12. ágúst 2015

eTwinning



Þær Kolbrún Svala Hjaltadóttir og Guðlaug Ósk Gunnarsdóttir eTwinningfulltrúar stýrðu núna síðdegis málstofu um eTwinning. Þær kynntu fyrir okkur þátttakendum starfssamfélagið, tilgang og markmið. 
Eftir smá byrjunarörðugleika hófu þær frásögn sína, en þar sem ég er nokkuð vel kunnug eTwinning þá var ekki mikið nýtt sem ég heyrði. Væntanlega verður erindið þeirra birt fljótlega hér.

Ég get eins og þær stöllur mælt heilshugar með því að kennarar taki þátt í eTwinning því ég hef af því afar góða reynslu. Mig langar til þess að segja ykkur frá fyrsta eTwinnigverkefninu sem ég tók þátt í haustið 2007 1.2.Buckle my shoe.

Verkefnið 1,2 Buckle my Shoe var um stærðfræði í leikskólum. Nafnið á verkefninu er heiti á leikskólavísu sem notuð er víða í enskumælandi löndum til þess að kenna börnum að telja.
Vísan er svona:
1, 2 Buckle my Shoe
One two buckle my shoe
Three, four, knock at the door
Five, six, pick up sticks
Seven, eight, lay them straight
Nine, ten, a big fat hen
Eleven, twelve, dig and delve
Thirteen, fourteen, maids a-courting
Fifteen, sixteen, maids in the kitchen
Seventeen, eighteen, maids in waiting
Nineteen, twenty, my plate's empty


Tólf leikskólar tóku þátt í verkefninu og stóð það yfir í tvö ár, frá 2007-2009. Verkefnið var samvinna evrópskra kennara sem deildu með sér hagnýtum og skemmtilegum upplifunum í námi og kennslu
Markmið verkefnisins var að:
börnin þrói með sér færni í stærðfræði og uppgötvi stærðfræðileg tengsl um leið og þau leika sér með mismunandi efnivið
börnin fái tilfinningu fyrir tölum og öðrum stærðfræðilegum hugtökum
hvetja börn til þess að hugsa á hlutbundinn hátt frekar en huglægan
hvetja börnin til að kanna og uppgötva heillandi stærðfræðihugtök í spennandi samhengi og deila niðurstöðum sínum á áhugaverðan hátt með félögum sínum um alla Evrópu
koma á samvinnu milli evrópskra kennara sem deila með sér hagnýtum og skemmtilegum upplifunum í námi og kennslu. 
Notkun upplýsingatækni
Þróun verkefnisins efldi færni og reynslu allra þátttakenda í upplýsingatækni. Strax í upphafi settum við okkur í Furugund það markmið að auka notkun okkar á upplýsingatækni. Við höfðum áður notað, Word,  PowerPoint og Movie Maker forritin frá Microsoft í uppeldisfræðilegri skráningarvinnu. Samhliða verkefninu gerðum við átak í að auka notkun okkar á opnum og frjálsum hugbúnaði til þess að vista myndefni, stafrænar ljósmyndir, myndbönd o.fl. Til samskipta við samstarfsaðila okkar notuðum við m.a. MSN, Skype, Feacebook og tölvupóst. Forritanlega býflugu (BeeBoot) keyptum við og notum mikið. Gagnvirkir leikir á Veraldarvefnum auk nokkurra stærðfræðiforrita fyrir börn voru keyptir. Seinna samstrfsárið útbjuggum við einnig hliðarsíðu með Moodle námsstjórnunarkerfinu. Þar söfnuðum við á einn stað ýmsu gagnvirku efni. Bæði efni sem við unnum til þess að kynna menningu og lönd hvers annars og einnig mikið af gagnvirku stærðfræðinámsefni. Bæði börnin og kennaranir í öllum samvinnuskólunum viðuðu að sér áhugaverðu efni úr ýmsum áttum, sem safnað var saman í gagnabanka á heimasíðunni okkar http://twinmath.wikispaces.com
Það getur einnig verið áhugavert fyrir lesendur að skoða lista yfir öll þau vefverkfæri sem við prófuðum í verkefninu, en þau voru ófá.  

Árangur og ávinningur
Þrátt fyrir ungan aldur barnanna skilaði eTwinning verkefnið 1,2 Buckle my Shoe góðum árangri í skapandi námi og kennsluþróun. Það mátti sjá á því hve hvetjandi reynsla annarra kennara virkaði og hve færni á sviði upplýsingatækni efldist jafnt og þétt.  Samvinna kennaranna í skólunum jók forskot þeirra í kennslufræðilegri framþróun.
Þátttökuskólarnir bundust tryggum böndum í gegnum vinnu við frábært samvinnuverkefni og náðu að skapa frjótt samstarf milli ólíkra kennara og barnahópa. Allir hjálpuðust að, hvöttu og studdu hver annan. Hver og einn skóli nálgaðist viðfangsefnin með skapandi hugsun að leiðarljósi. Engin ein leið var rétt og allt var tekið gilt. Börnin voru orðin spennt að sjá hvernig félagar þeirra í hinum löndunum leystu viðfangsefnin. Elstu börnin í Furugrund höfðu einnig ánægju af því að sýna yngri börnunum í skólanum hvernig þau leystu verkefnið og á hversu ólíkan hátt börnin í þátttökulöndunum nálguðust sama viðfangsefni.
Gæði verkefnisins lá aðallega í áhrifum þeim sem krefjandi starf, sköpun og frumleg nálgun hafði á öll börnin sem tóku þátt í verkefninu. Stærðfræðilegur skilningur, áhugi og hvatning stórjókst við ánægjulega þátttöku í verkefni þar sem lögð var áhersla á nám í gegnum leik.  Aukin fagleg þekking kennara hafði jákvæð áhrif á nám og kennslu í leikskólanum og hafði örugglega áhrif á starfið í framtíðinni. Þannig leiddi það af sér meiri gæði kennslunnar, sem er börnunum til hagsbóta. Þátttakan í verkefninu leiddi einnig af sér meiri áhuga barnanna á upplýsingatækni og þeim möguleikum sem bjóðast með notkun hennar. Gleði og ánægja með þátttöku í verkefninu gerði börnin jákvæðari fyrir stærðfræðilegum hugtökum.

Verkefnið vakti verðskuldaða athygli bæði hér á landi, í Evrópu og í Bandaríkjunum. Um það var fjallað í fjölmiðlum og fagtímaritum. Verkefnið var verðlaunað af landsskrifstofum sex Evrópulanda og vann til Evrópuverðlauna. 
Þátttakan í verkefninu varð síðan til þess að kennarar í Furugrund tóku þátt í mörgum mismunandi eTwinning verkefnum í framhaldinu og segja má að þáttakan hafi síðan leitt leikskólann inn á þá braut að taka þátt í því sem í dag kallast Erasmus+ verkefni.  Hér má sjáyfirlit yfir þau verkefni sem Furugrund hefur tekið þátt í. 

Engin ummæli: