11. nóvember 2015

UTis2015 á Sauðárkróki

Ég var svo heppin að fá að dvelja á Sauðárkróki 5-7. nóvember s.l. með helstu UT nördum þessa lands. Það voru þau Ingvi Hrannar og Margrét í Árskóla sem áttu veg og vanda að þessari uppákomu sem nefnd var Utís á Sauðárkróki 2015.
Mikið svakalega var gaman, gaman að hitta allt fólkið sem ég hef verið í samskiptum við nánast daglega á fésbókinni, twitter og fl. samfélagsmiðlum.  Við höfum verið að hittast í menntabúðum, vefráðstefnum, Bett í London og á fleiri viðburðum í gegnum árin, en aldrei áður komið svona saman á einum stað.
Allur aðbúnaður og aðstaða var til fyrirmyndar hjá þeim Ingva Hrannari, Margréti og samkennurum í Árskóla, dekrað við okkur á allan hátt.

Samkoman hófst á móttöku og síðan skoðunarferð um Árskóla. Þar er greinilega gott starf í gangi, við spjölluðum við kennara og nemendur sem voru að fást við ýmis verkefni. Verkefni sem tengdust einelti á einhvern hátt því þennan dag var Dagur einleltis. Ég átti gott spjall við kennara á unglingastigi sem sagði mér að hún væri mjög upptekin af námsumhverfinu þessa dagana, hún væri að lesa sér til um viðfangsefnið og sagðist hafa fundið nú þegar ýmsar rannsóknir um efnið. Ég gat bent henni á M.ed ritgerð Fannýar Heimisdóttur. Þessi kennari var búin að taka inn í stofuna sína Lazyboy stóla, koma fyrir púðum á gólfinu og fl. til þess að nemendur hefðu margskonar umgjörð til þess að einbeita sér í námi sínu. Frábært að fá tækifæri til þess að kynnast kennara sem þorir að fara nýjar leiðir. Í Árskóla eru iPadar á hvern nemenda á unglingastigi og stefnt að því að taka inn iPad í kennslu í áföngum fyrir alla nemendur.
Við skoðuðum inn í alla bekki, algengast er að það sé samkennsla í árgöngum, þannig að það eru tveir kennarar með tvo bekki í kennslustofum sem hægt er að opna á milli. Við röbbuðum einnig við sérgreinakennarana og var gaman að heyra af ýmsum nýjungum sem þeir eru að vinna að.





Í hádeginu var boðið í veislu í Húsi frítímans og eftir hádegi var hópstarf, sem var skemmtilega skipulagt í fjórum skrefum. Í hverju skrefi var stokkað upp á borðum þannig að við unnum í hóp með þeim sem við höfðum ekki endilega hitt áður. Ég var svo heppin að lenda í eitt sinn eina konan í hóp með karlkynskennurum, held að það hafi ekki komið fyrir mig áður á kennarasamkomum.  Í lok hópastarfsins lágu fyrir í margar hugmyndir að þemavinnu þar sem upplýsingatækni er innvinkluð í alla vinnuna.


Þá var komið að vinnustofum í Árskóla. Þátttakendur höfðu val um að fara í fjórar vinnustofur.
-iBooks Author (Guðný Sigríður og Bergmann)
-Nearpod (Ingvi Hrannar)
-GAFE – Google Apps For Education (Hans Rúnar og Álfhildur)
FabLab (Valur Valsson, verkefnastjóri hjá NMÍ).



Ég var búin að velja Nearpod vinnustofuna og aðeins byrjuð að skoða þetta vefforrit og smáforrit.
Ingvi Hrannar leiddi okkur í gegnum allan sannleikann hvað varðar notkun á Nearpod og við vorum svo heppin að fá frían aðgang að kerfinu í eitt ár. Ég var fyrirfram með hugmynd af verkefni sem ég ætaði að vinna með og lagði því áherslu á að kynna mér nánar þá þætti sem ég var búin að sjá að gætu nýst mér.
Eftir vinnustofurnar var hlé og nýttu það margir til þess að fara í sund, rabba saman eða að skreppa í Kaupfélagið á staðnum. Það var einmitt það sem ég gerði og það var upplifun. Það fæst sko allt í kaupfélaginu. Matvörur, vefnaðarvara, byggingarvörur, tölvur og svo var hægt að fara í blóðsykursmælingu í lok verslunarferðar. Við skoðuðum okkur vel um og einhver verslaði sér jólakjól og jólabækur.
Um kvöldið var svo komið saman í Árskóla og gengið þaðan í veitingahúsið í Drangey. Þar var gestum einnig skipt upp á milli rétta svo fólk kynntist og gæti rætt við þá sem þeir þekktu ekki fyrir. Skemmtilegt fyrirkomulag sem við vorum öll sátt við.

Við vöknuðum snemma á laugardagsmorgun og fórum strax í Árskóla þar sem voru að byrja menntabúðir með frjálsum framlögum frá þátttakendum. Ég valdi að fara á tvær kynningar í fyrrihlutanum. Ég hlustaði á Guðjón Hauk segja frá því hvernig Menntaskólinn á Akureyri hefur innleitt og nýtt sér Offiice365 og svo hlustaði ég á Gunnlaug segja frá innleiðingu iPads í grunnskólum Kópavogs.
Í seinnihluta menntabúðanna valdi ég að fara í Námstæki 21. aldarinnar. Þar bauðst okkur að leika okkur með hin og þessi tól og tæki sem nýkomin voru til landsins. Ég valdi að prófa 3D penna í fyrsta sinn. Ég lenti í smá brasi með pennan, sambandsleysi háði mér við vinnuna. Mér tókst samt að útbúa körfu sem hægt var að setja í smá nammi sem gestum var boðið upp á. Þetta var mjög skemmtilegt og mér sýndist allir hafa gaman af.

Eftir hádegi var svo framhald af vinnustofu frá deginum áður, en núna var komið að hverjum og einum að halda áfram með eigin viðfangsefni. Ég vann því að mínu verkefni og fékk góða hjálp við það frá vinum á staðnum. Mitt aðalviðfangefni var að byrja á verkefni þar sem ég geri sögu sem við í leikskólanum Álfaheiði höfum notað í umfjöllun okkar um lífsgildið „Virðingu“. Þetta er sagan af henni Hönnu hlébarða sem er ólík öðrum hlébörðum. Verkefnið fólst aðalleg í því að setja inn söguna og útbúa síðan gagnvirk verkefni sem tengjast sögunni. Ég ætla síðan að halda áfram með þetta viðfangsefni og ég sé líka að ég get útbúið margskonar gagnvirkt efni sem hægt er að nota í leikskólanum, verkefni í stærðfærði o.fl..




Það var svo komið að heimferð um kl. 16 þennan laugardag. Við vorum öll á því að þetta hafi verið velheppnaðir dagar og tilbúin að hittast aftur að ári. Ingva Hrannari og Margréti var vel þakkað fyrir frábært skipulag og góða viðkynningu á Króknum.
Takk kærlega fyrir mig. Þetta var frábært og ég stefni að því að koma að ári.

Engin ummæli: