16. janúar 2017

Rannsóknaraðferðir

Í síðustu viku voru staðlotur í náminu mínu. Ég er að leggja stund á tvennskonar rannsóknaraðferðir á þessu vormisseri. Fyrst sat ég staðlotu í eigindlegum rannsóknaraðferðum. Í þessari lotu var megin markmiðið að setja okkur inn í námsefni áfangans og rifja upp hvað eru eigindlegar rannsóknaraðferðir. Eigindlegar rannsóknaraðferðir eru notaðar ef markmiðið er að grafast fyrir um hvaða merkingu eða skilning fólk leggur í ákveðna hluti. Slíkar rannsóknir byggja á viðtölum við einstaklinga og/eða hópa um ákveðið málefni. Bæði einstaklingsviðtöl og rýnihópar falla undir eigindlegar rannsóknaraðferðir. Aldrei er hægt að alhæfa útfrá niðurstöðum sem fengnar eru með þessum hætti yfir á stærri hóp heldur veita eigindlegar rannsóknir dýpri innsýn í viðfangsefnið.
Við vorum sett í hópa í lok kennslunnar og þar ræddum við um hverskonar verkefni við höfum hugsað okkur að vinna að. Þar sem að ég hef ákveðið að verkefnið mitt er ekki rannsókn ætla ég að vinna að eigindlegri rannsókn í þessum áfanga sem gæti hugsanlega nýttst mér í greinagerð með verkefninu. Mig langar að skoða hvernig innleiðing á iPad hefur gengið í grunnskólum Kópavogs og til þess að rannsóknin verði ekki of yfirgripsmikil þá ætla ég að einbeita mér að einum grunnskóla.

Í lok vikunnar var ég í staðlotu í starfendarannsóknum. Ég er mjög heilluð af þeirri rannsóknaraðferð og sé að hún muni nýtast mjög vel í leikskólanum. Ég hef í gegnum árin fylgst með nemum sem hafa komið til okkar í leikskólann og notað þessa aðferð. Ég hef einnig verið þátttakandi í slíkum rannsóknum í gegnum tíðina.
Seinni daginn í staðlotunni vorum við fengin til þess að setja fram rannsóknarspurningu og ákvað ég þar sem ég er ekki starfandi á vettvangi leikskólans að rannsaka sjálfa mig. Ég er í mörgum hlutverkum dag hvern og það kom nokkuð óvænt uppá að ég varð námsmaður að nýju, þess vegna finnst mér upplagt að skoða hvernig ég get fundið jafnvægi á milli þessara ólíku hlutverka. Ég ætla að halda rannsóknardagbók og skrá hjá mér ferlið og svo ætla ég að rannsaka einnig hvaða tól og tæki ég finn til þess að gera mér lifið auðveldara. Hvað hefur reynst mér best og hvað get ég haldið áfram að nýta mér í framtíðinni.
Þetta er allt mjög spennandi og hlakka ég til að takast á við námið samhliða öllu því sem ég er að gera dags daglega.
Læt hér fylgja með flæðirit sem ég skilaði áðan í starfendarannsóknum. Við áttum að segja frá því af hverju við erum í því námskeiði.

Engin ummæli: