Ég ætti sennilega að skrifa í fyrirsögnina öpp/smáforrit sem ég er nýlega farin að nota. Það bara verður svo löng fyrirsögn. Hvað um það ég ætla semsagt að segja ykkur frá smáforritum sem mér hefur nýlega verið bent á og ég byrjaði strax að nota í starfi og einkalífi.
BULLER
BULLER er smáforrit sem allir kennarar eiga að hafa í símanum sínum. Smáforrit sem mælir hávaða í umhverfinu. Ég get sýnt börnunum í símanum mínum hversu mikill hávaði er í stofunni og þau lækka sig með það sama. Forritið er mjög sjónrænt og litaglatt. Á meðan að græniliturinn ríkir erum við í góðum málum, en þurfum að hafa gát á þegar gula ljósið kemur og lækka okkur heldur betur þegar ljósið er orðið rautt. Það var vinnueftirlitið í Noregi sem lét útbúa þetta smáforrit.
GOOGLE TRANSLATE
Google Translate smáforritið er alger snilld. Það er auðvitað ekki ný uppgvötun að nýta sér Google Translate til þess að þýða yfir á önnur tungumál. Nýjungin felst aðallega í því að nýta appið/smáforritið í daglegu spjalli við foreldra af erlendum uppruna í leikskólanum. Þá er ég aðalega að tala um þann möguleika að geta þýtt íslensku eða ensku yfir á annað tungumál og nota míkrafón möguleikann. Þannig getum við með auðveldum hætti spjallað saman og það er merkilegt nokk hvað við skiljum hvert annað með þessum hætti. Stutt skilaboð eins og um foreldrafund, barnið fór í gönguferð, vantar pollagalla, bleiur og slíkt verða leikur einn með þessu smáforriti. Hvet alla kennara til þess að nýta sér þessa snilld og gera þannig foreldra upplýstari um hagi barnanna frá degi til dags. Hér er áhugaverður sjónvarpsþáttur um tilurð þessa frábæra smáforrits. Hér er svo upptaka sem sýnir hvernig við getum notað samtalsþátt smáforritsins. Ég er búin að vera að prófa þetta með pólskum foreldrum og þetta svínvirkar.
PERISCOPE
Periscope smáforritið er nýkomið á markað og er ætlað til beinnar útsendingar á efni. Eigendur þess og framleiðendur eru þeir sömu og eiga Twitter, en þú þarft samt ekkert að tengja það saman frekar en þú vilt. Ég er ekki mikið búin að vera að prófa það, en svona smávegins samt og þá aðallega til þess að fylgjast með öðrum að tjá sig um hitt og þetta. Smáforritið er ætlað til þess að streyma á Netið viðburðum í rauntíma. Það verður að teljast líklegt að þetta smáforritið verði nýjasta æðið (Trendið) í unglingaheimnum. Sennilega kemur það líka til með að marka straumhvörf í fjölmiðlaumfjöllun. Með því er hægt að sjónvarpa um alla veröld því sem er að gerast t.d. á hamfarasvæðum, í stríði o.s.frv. Hér er sýnt hvernig hægt er að nota forritið.Hér eru líka leiðbeiningar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli