28. maí 2005

Þetta er helst í fréttum

Nú er ég bara orðin löt að blogga, námskeiðinu lokið hjá Salvöru og þess vegna kannski hef ég slakað á í þessu bloggi. Stundum á maður í vandræðum með að ákveða hvað maður ætti að skrifa, finnst ekkert sérstakt í fréttum, eða eru dagleg störf manns eitthvað fréttnæm. Kannski á maður ekkert að vera að spá í það, bara segja fá einhverju sem manni finnst áhugavert. Ég held samt að í upphafi hafi ég ætlað þetta blogg til þess að skrásetja það sem ég er að fást við í náminu hverju sinni, kannski best að halda sig við það. Þessa dagana er ég að ná áttum á nýjum námskeiðum. Á námskeiðinu hjá Stefáni Jökulssyni, Menntun, miðlun og samfélag höfum við Ásdís ákveðið að vinna saman. Við ætlum að spá í stelpur og blogg. Við höfum svolítið verið að spá í kúltúrinn sem er þarna að baki. Við höfum komist að því að sennilega verður erfiðast að takmarka sig efnislega. Svo er námskeiðið hjá Sólveigu Fjarnám og kennsla. Það er ekki slegið af kröfum á því námskeiði og best að hafa sig alla við svo vel gangi. Ég var búin að hugsa upp verkefni á því námskeiði, en svo gekk það ekki upp. Ég hef núna hugmynd um að gera heimasíðu málþings/ráðstefnu sem stefnt er að því að halda í haust í tengslum við námskeiðið. Sýnist að Ella Jóna vilji vera með í því verkefni og það er frábært. Svo er það þriðja námskeiðið Vettvangsnám. Við erum búin að vera að vinna úr niðurstöðum fyrir "Netnot" sem nemarnir söfnuðu í síðasta námskeiði NKN. Síðan förum við til Spánar 6. júní á ráðstefnuna 3rd International Conference on Multimedia and ICTs in Education. Þar verður margt áhugavert í boði og hlakka ég mikið til. Hér á heimavígstöðum er svo allt í besta gengi. Það fækkar á heimilinu eins og alltaf á sumrin. Drengirnir farnir út á land í vinnu og stutt í að heimasætan fari í tónleikaferð um Norðurlönd. Við verðum að öllum líkindum mikið tvö heima í sumar, skrítið hvað manni finnst allt breytast um leið og það fækkar. Í gær fannst mér það varla taka því að vera að elda mat það voru svo fáir til þess að borða hann. Núna verður að safna í þvottavél í stað þess að útúr fljóti í þvottahúsinu. Er það ekki skrítið þetta líf.

Engin ummæli: