27. janúar 2005

Um vefrallý

Í gær var í fyrsta sinn prufað vefrallýið mitt. Elstu börnin á einni deildinni í Kópahvoli fengu að prufa og gekk það mjög vel. Það var alveg frábært að sjá hvað þau voru áhugasöm og flink með músina. Þau skiptust á við að stjórna. Það var fínt að ég var viðstödd, því þannig komst ég að smá vanköntum sem hægt er að laga, m.a. komst ég að því að hugsanlega er betra að taka fyrir eitt dýr af vefnum íslensku húsdýrinn í stað þess að láta þau fara á milli, en þau kláruðu sig ágætlega með verkefnið, en vildu greinilega fá að skoða meira um hvert og eitt dýr. Það mega ekki vera of margar spurningar fyrir svo ung börn og kennarinn verður að vera búinn að undirbúa kennslustundina. T.d. vantaði hljóðið á tölvuna og fór smá stund í að laga það. Ég þarf að setja inn í textann viðvörun þess efnis. Kennarinn sem var með þeim var mjög hrifinn af verkefninu og sá að hægt er að gera samskonar vefleiðangur um margt annað sem gaman væri að kynna fyrir börnunum. Sonja kom með þá hugmynd að við leikskólakennararnir myndum gera vef þar sem við söfnuðum saman vefleiðöngrum fyrir leikskólabörn og er það mjög góð hugmynd.

26. janúar 2005

Óæskilegur póstur

Ég var svo glöð í síðustu viku vegna þess að það kom ekki svo mikill ruslpóstur inn um bréfalúuna. Jólavertíðin var búin , útsöluvertíðin var búin og ég hélt að næsta vertíð væri ekki fyrr en rétt fyrir páska. Nei það reyndist ekki rétt hjá mér. Haldiði að það berist ekki á hverjum degi þessa vikuna póstur sem sérmerktur er okkur hjónum. Stundum er um að ræða nokkuð falleg og áhugaverð umslög, svo bréfin eru tekin upp í eldhúsinu (ekki við ruslatunnuna eins og oftast ef um ruslpóst er að ræða). Hvað er svo í þessum umslögum. Flest byrja bréfin á þessa leið: "Ágætu foreldrar!" og svo kemur: "Þegar ferming er í nánd........" Alveg gæti ég gubbað yfir þessu...... Nú erum við sem sagt orðinn alveg sérstakur markhópur: Foreldrar og fermingarbarn. Ég spyr nú bara hver er að ráðleggja þessu fólki í markaðssetningu, ég kem aldrei til með að versla við fólk sem sendir mér svona rusl-sníkju-frekju-leiðindapóst.

22. janúar 2005

Vefleiðangur

Nú hef ég bætt vefleiðangri: http://nemendur.khi.is/fjolthor/vefleidangur.htm inn á heimasíðuna mína. Ég hef auðvitað aldrei gert svona lagað áður, en vona að þetta virki. Ég leitaði eftir hugmyndum hjá samkennurum mínum og þeir bentu mér á að gera verkefni fyrir þá. Ég er að reyna að verða við því með þessum vefleiðangri. Vonandi gefa þeir sér tíma til þess að skoða verkefnið og kannski að vinna eitthvað í framhaldi af því með börnunum. Í dag hefur annars verið gestkvæmt hjá mér svo ég hef farið reglulega frá tölvunni til þess að sinna þeim. Það er fínt því annars væri ég komin með alvarlega verki í axlirnar. Það er nefnilega þannig að maður gæti endalaust verið að vinna í tölvunni. Ég er að hugsa um að láta útlit síðunnar bíða svolítið og einbeita mér frekar að þeim verkefnum sem ég á að skila um næstu mánaðarmót. Ég prufaði að fikta svolítið í útlitinu og komst að því að það er svo tímafrekt að mér féllust hendur.

18. janúar 2005

Mikið að gera

Ég hef haft mikið að gera í gær og í dag og því ekki mátt mikið vera að því að sinna náminu. Hef samt unnið svolitla rannsóknarvinnu bæði í leikskólanum og hér heima. Ég settist niður þegar ég kom heim og horfði á smáfuglana háma í sig fóðurblöndu sem börnin mín voru búin að bera á túnið fyrir þá. Þvílíkt haf að fuglum, þeir voru ekki lengi að borða allt upp til agna. Mér finnst alveg ótrúlega áhugavert að fylgjast með hegðun þeirra, er viss um að það eru einstaklingar innan um sem gefa hinum fölsk merki um að nú sé hætta á ferð. Þá fljúga allir fuglarnir upp en þessi ákveðni einstaklingur situr eftir, einn um allt góssið. Það er langur vinnudagur framundan á morgun, starfsmannafundur eftir vinnu, svo ég kemst ekki á fyrirlestur sem mig langar á í KHÍ. Svona er þetta bara maður getur ekki verið á tveimur stöðum í einu. Ég var að greiða atkvæði um nýja launasamninginn í dag, vonandi gerði ég rétt með því að samþyggja hann. Ég er að vona að við getum náð fram meiri leiðréttingu á laununum í næstu lotu. Samningurinn er stuttur, svo við erum komin eitthvað áleiðis. Ég kem til með að fá nýtt starfsheiti, verð sérkennslustjóri, virðulegt ekki satt.

15. janúar 2005

Ný verkefni

Í dag hef ég verið að laga og bæta við heimasíðuna mína. Það er eins gott að vera dugleg ef það á að nást að skila tímanlega þeim verkefnum sem vinna á í þessum mánuði. Ég var ekki í vandræðum með að búa til vefrallý, en það er sennilega hvað auðveldast af þessum verkefnum sem við eigum að vinna. Ég er nú líka svo lánsöm að hafa mér við hlið fimm ára frænda minn sem er mjög áhugasamur um húsdýravefinn. Segja má að hann hafi aðstoðað mig heil mikið við að finna út hvað börnum á þessum aldri finnst áhugavert á þessum vef. Tæknisagan er einnig tilbúin að ég held. Var samt að spá í hvort það er skynsamlegt að skrifa svona hvað til er í húsinu. Eru þetta ekki bara greinagóðar upplýsingar fyrir þjófa og ræningja, eins gott að þjófavarnarkerfið virki.

11. janúar 2005

Viðbrögð

Núna er ég búin að breyta stillingum þannig að það er hægt að senda inn viðbrögð við því sem ég skrifa. Vinsamlegast verið kurteis svo ég þurfi ekki að loka á ykkur vegna dónaskapar.

Staðlota

Ég er núna í staðlotu í KHÍ á námskeiði sem heitir Nám og kennsla á netinu. Kennarinn heitir Salvör Gissurardóttir. Við erum bæði í gær og í dag búin að vera að læra á hin ýmsu forrit. Þetta er alveg ferlega gaman. Það verður frábært að byrja að prufa alla þessa nýju tækni.

9. janúar 2005

Bloggað í fyrsta sinn

Jæja þá er ég orðin eins og allir hinir. Bara farin að blogga á netinu. Það er alveg ótrúlega auðvelt að byrja á þessu, hélt að það væri flóknara.
Ég hugsa þessa síðu sem nokkurns konar dagbók vegna þess að ég er í námi í KHÍ, Tölvu- og upplýsingatækni. Ég hef hugsað mér að fjalla um framvinduna í náminu og svo ýmislegt annað sem mér liggur á hjarta hverju sinni.