23. september 2015

Skapandi leikskólastarf í Garðaseli á Akranesi

Ég var svo heppin að hafa tækifæri á að skreppa upp á Skaga með Faghópi um skapandi leikskólastarf í gær. Faghópurinn heldur reglulega yfir veturinn viðburði til þess að vekja athygli á skapandi starfi í leikskólum. Núna var röðin komin að Skagamönnum að bjóða heim.
Þær tóku vel á móti okkur Ingunn leikskólastjóri, Guðlaug og Hafrún sem eru kennarar elstu barnanna í leikskólanum. Garðasel starfar eftir heilsustefnunni og leggja mikla áherslu á hreyfingu, góða næringu og listir.
Umhverfið sem þær nýta vel er dásamlegt, hægt er að fara í langar og stuttar ferðir út í náttúruna, niður á Langasand og upp í skógrækt. Ekki laust við að ég öfundi þær svolítið og það læðist að mér og ekki í fyrsta sinn sú spurning; hvað ef ég hefði farið aftur heim..... ég er nefnilega Skagamaður að uppruna.
Hér má sjá skjákynninguna þeirra og ljósmyndir frá viðburðinum.


20. september 2015

Menntaspjall um karla í kennslu

Í morgun tók ég þátt í fjörugu menntaspjalli á Twitter. Það voru óvenju margir karlkennarar mættir til leiks og vonandi eru þeir komnir til að vera. Gátan var að sjálfsögðu ekki leyst í svona stuttu spjalli, en það komu fram margir áhugaverðir vinklar í umræðunni. Föstudaginn 9. október stendur FL og FSL fyrir morgunverðarfundi ásamt samstarfsaðilum um þetta efni Karlar í yngri barna kennslu - hvað ætlar þú að gera? Við vonum að það verði fjölmennt, en fundurinn er í og með haldinn til þess að vekja athygli á ráðstefnu sem við verðum einnig með föstudaginn 12. febrúar 2016.
Hér má sjá samantekt umræðunnar í morgun.

17. september 2015

Upplýsingatækni í leikskólanum

Jæja, nú hef ég fylgt eftir kennsluáætluninni sem ég útbjó fyrir elstu börnin í leikskólanum. Eins og ég hef áður komið inn á hér í blogginu mínu þá ákvað ég að gera tilraun í vetur með að kenna þeim sérstaklega að nota ákveðin smáforrit einu sinni í viku. Þetta eru allt smáforrit sem krefjast skapandi hugsunar og samvinnu barnanna.
Ég hef vikulega sett in fréttir fá vinnunni og geta lesendur fylgst með hér á heimasíðu Lundar. Ég ákvað að hafa myndaalbúmið sem tengist kennslunni opið þannig að allir geti fylgst með og kannski lært eitthvað af því sem við erum að gera.
Það hefur komið mér á óvart hversu vel hefur gengið. Börnin eru alveg ótrúlega áhugasöm og námsfús. Þau hafa af þessu líka mikla ánægju og það hefur verið frábært að sjá hversu mikið þeim fer fram.
Mig langar að nefna eitt dæmi, en þannig er að það er eitt barn í hópnum (þau eru þrjú í hópnum) sem hefur annað móðurmál en íslensku. Barnið hefur verið frekar þögult í leikskólanum og er í verunni einnig mjög hlédrægt. Strax í fyrstu tímunum fór ég að taka eftir því að það tók virkan þátt í því að tala inn á í forritinu Chatter Pix. Síðustu tvær vikur höfum við svo verið að vinna í smáforritinu Pubbet Pals og barnið er bókstaflega að blómstra. Það talar og talar fyrir brúðurnar og segir mjög skemmtilega frá. Það skemmtilega við þetta er ekki hvað síst hvað barnið kemur vinum sínum mikið á óvart. Þau hafa orð á því hvað barnið sé skemmtilegt. Börnin eru greinilega að sjá alveg nýja hlið á barninu.
Hér er smá sýnishorn af því sem er að gerast í upplýsingatæknikennslustund hjá okkur.


IMG_3131

13. september 2015

20 færniþættir sem kennarar þurfa að hafa á 21. öldinni

Vefurinn Educatorstechnology.com hefur birt lista yfir 20 helstu færniþætti sem kennarar þurfa að búa yfir á 21. öldinni. Það er áhugavert að lesa yfir þennan lista og máta sig við hann. Það besta við listann er að ef kennarar eru vanmáttugir á einhverju þeirra sviða sem nefnd eru þá er bent á hvar er hægt að æfa sig og sækja sér þekkingu til þess að vera betri kennari.


20 mikilvæg tól til þess að nota í námi og kennslu

Vefurinn Graphite.com var að birta lista yfir þau 20 tól sem kennarar í henni Ameríku vilja meina að séu mikilvæg í námi og kennslu núna um þessar mundir. Það er athyglisvert að sjá svona lista og ósjálfrátt fer maður að máta við sig, já þetta þekki ég og þetta ekki. Allavega eru svona listar til þess að ég fer að prófa þessi tól sem svona listar benda á. Stundum gerir maður merkilegar uppgötvanir og finnur öpp sem maður getur notað strax með ungum börnum í leikskólanum. Annað er ónothæft með börnunum, en getur verið áhugavert fyrir kennarana sjálfa að nota.
Mæli með að lesendur gefi svona listum tækifæri og skoði þau tól sem bent er á.


7. september 2015

Nýtt fréttabréf Samspil 2015

Það var að koma út nýtt Fréttabréf Samspil 2015. Margt framundan og allt afar spennandi.

Photo published for Samspil 2015

Menntaspjall um sköpun í skólastarfi

Ég tók þátt í Menntaspjalli á Twitter í gær. Magnað hvað það eru margir kennarar til í að eyða frítíma sínum á sunnudegi í spjall um skólastarf. Sé það nú ekki alveg fyrir mér að margar aðrar stéttir myndu gera það sama, en hver veit.
Að þessu sinni var umfjöllunarefnið sköpun í skólastarfi og komu fram mörg sjónarmið, en almennt fannst mér á fólki að þessi mál væru í þokkalegu fari. Allavega voru þátttakendur jákvæðir og sammála um mikilvægi list- og verkgreina í skólum. Helst var að heyra (eða lesa) að það vantaði meiri samþættingu námsgreina í grunnskólanum, en það er ekki í fyrsta sinn sem ég heyri það. Flestir voru sammála um mikilvægi þekkingar og færni þeirra kennara sem hafa menntað sig á sviði list- og verkgreina og þess að aðrir kennarar þurfi að njóta þekkingar þeirra. Ég er á því að það eigi að vera til "sköpunartorg" alveg eins og UT torg, tungumálatorg og fl.
Það er spurning hvort Menntamiðja komi ekki til með að þróast áfram og taki þetta verkefni að sér.
Hér má sjá samantekt viðræðananna.