30. apríl 2005

Verkefnaskil

Í dag er 31.apríl og skiladagur verkefna á námskeiðinu Nám og kennsla á netinu. Ég er búin að eyða einhverjum helling af tíma, þolinmæði og þrautsegju í námið núna á vorönn. Afraksturinn er heimasíða sem ég er ánægð með. Til þess að auðvelda Salvöru kennara yfirferð gerði ég yfirlitssíðu þar sem ég velti vöngum yfir hverjum þætti námskeiðsins. Einnig ákvað ég að gera verkefnasíðu þar sem hægt er að nálgast öll verkefnin. Þetta er búið að vera alveg frábært námskeið hjá henni Salvöru og hún fær fyrstueinkunn sem kennari. Hún er alveg ótrúlega afkastamikil hvað varðar tölvu-og upplýsingatækni og ekki amalegt að geta fengið að njóta af gnægtarbrunni þekkingar hennar. Samnemendur mínir eru líka búnir að vera frábærir og gott að leita til þeirra eftir aðstoð og móralskum stuðningi. Takk fyrir hjálpina öll sömul!! Vonandi fylgjumst við áfram að í náminu og getum haldið áfram að styðja hvort annað. Spjallið á Skype heldur vonandi áfram, engin ástæða til þess að hætta því þó þessu námskeiði sé lokið.
Ég held að ég komi til með að halda áfram að blogga, hef áform um það. Ég á vini og ættingja sem eru að fylgjast með mér og mínum í gegnum bloggið. Læt þetta duga í bili.

29. apríl 2005

Það er að koma helgi

Hratt líður stund, bara kominn föstudagskvöld. Ég hef ekki verið dugleg að vinna við heimasíðuna þessa vikuna. Fór samt upp í skóla á þriðjudag og fékk hjálp hjá Salvöru til þess að komast inn í Moodle. Það gekk ágætlega og bjó ég til leikjanámskeið, bara svona til þess að prufa kerfið. Mér líst bara alveg ágætlega á þetta og sé nokkra möguleika í notkun þessa kerfis. Þetta gæti t.d. hentað vel faghópum eins og ég er í, hægt er að hafa opið málþing, ráðstefnu eða umræðu á svona vef. Ég er alltaf að fá jákvæð viðbrögð vegna kennsluvefsins, margir leikskólakennara sem hafa haft gagn af honum. Til þess var leikurinn gerður og er það alveg frábært ef hann kemur að gagni.
Ég hef nokkuð orðið vör við að þegar kemur að tölvulausnum eða starfænum hlutum að fólk er oft nokkuð latt við að leita sér upplýsinga og vill helst láta gera fyrir sig frekar en að lesa sér til um hlutina. Vinkona mín fékk gefins stafrænann hitamælir frá Landsbankanum sem er með klukku og vekjara. Í hálft ár hefur "dótið" að hennar sögn hringt kl.20 á hverju kvöldi og hún bara slökt. Af hverju ertu ekki búin að taka hringinguna af? spurði ég eins og bjáni. Bara, ég kann ekkert á svona dót. Fylgdu ekki leiðbeiningar spurði ég. Æiii það eru einhversstaðar leiðbeiningar, en ég hef ekki nennt að kynna mér þær. Svona svör fær maður nokkuð oft og alveg ótrúleg seigla að nenna að hlaupa til og slökkva í hálft ár á hverjum degi. Svona var þetta líka einu sinni fyrir langa löngu hjá foreldrum mínum, örbylgjuofninn hringdi alltaf á ákveðnum tíma og ekki nenntu þau að lesa bæklinginn til þess að slökkva á þessu. Svona lagað verður oft til eftir að rafmagnið hefur verið tekið af tímabundið. Þá ruglast tækin og fólk lætur vera að laga styllingar, telur sig ekki kunna það eða vill að einhver annar geri það.
Jæja þetta var nú bara svona pæling. Ég ætla að vera dugleg um helgina og klára námskeiðið um helgina. Svo hef ég það bara gott í maí, það er að segja svona að mestu. Er reyndar að byrja aftur að vinna 100% vinnu í leikskólunum, það verða viðbrygði.

14. apríl 2005

Í dagsins önn

Tíminn flýgur áfram og vor í lofti. Það gengur bara ágætlega að vinna verkefnin samhliða vinnu og heimilisstörfum. Ég hef undanfarna daga verið að bæta við kennsluvefinn og hef hugsað þá viðbót sem lokaverkefni. Ég fór og hitti Salvöru kennara á mánudaginn og kom hún mér vel í gang aftur. Ég var hreinlega búin að gleyma ákveðnum tækniatriðum og það var gott að fá leiðbeiningar með þau. Það má svo ekki í miðjum erlinum gleyma að fóðara sálina og fór ég þess vegna í kostningarmiðstöðina í gærkvöld og hlustaði á Tómas R og Samúel flytja djass. Þeir voru frábærir að vanda. Það voru ekki margir mættir, fámennt en góðmennt. Við vorum fjölskyldan búin að panta sumarbústað á Klaustri um helgina, en þá er spáð foráttu veðri svo sennilega er best að halda sig heima við.

5. apríl 2005

Áhrif tölvuleikja

Datt þetta svona í hug, af því ég var að lesa í bréfi frá Sólveigu að það á að halda fræðslufund í fyrramálið um áhrif tölvuleikja á börn og unglinga.

Þegar maðurinn minn var lítill í sveitinni fyrir austan, áttu systur hans að passa hann í heyskapnum. Þær voru auðvitað uppteknar í eigin leik og vildu ekki hafa of mikið fyrir honum svo þær ákváðu að hræða hann. Sögðu við hann að ef hann færi niður að bæjarlæknum gæti hann dottið ofan í hann og þá myndi hann deyja. Einn sólbjartann daginn kom hann hágrátandi heim að bæ, rennblautur frá toppi til táa og sagðist vera dáinn. Systurnar vissu strax upp á sig skömmina og hugguðu hann, en voru lengi að sannfæra hann um það að hann væri ekki dáinn.

Fyrir mánuði eða svo gerðist það í leikskólanum mínum að einn fimm ára strákur kom hágrátandi fram úr herbergi, þar sem hann hafði verið í leik með tveimur öðrum drengjum, í trékubbum. Hann virtist óhuggandi og þegar hann mátti mæla gat hann sagt mér að vinir hans segðu að hann ætti ekkert líf eftir. Þeir sem þekkja til tölvuleikja vita hvaðan það er komið.

Svona breytast tímarnir og mennirnir með.