Ég var að skila af mér fyrsta verkefninu í starfendarannsóknum.
Hvað eru starfendarannsóknir fyrir mér?
Ég hef nú ekki áður velt þessari spurningu fyrir
mér, en útskýringar fræðimanna eru trúverðugar og því liggur beint við að nýta
sér þær. Mér þykir líklegt að starfendarannsóknir stuðli að aukinni fagmennsku
kennara og menntun nemenda. Mér þykir einnig líklegt að starfendarannsóknir
auki færni kennara í starfi og viðhaldi starfsánægju þeirra. Regluleg ígrundun í
starfi er nauðsynleg að mínu mati og forsenda þess að framfarir verði í stað
stöðnunnar.
Ég er svo heppin að hafa valið mér að
kenna í leikskólum með örlitlu fráviki í fjögur ár þegar ég kenndi í
framhaldsskóla. Báðar greinarnar sem við áttum að lesa eru nokkuð miðaðar að
því að kennarinn sé einn í skólastofunni og þurfi því að stóla á sjálfan sig.
Allan minn kennsluferil hef ég starfað
við hlið annarra kennara, frá fjórum til fimm í einu, ég hef því ekki þá
reynslu sem lýst er í greinunum og eru veruleiki grunn- og
framhaldsskólakennara.
Ég var að hugsa um það við lestur
greinanna hvað í raun við í leikskólanum erum að nýta þessar aðferðir ómeðvitað
og köllum það ekkert sérstakt. Við vinnum saman að því að mennta nemendur
okkar. Við setjumst niður hálfsmánaðarlega og ræðum hvernig gengur, hvað hefur
verið framkvæmt, hvernig og var markmiðum náð (rýnt í dagbók hvers og eins). Hver
og einn kennari segir frá því hvað hann hefur verið að fást við, hvernig og
hvaða aðferðir hann notaði og hvað virkaði að hans mati best hverju sinni. Hvernig
gengur með hópinn og einstaka nemendur. Það má alveg kalla það rýnisamtöl. Við
höfum öll skrifað reglulega niður atburðarrás, framfarir og framvindu námsins
hjá hverju og einu barni. Við tökum síðan sameiginlegar ákvarðanir um
framhaldið og felum hvert öðru verkefni til þess að vinna að. Málin eru rædd af
fagmennsku og allir miðla af reynslu sinni og fá hugmyndir hver frá öðrum. Það
sem ég hef lesið undanfarnar vikur og það sem rætt hefur verið í
þriðjudagstímunum er mjög í anda þess sem ég hef reynslu af. Ég vissi bara ekki
að það væri starfendarannsókn, ég er einhvernvegin alltaf að bíða eftir að
þessi fræði séu flóknari en virðist. Ætti sennilega bara að slaka á og fljóta
með.
Það vakti athygli mína að í flestum
dæmunum sem voru í þeim greinum sem ég las vantaði að mati kennaranna sjálfra meira
líf í kennsluhætti þeirra og lausnin var meiri „leikur“ og þátttaka nemendanna.
Er furða að mér finnist ég heppin að vera leikskólakennari þar sem leikurinn er
viðurkennd námsleið og sú kennsluaðferð sem mér finnst skemmtilegust.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli