25. nóvember 2005

Námskeið

Ég fór á skemmtilegt námskeið í gær. Það var afmæli Tölvumiðstöðvar fatlaðra. Þar voru nokkur stutt erindi flutt og hvert öðru skemmilegra. Það sem vakti hvað mest athygli mína var hvað tölvutæknin er að koma að góðum notum fyrir fatlaða. Mjög margir hreyfihamlaðir, blindir og fólk sem býr við margskonar fatlanir hafa rofið einangrun sína með tölvutækninni. Ég var sérstaklega hrifin af manni sem heitir Hallgrímur Eymundsson. Hann sagði frá því hvað tölvutæknin skiptir miklu máli fyrir hann í daglegu lífi. Hann á m.a. bíl sem er algerlega tölvustýrður. Alveg frábært að sjá stjórnborðið í bílnum. Hann stjórnar tölvunni sinni m.a. með GSM símanum sínum. Þarna voru líka þroskaþjálfar úr Ölduselsskóla sem eru greinilega að gera mjög góða hluti með tveimur mikið hreyfihömluðum nemendum.
Eftir námskeiðið fór ég svo á fund leikskólasérkennara. Þar var m.a. til umfjöllunar tillögur vinnuhóps sem skipaður var á fundi s.l. vor. Gott starf sem nefndin vann og góðar tillögur að úrbótum sem þær leggja fram. Vonandi að þær verði kynntar sem víðast.
Af náminu er það að frétta að ég er að leggja lokahönd á verkefnin á tveimur námskeiðum og byrja að lesa undir próf á einu. Það skal alltaf vera jafnmikið að gera á þessum árstíma í náminu. Annað í lífinu gengur sinn vana gang. Allir eru hraustir og við hér heima farin að telja niður dagana þar til við förum til Frakklands. Það sama gerir Hrafn hinum megin við hafið.

Engin ummæli: