30. ágúst 2015

Innleiðing upplýsingatækni í leikskóla



Um þessar mundir er eitt ár síðan að leikskólar í Kópavogi fengu úthlutað auknum tæknibúnaði til þess að innleiða upplýsingatækni í skólastarfið. Þannig fengum við hér í Álfaheiði úthlutað iPad inn á hverja deild og tvær nýjar fartölvur einnig.
Afhendingu þessa búnaðar fylgdi síðan ekkert meira, þeir sem höfðu þörf fyrir gátu jú farið á námskeið til þess að læra á nokkur smáforrit. Engin aðstoð við innleiðingu á upplýsingatækni fór fram, engin kennslufræðileg ráðgjöf eða eftirfylgni, heldur var starfsfólki leikskólanna hennt út í djúpu laugina og þeim ætlað að synda að landi.
Sem betur fer á að fara aðra leið núna þegar kemur að innleiðingu iPads í grunnskólum bæjarins og er það vel.
Það sem við höfum gert hér í Álfaheiði er að reyna eftir megni að nýta okkur stefnu í upplýsingatækni fyrir leikskóla Kópavogs og vinna í anda hennar. Í henni kemur fram að í leikskóla skiptir fjölbreytni í kennsluaðferðum og vinnubrögðum miklu máli. Mikilvægt er að börn öðlist tækifæri og þjálfun í nútímatækni.  Leikskólarnir eiga að stuðla að fjölbreyttum vinnubrögðum og veita börnum jöfn tækifæri til að afla sér þekkingar til að miðla á skapandi hátt.
En í stefnunni segir ennfremur að til þess að svo geti orðið þurfa leikskólakennarar að hafa góða þekkingu á upplýsingatækni og aðgang að tækjabúnaði sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma.
Reynslan hefur sýnt að fjölmargir þættir skipta máli fyrir árangursríka innleiðingu spjaldtölva í skólastarfi. Fjárfesting í spjaldtölvum ein og sér skilar ekki sjálfkrafa árangri. Rannsóknir benda til þess að áhugi kennara og skuldbinging þeirra við verkefnið skipti megin máli. Eigi að ná fram umbreytingu á námi þá þarf að nálgast vekefnin á nýjan hátt, prófa sig stöðugt áfram og leita nýrra leiða til að ná þeim markmiðum sem unnið er að.

Evrópska skólanetið
gerði úttekt í þrjátíu og einum skóla í Evrópu til þess að skoða hvaða þættir eru líklegastir til að styðja við innleiðingu iPads í skólastarfi, en þeir eru:
  • Breytingar þurfa að vera vel skipulagðar og studdar kennslufræðilegum gildum.
  • Sveigjanlegur rammi þarf að vera um starfið sem inniheldur markmið, leiðbeiningar og verkfæri fyrir breytingarnar.
  • Breytingarnar þurfa að verða hluti af menningu skólans og einhverskonar hvatning þarf að vera til staðar fyrir kennara svo að þeir sjái hag í því að taka virkan þátt.
  • Meta þarf áhrif breytinganna reglulega og taka til greina nýja færni sem getur komið fram við nám með notkun upplýsingatækni.
  • Starfsþróun kennara og stuðningur við þá þarf að viðhaldast allt ferlið og þá er félagsstuðningur ein þeirra leiða sem getur stutt við það. Gagnlegt er fyrir kennara að fylgjast með kennslu hjá samkennurum.
Þar sem við hér í Álfaheiði höfum verið að feta, að margra kennara mati, algerlega nýjar slóðir með innleiðingu á iPad í skólastarfið finnst okkur rétt að líta um öxl. Það er reynsla okkar að halda að hlutirnir breytist við það eitt að kaupa tækin sé megin fyrra, kaupin sjálf eru minnsta málið.
Það sem innleiðingin snýst um er kennslufræði og markmið skólastarfs… ekki öpp eða bara það eitt að kaupa tæki. Fyrir hverja var verið að kaupa þau og hvað ætlum við að gera með þau?
Þess vegna finnst okkur rétt að staldra við á þessum tímamótum og skoða hvað við höfum verið að gera og hvað við viljum gera til framtíðar. 
Við höfum því ákveðið að leita okkur upplýsinga eins víða og hægt er til þess að gera eins vel og hægt er.  Við höfum því verið að grúska á Netinu eftir upplýsingum og þá einnig eftir því hvað hefur ekki tekist nógu vel til þess að geta lært af þeim mistökum sem kennarar hafa gert.

Við innleiðingu á upplýsingatækni í skólastarfi er mikilvægt að kennarar og skólastjórnendur hafi mikla þolinmæði og að kennari þori að prófa eitthvað nýtt, gera mistök og sé tilbúinn að læra af þeim. Innleiðingin er allajafna ekki eitthvað sem gerist hratt og aldrei á einfaldan hátt.
Dr. Ruben R Puentedura  hefur unnið að og þróað líkan til þess að fólk geti betur áttað sig á þeim skrefum sem eiga sér stað við innleiðingu á iPad í skólastarfi. Líkanið kallar hann SAMR módelið og Því er skipt í 4 stig (Substiturion, Augmentation, Modification og Redefinition) en til þess að hjálpa íslenskum kennurum að skilja það betur þá ákvað Ingvi Hrannar Ómarsson ásamt Erni Arnarsyni að snara því yfir á íslensku. 


Frábært og auðskiljanlegt módel, en dæmin eru mjög grunnskólamiðuð og því okkar að reyna að finna dæmi sem vísa til leikskólans.
Eftir mikið grúsk á Netinu fannst ekkert sem við getum stuðst við hvað varðar leikskólastarf.
Eftir reynslu okkar síðastliðið ár í innleiðingu iPads í skólastarfið í Álfaheiði höldum við að dæmin geti verið eftirfarandi.
1. Skipting – tæknin kemur bara í stað þess gamla án þess að bæta neinu við. Hér höfum við t.d. verið að nýta iPad til þess að taka ljósmyndir og myndupptökur. Í sjálfu sér bætir það engu við sem myndavélar gerðu áður. Við höfum verið að leita upplýsinga, t.d. um opnunartíma stofnanna, ferðir strætó og fl.. Í sjálfu sér hefði verið hægt að leita heimilda í bæklingum sem við eigum fyrir.
2. Viðbót – Tæknin kemur í stað annars með viðbættum möguleikum.  Hér höfum við t.d. verið að nýta iPad og einnig iPod til þess að miðla tónlist í daglegu starfi. Við nýtum núna Spotify og höfum þannig aðgang að geysilega miklu magni af tónlist.
Við höfum einnig í stað landakorts af Kópavogi nýtt okkur Google Maps til þess að skoða hvar börnin eiga heima áður en farið er í ferð að heimilum þeirra og síðan unnið út frá því í hópastarfi. 
3. Aðlögun – Tæknin býður upp á verulegar breytingar á verkefnum. Hér höfum við nýtt iPadinn í auknum mæli til þess að afla okkur heimilda og kennslufræðilegs efnis sem hentar við úrvinnslu ákveðinna verkefna. Í vetur nýttum við okkur t.d. iPadinn til þess að skoða myndrænar heimildir í tengslum við ákveðin verkefni s.s.  verkefni um sólkerfið. Það var stórkostlegt að geta nýtt iPadinn í þeirri vinnu.
4. Tæknin gerir okkur kleift að gera nýja hluti sem væri annars óhugsandi.  Ýmiskonar smáforrit höfum við nýtt á skapandi og hugmyndaríkan hátt í námi barnanna. Við höfum lagt áherslu á að börnin hafi aðgang að íslenskum smáforritum eða forritum þar sem boðið er upp á skapandi vinnu. Börnin hafa þannig haft aðgang að smáforritum sem gera þeim kleift með auðveldum hætti að búa til myndrænt efni sem þau geta birt á heimasíðu leikskólans. Við getum einnig séð fyrir okkur að halda áfram að nýta iPadinn á fjölbreyttari hátt í útikennslu. Við höfum t.d. aðeins verið að skoða ratleiki þar sem hægt er að nýta iPadinn á skemmtilegan hátt.

Liðið ár hefur fært okkur eitt og annað í reynslubankann og það sem stendur upp úr er að flest allir kennarar skólans eru jákvæðir í garð nýrrar tækni og tilbúnir að læra eitthvað nýtt,  gera mistök og læra af þeim.  Kennararnir reyna eftir mætti að nýta iPadinn með skapandi hætti og í uppeldis- og kennslufræðilegum tilgangi. iPadinn hefur ekki verið notaður til afþreyingar í starfinu.

Næsta skólaár ætlum við að leggja okkur fram um að finna fleiri leiðir til þess að nýta iPad í kennslufræðilegum tilgangi í leikskólastarfinu. Við höfum ákveðið að vinna sérstaklega einu sinni í viku með elstu börnin í fjögurra manna hópum, þannig að börnin eru tvö um hvern iPad.
Unnið verður samkvæmt stefnu Kópavogsbæjar í upplýsingatækni í leikskólum. Þar er lögð megin áhersla á að börnin fái tækifæri til þess að kynnast fjölbreyttri notkun upplýsingatækninnar.
Megin áhersla verður á að  börnin
:  
  • læri á smáforrit í iPad sem ætluð eru til þess að auðga ímyndunaraflið og sköpunarkraft þeirra.
  • læri umgengni við iPadinn 
  • eflist félagslega í nánu samstarfi við hvert annað.
Við gerum síðan ráð fyrir að börnin fái að æfa sig í iPadinum á milli stunda í þeim forritum sem þau eru að læra á.  Við höfum gert kennsluáætlun fyrir einn mánuð í senn og verður hún endurskoðuð jafnóðum ef þurfa þykir. Foreldrar geta þannig fylgst með og þá tekið þátt í með börnunum að læra á ákveðin smáforrit.
Allt efnið sem börnin skapa fer inn á heimasíðu leikskólans þannig að allir geti fylgst með því sem fram fer. 
Eins og áður hefur komið fram er mikilvægt að kennarar miðli þekkingu og færni sín á milli og þess vegna er nauðsynlegt að í skipulagningu starfsins sé gert ráð fyrir því að þeir geti fylgst með því sem hver og einn er að gera í upplýsingatækni eins og öðrum þáttum starfsins. Við ætlum að reyna eftir mætti að gefa okkur ráðrúm til þess í vetur.
Við sjáum fram á skemmtilegt vetrarstarf með nýjum ákskorunum þar sem við komum til með að læra með börnunum á nýja tækni.  Við höfum sterklega í huga að framtíðin er núna.
 

23. ágúst 2015

iPad innleiðing

Ég var í dag að undirbúa fyrirlestur fyrir samstarfsfólkið í Álfaheiði. Ég ætla að fjalla um í erindi mínu um innleiðingu á notkun iPad í skólastarfi.
Nú er akkúrat ár síðan að við fengum iPad inn á allar deildir leikskólans og löngu tímabært að ræða það hvað við raunverulega erum að gera með þá. Var einmitt að hugsa um það í leiðinni af hverju Kópavogsbær leggur alla sína orku þessa dagana í að innleiða iPad í grunnskólanna, en hefur ekki einu sinni spurt okkur í leikskólunum hvað varð um iPadana. Hvað ætli séu margir ónotaðir inni í skápum?  Þeim var bara dreift um bæinn og svo bara ekkert. En það er nú önnur saga.
Ég skoðaði margskonar leiðir við innleiðingu iPads og upplýsingatækni út um lönd, en fann ekkert bitastætt sem vísar til notkunar á iPad í leikskólastarfi. Að sjálfsögðu er hægt að miða við þau módel sem þekkt eru SAMR eða SVAN eins og Ingvi Hrannar hefur þýtt það módel, en dæmin sem notuð hafa verið eru öll miðuðu við önnur skólastig.
Ég sé því að ég verð að finna dæmin sjálf og það hef ég einmitt verið að gera í allan dag, hugsa og hugsa upp dæmi. Nokkur hef ég fundið sem geta átt hér við, en ég er samt sem áður að hugsa um að heyra í samstarfsfólkinu áður en ég upplýsi um þau hér.
Í grúskinu fann ég fínan fréttapóst frá HighScope þar sem fjallað er um upplýsingatækni í leikskólastarfi. Hugsanlega hafa einhverjir áhuga á að lesa þetta. Þarna er gerð skil skýrri stefnu HichScope leikskólanna. Stefnu sem er ígrunduð og byggð á raunverulegri hugmyndafræðilegri nálgun. Þarna er verið að velta fyrir sér kostum og göllum.
Ég hrífst aðallega af því að þó svo að nokkur neikvæðni ríki í garð upplýsingatækni fyrir ung börn og rannsóknir sýni að allt niður í tveggja ára börn séu komin með 2 klst. skjátíma á sólarhring er lausnin ekki sú að banna upplýsingatækni heldur að vinna með hana á skapandi hátt.

18. ágúst 2015

Læsi er lykill

Föstudaginn 14. ágúst var haldin ráðstefnan Læsi er lykill á vegum Samtaka áhugafólks um skólaþróun. Ráðstefnan stóð svo sannarlega undir væntingum mínum og hvet ég heilshugar fólk til þess að kynna sér skjákynningar fyrirlesara.
Fyrir hádegi voru frábærir fyrirlestrar í Háskólabíó, en ég var sérlega hrifin af fyrirlestri Fríðu Bjarneyjar þar sem hún fjallaði um þróun bernskulæsis og galdurinn við að kveikja áhuga allra barna á tungumálinu. Fríða Bjarney hefur unnið mjög gott starf með tvítyngdum börnum og kennurum þeirra.
Eftir hádegi voru í boði margar mismunandi málstofur og vinnustofur. Ég valdi fyrst að fara í vinnustofu með þeim Birte Harksen, Söru Grímsdóttur og Geirþrúðu Guðmundsdóttur sem unnið hafa með leikskólabörnum að því að efla læsi í gegnum dans, tónlist, leiki og takt. Birte heldur úti frábærum vef sem ég hef notað mikið undan farin ár Börn og tónlist.
Í lok dagsins fór ég svo í málstofu með þeim Svövu Pétursdóttur og Tryggva Thayer sem þau kölluðu upplýsingalæsi.
Það var mjög gaman í málstofunni enda umræðuefnið afar áhugavert fyrir mig. Sérstaklega umræðan um "Síubólur". Ég hafði ekki velt því fyrir mér að þær hefðu neikvæðar hliðar, heldur finnst mér eins og fleirum afar þægilegt á stundum þegar mér er vísað á efni sem ég hef áhuga á. Gott stundum að þurfa ekki að hugsa of mikið, eða þannig. Auðvitað er þetta svo ekki svona einfalt og getur í framtíðinni verið mikil ógn og skoðanamyndandi fyrir fólk.
Hér er ágætis myndband þar sem fjallað er um Síubólur eða Filter Bubbles.


12. ágúst 2015

eTwinning



Þær Kolbrún Svala Hjaltadóttir og Guðlaug Ósk Gunnarsdóttir eTwinningfulltrúar stýrðu núna síðdegis málstofu um eTwinning. Þær kynntu fyrir okkur þátttakendum starfssamfélagið, tilgang og markmið. 
Eftir smá byrjunarörðugleika hófu þær frásögn sína, en þar sem ég er nokkuð vel kunnug eTwinning þá var ekki mikið nýtt sem ég heyrði. Væntanlega verður erindið þeirra birt fljótlega hér.

Ég get eins og þær stöllur mælt heilshugar með því að kennarar taki þátt í eTwinning því ég hef af því afar góða reynslu. Mig langar til þess að segja ykkur frá fyrsta eTwinnigverkefninu sem ég tók þátt í haustið 2007 1.2.Buckle my shoe.

Verkefnið 1,2 Buckle my Shoe var um stærðfræði í leikskólum. Nafnið á verkefninu er heiti á leikskólavísu sem notuð er víða í enskumælandi löndum til þess að kenna börnum að telja.
Vísan er svona:
1, 2 Buckle my Shoe
One two buckle my shoe
Three, four, knock at the door
Five, six, pick up sticks
Seven, eight, lay them straight
Nine, ten, a big fat hen
Eleven, twelve, dig and delve
Thirteen, fourteen, maids a-courting
Fifteen, sixteen, maids in the kitchen
Seventeen, eighteen, maids in waiting
Nineteen, twenty, my plate's empty


Tólf leikskólar tóku þátt í verkefninu og stóð það yfir í tvö ár, frá 2007-2009. Verkefnið var samvinna evrópskra kennara sem deildu með sér hagnýtum og skemmtilegum upplifunum í námi og kennslu
Markmið verkefnisins var að:
börnin þrói með sér færni í stærðfræði og uppgötvi stærðfræðileg tengsl um leið og þau leika sér með mismunandi efnivið
börnin fái tilfinningu fyrir tölum og öðrum stærðfræðilegum hugtökum
hvetja börn til þess að hugsa á hlutbundinn hátt frekar en huglægan
hvetja börnin til að kanna og uppgötva heillandi stærðfræðihugtök í spennandi samhengi og deila niðurstöðum sínum á áhugaverðan hátt með félögum sínum um alla Evrópu
koma á samvinnu milli evrópskra kennara sem deila með sér hagnýtum og skemmtilegum upplifunum í námi og kennslu. 
Notkun upplýsingatækni
Þróun verkefnisins efldi færni og reynslu allra þátttakenda í upplýsingatækni. Strax í upphafi settum við okkur í Furugund það markmið að auka notkun okkar á upplýsingatækni. Við höfðum áður notað, Word,  PowerPoint og Movie Maker forritin frá Microsoft í uppeldisfræðilegri skráningarvinnu. Samhliða verkefninu gerðum við átak í að auka notkun okkar á opnum og frjálsum hugbúnaði til þess að vista myndefni, stafrænar ljósmyndir, myndbönd o.fl. Til samskipta við samstarfsaðila okkar notuðum við m.a. MSN, Skype, Feacebook og tölvupóst. Forritanlega býflugu (BeeBoot) keyptum við og notum mikið. Gagnvirkir leikir á Veraldarvefnum auk nokkurra stærðfræðiforrita fyrir börn voru keyptir. Seinna samstrfsárið útbjuggum við einnig hliðarsíðu með Moodle námsstjórnunarkerfinu. Þar söfnuðum við á einn stað ýmsu gagnvirku efni. Bæði efni sem við unnum til þess að kynna menningu og lönd hvers annars og einnig mikið af gagnvirku stærðfræðinámsefni. Bæði börnin og kennaranir í öllum samvinnuskólunum viðuðu að sér áhugaverðu efni úr ýmsum áttum, sem safnað var saman í gagnabanka á heimasíðunni okkar http://twinmath.wikispaces.com
Það getur einnig verið áhugavert fyrir lesendur að skoða lista yfir öll þau vefverkfæri sem við prófuðum í verkefninu, en þau voru ófá.  

Árangur og ávinningur
Þrátt fyrir ungan aldur barnanna skilaði eTwinning verkefnið 1,2 Buckle my Shoe góðum árangri í skapandi námi og kennsluþróun. Það mátti sjá á því hve hvetjandi reynsla annarra kennara virkaði og hve færni á sviði upplýsingatækni efldist jafnt og þétt.  Samvinna kennaranna í skólunum jók forskot þeirra í kennslufræðilegri framþróun.
Þátttökuskólarnir bundust tryggum böndum í gegnum vinnu við frábært samvinnuverkefni og náðu að skapa frjótt samstarf milli ólíkra kennara og barnahópa. Allir hjálpuðust að, hvöttu og studdu hver annan. Hver og einn skóli nálgaðist viðfangsefnin með skapandi hugsun að leiðarljósi. Engin ein leið var rétt og allt var tekið gilt. Börnin voru orðin spennt að sjá hvernig félagar þeirra í hinum löndunum leystu viðfangsefnin. Elstu börnin í Furugrund höfðu einnig ánægju af því að sýna yngri börnunum í skólanum hvernig þau leystu verkefnið og á hversu ólíkan hátt börnin í þátttökulöndunum nálguðust sama viðfangsefni.
Gæði verkefnisins lá aðallega í áhrifum þeim sem krefjandi starf, sköpun og frumleg nálgun hafði á öll börnin sem tóku þátt í verkefninu. Stærðfræðilegur skilningur, áhugi og hvatning stórjókst við ánægjulega þátttöku í verkefni þar sem lögð var áhersla á nám í gegnum leik.  Aukin fagleg þekking kennara hafði jákvæð áhrif á nám og kennslu í leikskólanum og hafði örugglega áhrif á starfið í framtíðinni. Þannig leiddi það af sér meiri gæði kennslunnar, sem er börnunum til hagsbóta. Þátttakan í verkefninu leiddi einnig af sér meiri áhuga barnanna á upplýsingatækni og þeim möguleikum sem bjóðast með notkun hennar. Gleði og ánægja með þátttöku í verkefninu gerði börnin jákvæðari fyrir stærðfræðilegum hugtökum.

Verkefnið vakti verðskuldaða athygli bæði hér á landi, í Evrópu og í Bandaríkjunum. Um það var fjallað í fjölmiðlum og fagtímaritum. Verkefnið var verðlaunað af landsskrifstofum sex Evrópulanda og vann til Evrópuverðlauna. 
Þátttakan í verkefninu varð síðan til þess að kennarar í Furugrund tóku þátt í mörgum mismunandi eTwinning verkefnum í framhaldinu og segja má að þáttakan hafi síðan leitt leikskólann inn á þá braut að taka þátt í því sem í dag kallast Erasmus+ verkefni.  Hér má sjáyfirlit yfir þau verkefni sem Furugrund hefur tekið þátt í. 

Vinnustofa með Bart Verswijel

Í gær tók ég þátt í vinnustofu ásamt félögum mínum í Samspil 2015. Vinnustofan var reyndar auglýst sem eTwinning vinnustofa með Bart Verswijel. Bart kom nú ekki mikið inn á eTwinning öðruvísi en að vísa til þess að öll verkfærin sem hann kynnti er hægt að nýta í eTwinningverkefnum. 
Bart fór víða og máttum við hafa okkur öll við að fylgja honum eftir. Ég var einmitt að rifja upp daginn og finnst alveg ótrúlegt hvað hann komst yfir að kynna mörg verkfæri fyrir okkur. 
Því miður þá er þarna ansi margt sem ég sé ekki að nýtist okkur með börnunum í leikskólanum. Ætla samt ekki að fullyrða það að svo stöddu því oft er það þannig að það sem virðist alls ekki passa reynist svo bara hið besta tól. 
Hér er að finna yfirlit yfir þau verkfæri sem Bart fór í, en mig langar til þess að fjalla hér sérstaklega um nokkur verkfæri sem mér finnst sniðug og hef verið að nota eða ætla að nota í framtíðinni. 

Bitly sýnist mér vera sniðugt tól. Bart segist nota það mikið sérstaklega þegar hann er að kenna í vinnustofum eins og þeirri sem við vorum á. Bitly einfaldar manni að útbúa vefslóðir sem maður vill benda fólki á. Oft er það þannig að áhugavert efni á vef hefur svo langa vefslóð (URL) að það tekur fólk langan tíma að skrifa þær, ef það er þá bara hægt. Bitly auðveldar þetta mjög mikið. Það er einfalt að læra á Bitly og hægt að úbúa eigin reikning og flokka vefslóðir á auðveldan hátt. Hér má sjá dæmi sem hann Bart notaði í kennslunni: 
bit.ly/visitcity - Sticky Moose 
bit.ly/favorvity - Answer Garden  
bit.ly/countrysong - Padlet


Spurningarleikir eru sívinsælir og Bart benti okkur á þrjú verkfæri til þess að útbúa slíka leiki. Við höfðum áður fengið kynningu á þeim, en af þessum þrem verkfærum, SocrativeMentimeter og Kahoot (to create: getkahoot.com) sem nefnd voru finnst mér Kahoot skemmtilegast. Ég hef áður fjallað um það verkfæri hér á blogginu mínu. Kahoot er að mínu mati einfaldast til þess að útbúa skemmtilega spurningarleiki. Það er mun sjónrænna og því heppilegra fyrir t.d. ung börn. Börnunum í leikskólanum þykir mjög gaman að fara í svona spurningarleiki.


Jigsaw Planet er verkfæri sem gaman verður að nota með leikskólabörnunum. Hægt er að setja inn í það eigin myndir og nota það eins og Bart gerði til þess að senda ákveðin skilaboð. Þannig birtast skilaboðin þegar púslunninni er lokið. Skemmtilegt verkfæri sem ég sjálf gleymdi mér aðeins í.


Bart fór yfir nokkur verkfæri sem hægt er að nýta í tengslum við Twitter. Þetta eru allt verkfæri sem geta nýst kennurunum sjálfum til gamans og gagns. Eitt af þeim verkfærum er Tweetdeck sem ég hef notað og finnst algjör snilld. Með því getur maður fylgst með ákveðnum umræðum (# hastag) sem í gangi eru.