11. október 2015

Alþjóðlegur dagur kennara

Í tilefni af Alþjóðadegi kennara mánudaginn 5. október ákvað ég að gefa þeim sem fylgja mér á samfélagsmiðlum smá innsýn í starfið mitt. Sendi þannig inn reglulega yfir daginn myndir ásamt texta þar sem ég sagði frá því hvað ég var að fást við.
Fyrstu færsluna sendi ég inn á samfélagsmiðla rétt upp úr átta um morguninn. Þá var ég byrjuð að kenna. Fyrst á morgnanna stýri ég leikhópi þar sem lögð er áhersla á málþroska/læsi. Í leikhópnum nota ég yfirleitt alltaf iPad og þá smáforritið hennar Bryndísar Guðmunds talmeinafræðings Lærum og leikum með hljóðin.
Ég er afar ánægð með þetta smáforrit og sé miklar framfarir hjá börnunum mínum, sér í lagi þeim sem ekki hafa íslensku sem móðurmál.

Eftir smá kaffipásu tók við kennsla elstu barnanna. Þau koma alltaf til mín í upplýsingatækni einu sinni í viku. Ég er að gera tilraun með að kennna þeim í hóp fjórum í einu og legg þá áherslu á eitt smáforrit í senn. Við hófum vinnu við skemmtilegt verkefni í vikunni á undan. Börnin sömdu sögu og gerðu söguborð við hana. Í þessum tíma var því komið að því að útbúa persónur og leikendur í sögunni og einnig þá bakgrunna sem þau vilja nota við sögugerðina. Börnin eru að læra á smáforritið Pubbet Pals. Þau læra að útbúa eigin sögu alveg frá grunni. Þetta var alveg einstaklega skemmtileg kennslustund enda börnin afar hugmyndarík og klár. Þau nýttu vel efniviðinn sem var í boði og höfðu ákveðnar skoðanir á því hvernig þau vildu hafa söguna.
Eftir hádegisverð er komið að hvíld og bóklestri. Ég er svo heppin að fá að lesa fyrir nokkur elstu barnanna og valdi að byrja á bókinni Tröllagleði. Við lásum ca. 1/3 af henni og fórum svo í smáforrit sem heitir Froskaleikur og er eins og Lærum og leikum með hljóðin úr smiðju Bryndísar Guðmundsdóttur. Frábært forrit sem börnin eru afar spennt yfir því við erum svo lengi að fara í gegnum það allt. Höfum núna verið í þrjár vikur að vinna í því og erum ekki ennþá búin að komast í kastalann. Það styttist samt í það og þess vegna eru börnin afar spennt orðin.
Eftir hádegi tók svo aftur við vinna með elstu börnunum. Núna voru það aðrir tveir hópar sem komu í upplýsingatæknitíma.Eins og um morguninn þá vorum við að skapa persónur og leikendur, bakgrunna og æfa okkur í forritinu Pubbet Pals. Mikið rosalega hef ég gaman af því að vera með þeim í þessari vinnu. Börnin eru svo skemmtileg og hugmyndarík. Hægt er að fylgja okkur eftir hér.
Rétt fyrir kl. 16 hentist ég svo úr leikskólanum og náði rétt svo í tæka tíð á málþing um samfélagsmiðla sem haldið var í tilefni Alþjóðadags kennara á Grand Hótel. Þar voru mjög áhugaverð erindi flutt um notkun samfélagsmiðla í kennslu. Ég hélt áfram að senda inn myndir á samfélagsmiðla frá þessum viðburði. Hægt er að sjá og hlusta á erindin hér.
Það var eftirminnilegt þegar Ingvi Hrannar lét þrjá sjálfboðaliða tæma tannkremstúpu, sjampóbrúsa og raksápu. Hætti svo við í miðjum klíðum og bað fólkið um að taka efnið til baka. Það var auðvitað ekki hægt og svipurinn á þeim var óborganlegur. Þetta gerði hann til þess að sýna verklega fram á það hversu varkár við verðum að vera á samfélagsmiðlum. Það sem við skrifum og setjum á miðlana er ekki aftur tekið.
Alþjóðadag kennara endaði ég svo á því að útbúa Fréttabréf fyrir Faghóp um skapandi leikskólastarf. Í fyrsta sinn kom Fréttabréfið eingöngu út í rafrænu formi, áður hafði það verið útbúið í word og sent á Netið í pdf formi. Fréttabréfið útbjó ég í Tackk sem ég er afar ánægð með. Hentar ljómandi vel til þess að útbúa fréttabréf.

Engin ummæli: