni deildinni í Kópahvoli fengu að prufa og gekk það mjög vel. Það var alveg frábært að sjá hvað þau voru áhugasöm og flink með músina. Þau skiptust á við að stjórna. Það var fínt að ég var viðstödd, því þannig komst ég að smá vanköntum sem hægt er að laga, m.a. komst ég að því að hugsanlega er betra að taka fyrir eitt dýr af vefnum íslensku húsdýrinn í stað þess að láta þau fara á milli, en þau kláruðu sig ágætlega með verkefnið, en vildu greinilega fá að skoða meira um hvert og eitt dýr. Það mega ekki vera of margar spurningar fyrir svo ung börn og kennarinn verður að vera búinn að undirbúa kennslustundina. T.d. vantaði hljóðið á tölvuna og fór smá stund í að laga það. Ég þarf að setja inn í textann viðvörun þess efnis. Kennarinn sem var með þeim var mjög hrifinn af verkefninu og sá að hægt er að gera samskonar vefleiðangur um margt annað sem gaman væri að kynna fyrir börnunum. Sonja kom með þá hugmynd að við leikskólakennararnir myndum gera vef þar sem við söfnuðum saman vefleiðöngrum fyrir leikskólabörn og er það mjög góð hugmynd.

26. janúar 2005

Óæskilegur póstur

Ég var svo glöð í síðustu viku vegna þess að það kom ekki svo mikill ruslpóstur inn um bréfalúuna. Jólavertíðin var búin , útsöluvertíðin var búin og ég hélt að næsta vertíð væri ekki fyrr en rétt fyrir páska. Nei það reyndist ekki rétt hjá mér. Haldiði að það berist ekki á hverjum degi þessa vikuna póstur sem sérmerktur er okkur hjónum. Stundum er um að ræða nokkuð falleg og áhugaverð umslög, svo bréfin eru tekin upp í eldhúsinu (ekki við ruslatunnuna eins og oftast ef um ruslpóst er að ræða). Hvað er svo í þessum umslögum. Flest byrja bréfin á þessa leið: "Ágætu foreldrar!" og svo kemur: "Þegar ferming er í nánd........" Alveg gæti ég gubbað yfir þessu...... Nú erum við sem sagt orðinn alveg sérstakur markhópur: Foreldrar og fermingarbarn. Ég spyr nú bara hver er að ráðleggja þessu fólki í markaðssetningu, ég kem aldrei til með að versla við fólk sem sendir mér svona rusl-sníkju-frekju-leiðindapóst.

22. janúar 2005

Vefleiðangur

Nú hef ég bætt vefleiðangri: http://nemendur.khi.is/fjolthor/vefleidangur.htm inn á heimasíðuna mína. Ég hef auðvitað aldrei gert svona lagað áður, en vona að þetta virki. Ég leitaði eftir hugmyndum hjá samkennurum mínum og þeir bentu mér á að gera verkefni fyrir þá. Ég er að reyna að verða við því með þessum vefleiðangri. Vonandi gefa þeir sér tíma til þess að skoða verkefnið og kannski að vinna eitthvað í framhaldi af því með börnunum. Í dag hefur annars verið gestkvæmt hjá mér svo ég hef farið reglulega frá tölvunni til þess að sinna þeim. Það er fínt því annars væri ég komin með alvarlega verki í axlirnar. Það er nefnilega þannig að maður gæti endalaust verið að vinna í tölvunni. Ég er að hugsa um að láta útlit síðunnar bíða svolítið og einbeita mér frekar að þeim verkefnum sem ég á að skila um næstu mánaðarmót. Ég prufaði að fikta svolítið í útlitinu og komst að því að það er svo tímafrekt að mér féllust hendur.

18. janúar 2005

Mikið að gera

Ég hef haft mikið að gera í gær og í dag og því ekki mátt mikið vera að því að sinna náminu. Hef samt unnið svolitla rannsóknarvinnu bæði í leikskólanum og hér heima. Ég settist niður þegar ég kom heim og horfði á smáfuglana háma í sig fóðurblöndu sem börnin mín voru búin að bera á túnið fyrir þá. Þvílíkt haf að fuglum, þeir voru ekki lengi að borða allt upp til agna. Mér finnst alveg ótrúlega áhugavert að fylgjast með hegðun þeirra, er viss um að það eru einstaklingar innan um sem gefa hinum fölsk merki um að nú sé hætta á ferð. Þá fljúga allir fuglarnir upp en þessi ákveðni einstaklingur situr eftir, einn um allt góssið. Það er langur vinnudagur framundan á morgun, starfsmannafundur eftir vinnu, svo ég kemst ekki á fyrirlestur sem mig langar á í KHÍ. Svona er þetta bara maður getur ekki verið á tveimur stöðum í einu. Ég var að greiða atkvæði um nýja launasamninginn í dag, vonandi gerði ég rétt með því að samþyggja hann. Ég er að vona að við getum náð fram meiri leiðréttingu á laununum í næstu lotu. Samningurinn er stuttur, svo við erum komin eitthvað áleiðis. Ég kem til með að fá nýtt starfsheiti, verð sérkennslustjóri, virðulegt ekki satt.

15. janúar 2005

Ný verkefni

Í dag hef ég verið að laga og bæta við heimasíðuna mína. Það er eins gott að vera dugleg ef það á að nást að skila tímanlega þeim verkefnum sem vinna á í þessum mánuði. Ég var ekki í vandræðum með að búa til vefrallý, en það er sennilega hvað auðveldast af þessum verkefnum sem við eigum að vinna. Ég er nú líka svo lánsöm að hafa mér við hlið fimm ára frænda minn sem er mjög áhugasamur um húsdýravefinn. Segja má að hann hafi aðstoðað mig heil mikið við að finna út hvað börnum á þessum aldri finnst áhugavert á þessum vef. Tæknisagan er einnig tilbúin að ég held. Var samt að spá í hvort það er skynsamlegt að skrifa svona hvað til er í húsinu. Eru þetta ekki bara greinagóðar upplýsingar fyrir þjófa og ræningja, eins gott að þjófavarnarkerfið virki.

11. janúar 2005

Viðbrögð

Núna er ég búin að breyta stillingum þannig að það er hægt að senda inn viðbrögð við því sem ég skrifa. Vinsamlegast verið kurteis svo ég þurfi ekki að loka á ykkur vegna dónaskapar.

Staðlota

Ég er núna í staðlotu í KHÍ á námskeiði sem heitir Nám og kennsla á netinu. Kennarinn heitir Salvör Gissurardóttir. Við erum bæði í gær og í dag búin að vera að læra á hin ýmsu forrit. Þetta er alveg ferlega gaman. Það verður frábært að byrja að prufa alla þessa nýju tækni.

9. janúar 2005

Bloggað í fyrsta sinn

Jæja þá er ég orðin eins og allir hinir. Bara farin að blogga á netinu. Það er alveg ótrúlega auðvelt að byrja á þessu, hélt að það væri flóknara.
Ég hugsa þessa síðu sem nokkurns konar dagbók vegna þess að ég er í námi í KHÍ, Tölvu- og upplýsingatækni. Ég hef hugsað mér að fjalla um framvinduna í náminu og svo ýmislegt annað sem mér liggur á hjarta hverju sinni.