Ég tók þátt í Menntaspjalli á Twitter í gær. Magnað hvað það eru margir kennarar til í að eyða frítíma sínum á sunnudegi í spjall um skólastarf. Sé það nú ekki alveg fyrir mér að margar aðrar stéttir myndu gera það sama, en hver veit.
Að þessu sinni var umfjöllunarefnið sköpun í skólastarfi og komu fram mörg sjónarmið, en almennt fannst mér á fólki að þessi mál væru í þokkalegu fari. Allavega voru þátttakendur jákvæðir og sammála um mikilvægi list- og verkgreina í skólum. Helst var að heyra (eða lesa) að það vantaði meiri samþættingu námsgreina í grunnskólanum, en það er ekki í fyrsta sinn sem ég heyri það. Flestir voru sammála um mikilvægi þekkingar og færni þeirra kennara sem hafa menntað sig á sviði list- og verkgreina og þess að aðrir kennarar þurfi að njóta þekkingar þeirra. Ég er á því að það eigi að vera til "sköpunartorg" alveg eins og UT torg, tungumálatorg og fl.
Það er spurning hvort Menntamiðja komi ekki til með að þróast áfram og taki þetta verkefni að sér.
Hér má sjá samantekt viðræðananna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli