30. ágúst 2015

Innleiðing upplýsingatækni í leikskóla



Um þessar mundir er eitt ár síðan að leikskólar í Kópavogi fengu úthlutað auknum tæknibúnaði til þess að innleiða upplýsingatækni í skólastarfið. Þannig fengum við hér í Álfaheiði úthlutað iPad inn á hverja deild og tvær nýjar fartölvur einnig.
Afhendingu þessa búnaðar fylgdi síðan ekkert meira, þeir sem höfðu þörf fyrir gátu jú farið á námskeið til þess að læra á nokkur smáforrit. Engin aðstoð við innleiðingu á upplýsingatækni fór fram, engin kennslufræðileg ráðgjöf eða eftirfylgni, heldur var starfsfólki leikskólanna hennt út í djúpu laugina og þeim ætlað að synda að landi.
Sem betur fer á að fara aðra leið núna þegar kemur að innleiðingu iPads í grunnskólum bæjarins og er það vel.
Það sem við höfum gert hér í Álfaheiði er að reyna eftir megni að nýta okkur stefnu í upplýsingatækni fyrir leikskóla Kópavogs og vinna í anda hennar. Í henni kemur fram að í leikskóla skiptir fjölbreytni í kennsluaðferðum og vinnubrögðum miklu máli. Mikilvægt er að börn öðlist tækifæri og þjálfun í nútímatækni.  Leikskólarnir eiga að stuðla að fjölbreyttum vinnubrögðum og veita börnum jöfn tækifæri til að afla sér þekkingar til að miðla á skapandi hátt.
En í stefnunni segir ennfremur að til þess að svo geti orðið þurfa leikskólakennarar að hafa góða þekkingu á upplýsingatækni og aðgang að tækjabúnaði sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma.
Reynslan hefur sýnt að fjölmargir þættir skipta máli fyrir árangursríka innleiðingu spjaldtölva í skólastarfi. Fjárfesting í spjaldtölvum ein og sér skilar ekki sjálfkrafa árangri. Rannsóknir benda til þess að áhugi kennara og skuldbinging þeirra við verkefnið skipti megin máli. Eigi að ná fram umbreytingu á námi þá þarf að nálgast vekefnin á nýjan hátt, prófa sig stöðugt áfram og leita nýrra leiða til að ná þeim markmiðum sem unnið er að.

Evrópska skólanetið
gerði úttekt í þrjátíu og einum skóla í Evrópu til þess að skoða hvaða þættir eru líklegastir til að styðja við innleiðingu iPads í skólastarfi, en þeir eru:
  • Breytingar þurfa að vera vel skipulagðar og studdar kennslufræðilegum gildum.
  • Sveigjanlegur rammi þarf að vera um starfið sem inniheldur markmið, leiðbeiningar og verkfæri fyrir breytingarnar.
  • Breytingarnar þurfa að verða hluti af menningu skólans og einhverskonar hvatning þarf að vera til staðar fyrir kennara svo að þeir sjái hag í því að taka virkan þátt.
  • Meta þarf áhrif breytinganna reglulega og taka til greina nýja færni sem getur komið fram við nám með notkun upplýsingatækni.
  • Starfsþróun kennara og stuðningur við þá þarf að viðhaldast allt ferlið og þá er félagsstuðningur ein þeirra leiða sem getur stutt við það. Gagnlegt er fyrir kennara að fylgjast með kennslu hjá samkennurum.
Þar sem við hér í Álfaheiði höfum verið að feta, að margra kennara mati, algerlega nýjar slóðir með innleiðingu á iPad í skólastarfið finnst okkur rétt að líta um öxl. Það er reynsla okkar að halda að hlutirnir breytist við það eitt að kaupa tækin sé megin fyrra, kaupin sjálf eru minnsta málið.
Það sem innleiðingin snýst um er kennslufræði og markmið skólastarfs… ekki öpp eða bara það eitt að kaupa tæki. Fyrir hverja var verið að kaupa þau og hvað ætlum við að gera með þau?
Þess vegna finnst okkur rétt að staldra við á þessum tímamótum og skoða hvað við höfum verið að gera og hvað við viljum gera til framtíðar. 
Við höfum því ákveðið að leita okkur upplýsinga eins víða og hægt er til þess að gera eins vel og hægt er.  Við höfum því verið að grúska á Netinu eftir upplýsingum og þá einnig eftir því hvað hefur ekki tekist nógu vel til þess að geta lært af þeim mistökum sem kennarar hafa gert.

Við innleiðingu á upplýsingatækni í skólastarfi er mikilvægt að kennarar og skólastjórnendur hafi mikla þolinmæði og að kennari þori að prófa eitthvað nýtt, gera mistök og sé tilbúinn að læra af þeim. Innleiðingin er allajafna ekki eitthvað sem gerist hratt og aldrei á einfaldan hátt.
Dr. Ruben R Puentedura  hefur unnið að og þróað líkan til þess að fólk geti betur áttað sig á þeim skrefum sem eiga sér stað við innleiðingu á iPad í skólastarfi. Líkanið kallar hann SAMR módelið og Því er skipt í 4 stig (Substiturion, Augmentation, Modification og Redefinition) en til þess að hjálpa íslenskum kennurum að skilja það betur þá ákvað Ingvi Hrannar Ómarsson ásamt Erni Arnarsyni að snara því yfir á íslensku. 


Frábært og auðskiljanlegt módel, en dæmin eru mjög grunnskólamiðuð og því okkar að reyna að finna dæmi sem vísa til leikskólans.
Eftir mikið grúsk á Netinu fannst ekkert sem við getum stuðst við hvað varðar leikskólastarf.
Eftir reynslu okkar síðastliðið ár í innleiðingu iPads í skólastarfið í Álfaheiði höldum við að dæmin geti verið eftirfarandi.
1. Skipting – tæknin kemur bara í stað þess gamla án þess að bæta neinu við. Hér höfum við t.d. verið að nýta iPad til þess að taka ljósmyndir og myndupptökur. Í sjálfu sér bætir það engu við sem myndavélar gerðu áður. Við höfum verið að leita upplýsinga, t.d. um opnunartíma stofnanna, ferðir strætó og fl.. Í sjálfu sér hefði verið hægt að leita heimilda í bæklingum sem við eigum fyrir.
2. Viðbót – Tæknin kemur í stað annars með viðbættum möguleikum.  Hér höfum við t.d. verið að nýta iPad og einnig iPod til þess að miðla tónlist í daglegu starfi. Við nýtum núna Spotify og höfum þannig aðgang að geysilega miklu magni af tónlist.
Við höfum einnig í stað landakorts af Kópavogi nýtt okkur Google Maps til þess að skoða hvar börnin eiga heima áður en farið er í ferð að heimilum þeirra og síðan unnið út frá því í hópastarfi. 
3. Aðlögun – Tæknin býður upp á verulegar breytingar á verkefnum. Hér höfum við nýtt iPadinn í auknum mæli til þess að afla okkur heimilda og kennslufræðilegs efnis sem hentar við úrvinnslu ákveðinna verkefna. Í vetur nýttum við okkur t.d. iPadinn til þess að skoða myndrænar heimildir í tengslum við ákveðin verkefni s.s.  verkefni um sólkerfið. Það var stórkostlegt að geta nýtt iPadinn í þeirri vinnu.
4. Tæknin gerir okkur kleift að gera nýja hluti sem væri annars óhugsandi.  Ýmiskonar smáforrit höfum við nýtt á skapandi og hugmyndaríkan hátt í námi barnanna. Við höfum lagt áherslu á að börnin hafi aðgang að íslenskum smáforritum eða forritum þar sem boðið er upp á skapandi vinnu. Börnin hafa þannig haft aðgang að smáforritum sem gera þeim kleift með auðveldum hætti að búa til myndrænt efni sem þau geta birt á heimasíðu leikskólans. Við getum einnig séð fyrir okkur að halda áfram að nýta iPadinn á fjölbreyttari hátt í útikennslu. Við höfum t.d. aðeins verið að skoða ratleiki þar sem hægt er að nýta iPadinn á skemmtilegan hátt.

Liðið ár hefur fært okkur eitt og annað í reynslubankann og það sem stendur upp úr er að flest allir kennarar skólans eru jákvæðir í garð nýrrar tækni og tilbúnir að læra eitthvað nýtt,  gera mistök og læra af þeim.  Kennararnir reyna eftir mætti að nýta iPadinn með skapandi hætti og í uppeldis- og kennslufræðilegum tilgangi. iPadinn hefur ekki verið notaður til afþreyingar í starfinu.

Næsta skólaár ætlum við að leggja okkur fram um að finna fleiri leiðir til þess að nýta iPad í kennslufræðilegum tilgangi í leikskólastarfinu. Við höfum ákveðið að vinna sérstaklega einu sinni í viku með elstu börnin í fjögurra manna hópum, þannig að börnin eru tvö um hvern iPad.
Unnið verður samkvæmt stefnu Kópavogsbæjar í upplýsingatækni í leikskólum. Þar er lögð megin áhersla á að börnin fái tækifæri til þess að kynnast fjölbreyttri notkun upplýsingatækninnar.
Megin áhersla verður á að  börnin
:  
  • læri á smáforrit í iPad sem ætluð eru til þess að auðga ímyndunaraflið og sköpunarkraft þeirra.
  • læri umgengni við iPadinn 
  • eflist félagslega í nánu samstarfi við hvert annað.
Við gerum síðan ráð fyrir að börnin fái að æfa sig í iPadinum á milli stunda í þeim forritum sem þau eru að læra á.  Við höfum gert kennsluáætlun fyrir einn mánuð í senn og verður hún endurskoðuð jafnóðum ef þurfa þykir. Foreldrar geta þannig fylgst með og þá tekið þátt í með börnunum að læra á ákveðin smáforrit.
Allt efnið sem börnin skapa fer inn á heimasíðu leikskólans þannig að allir geti fylgst með því sem fram fer. 
Eins og áður hefur komið fram er mikilvægt að kennarar miðli þekkingu og færni sín á milli og þess vegna er nauðsynlegt að í skipulagningu starfsins sé gert ráð fyrir því að þeir geti fylgst með því sem hver og einn er að gera í upplýsingatækni eins og öðrum þáttum starfsins. Við ætlum að reyna eftir mætti að gefa okkur ráðrúm til þess í vetur.
Við sjáum fram á skemmtilegt vetrarstarf með nýjum ákskorunum þar sem við komum til með að læra með börnunum á nýja tækni.  Við höfum sterklega í huga að framtíðin er núna.
 

Engin ummæli: