30. mars 2015

Páskakveðja með PowToon

Í morgun ákvað ég að prófa hvort börnin í leikskólanum hefðu gaman af því að vinna í forritinu PowToon. Ég gaf þeim upp þemað, það væru að koma páskar hvort þau vildu ekki senda lesendum heimasíðu leikskólans páskakveðju.
Þau voru til í það og byrjuðu strax að skipuleggja sig. Það kom mér á óvart að þau vildu hvort um sig fá að gera sína síðu. Svo þegar eitt þeirra fann eitthvað sniðugt þá vildu hin fá að bæta svipuðu inn á sína. Þau höfðu greinilega mjög gaman af þessari vinnu og árangurinn var líka eftir því. Hér má sjá kveðjuna á heimasíðu leikskólans og hér er mynd af okkur að vinna.




28. mars 2015

Smá örvænting

Ég sé á samfélagsmiðlum, bæði á fésbókinni og twitter að samnemendur mínir í Samspil 2015 pósta inn hugmyndum um vefi og smáforrit í miklum mæli. Ég fyllist örvæntingu að ég komist ekki yfir að skoða þetta allt saman, hef ekki ennþá komist yfir að prufa allt sem farið var yfir á staðnámskeiðinu um daginn.
Starfs míns vegna koma tímabil þar sem ég er afar upptekin og langir vinnudagar, þess vegna verð ég eiginlega að draga bara djúpt andann og hugsa jákvætt. Ég reyni að gera eins vel og mikið og ég get með góðu móti komist yfir.
Það er nú sem betur fer heppilegt að sumt af því sem verið er að kynna núna hef ég prófað áður, en annað ætla ég að reyna eftir bestu getu að finna tíma til að nýta. Ég er ætíð hrifin af þeim áskorunum sem ég fæ í kennslu, það að finna út úr hvernig hægt er að nota smáforrit og kennsluvefi með ungum börnum finnst mér alveg svakalega spennandi og skemmtilegt. Ég á mér reyndar langa sögu í þessu fikti. Ég var svo heppin að komast í eTwinning verkefni fyrir nokkrum árum og kynntist þar leikskólakennurum sem eru jafn mikið að fikta í uppýsingatækni og ég. Í þessu verkefni t.d. 1.2. Buckle My Shoes sem var stærðfræðiverkefni gerðum við tilraunir með hina og þessa vefi. Þetta var fyrir tíma iPads og gaman að prófa hvað við komumst upp með að nýta mörg vefforrit með svo ungum börnum.

Pinterest




Ég nota Pintarest af því mér finnst það afar þægileg leið til þess að halda utan um góðar hugmyndir sem ég finn á ferð minni um Netheima. Bæði hugmyndir sem ég get nýtt mér í starfi og í einkalífi.  Ég kynntist Pintarest fyrst þegar ég var á námskeiði í  upplýsingatækni í Tralee á Írlandi sumarið 2013, en það var samt ekki fyrr en síðasta sumar sem ég fór fyrir alvöru að nota vefsvæðið mitt. 
Ég var og er með annað vefsvæði til þess að fylgjast með ýmsum vefsíðum, en Pintarest er að mínu mati þægilegast til þess að geyma góðar hugmyndir.
Það sem er svo þægilegt við þetta svæði er að allir geta „pinnað“ frá öllum. Þannig getur maður elt uppi fólk sem hvefur svipaðan áhuga og séð hvað þeir eru að pinna. Ég fæ upplýsingar um það hvað fólk sem t.d. hefur áhuga á handavinnu eða  iPad í kennslu finnur og get þá skoðað jafnóðum hvort það er eitthvað sem gæti gagnast mér og þá pinnað á mína síðu.
Það eru sem betur fer alltaf fleiri og fleiri vefsvæði sem eru að uppgötva markaðsgildi Pintarest og bjóða upp á beina tengingu líkt og gert er við fésbókina og twitter.
Ég mæli með því að kennarar gefi Pinterest gaum og skoði hvort vefsvæðið henti þeim.

Hér er mitt Pinterest svæði:  https://www.pinterest.com/fjolath/

Málþing Hafnarfjarðar um læsi

Föstudaginn 25. febrúar s.l. tók ég þátt í einhverju því stærsta málþingi sem haldið hefur verið hér á landi. Málingið var haldið á Hilton Hótel og voru þátttakendur um 900 manns, allt starfsmenn leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar. Málþingið bar yfirskriftina "Lestur er lífsins leikur - málþing um lestrarundirbúning og lestrarnám fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar."
Mitt hlutverk í málstofu var að flytja erindi um heppileg smáforrit til þess að efla læsi í leik- og grunnskólum. Þar sem mér fannst ég ekki geta fjallað um efnið án þess að benda á mikilvægi þess að líta beri á spjaldtölvur sem verkfæri til þess að nálgast ákveðin markmið í kennslu byrjaði ég erindið á því að fjalla um það og benda á hvað er vel gert í kennslu að mínu mati. Í kjölfar erindi míns á málþinginu fékk ég endalausar fyrirspurnir um sama efni svo ég ákvað að setja inn grein á Appland þar sem ég fjalla sérstaklega um smáforrit sem eru heppileg til þess að efla málþroska barna.


Útikennsla í leikskólum með iPad og/eða iPhone

Í janúar skrifaði ég grein sem birt var á Appland. Þar var ég að benda á nokkur skemmtileg og hentug öpp til útikennslu, en ég fæ alltaf reglulega nokkrar fyrirspurnir um það. Þó svo að ég miðaði upplýsingarnar við leikskóla þá ættu þær að henta einnig grunnskólakennurum.


Samspil 2015

Hér set ég inn kynningarmyndband um Samspil 2015. Ég hef nefnilega verið þó nokkuð spurð um hvað það snýst.

22. mars 2015

PowToon

Eitt af þeim veftólum sem við ræddum um á námskeiðinu s.l. mánudag var PowToon. Ég hef aðeins leikið mér með þetta skjákynningarkerfi, en hef hugsað mér að gera meira af því í framtíðinni. Ég sé það alveg fyrir mér að elstu börnin í leikskólanum geti haft gaman af því að búa til sögur með þessu kerfi. Sjálf ákvað ég að nýta mér kerfið á föstudaginn. Þannig er að ég þurfti að flytja stutt erindi um starfsáætlun FL og í stað þess að fara með þurrar staðreyndir og sýna venjubundnar skjámyndir í Power Point þá ákvað ég að útbúa smá myndband með PowToon.
Hana má sjá hér og gerði bara sýningin mikla lukku.
https://www.powtoon.com/show/cPrvEYhprSE/nsta-starfsar-2015-2016/

Útspil Samspils 2015

Á mánudaginn 16. mars s.l. var námskeið á vegum Samspil 2015 haldið á Menntavísindasviði HÍ. Þetta var staðbundið námskeið til þess að koma nemendum inn í hlutina. Áður var búið að halda eitt vefnámskeið þar sem fyrirkomulag átaksins var útskýrt fyrir þátttakendum.
Það var virkilega áhugavert að hitta samnemendur sína, allt mjög áhugasamir kennarar. Því miður þá voru ekki nógu margir leikskólakennarar að mínu mati. Ég hef því ákveðið að halda áfram að reyna að hvetja þá til þess að vera með í UT átakinu. Mér skilst að það séu um 250 kennarar skráðir og allt of fáir leikskólakennarar.
Á þessu námskeiði vorum við að læra á eitt og annað áhugavert og skiptast á hugmyndum á notkun ýmissa verkfæra í kennslu.

TitanPad er eitt verkfæri sem hægt er að nota t.d. til þess að halda utan um viðburði. Á námskeiðinu var það notað til þess að halda utan um námskeiðsdaginn. Þarna skrifuðu þátttakendur inn á sniðurgar vefslóðir verkfæra sem mætti nota í skólastarfi og fl.

Padlet er verkfæri sem ég kannast nú við og hef notað áður t.d. á ráðstefnu 3f og í menntabúðum. Á námskeiðsdaginn var þetta vefsvæði notað til þess að halda utan um hópinn. Hér má sjá alla þátttakendur og svo eiga allir að setja þarna inn vísun á bloggsvæðin sín.

Á vefnum ClassTools er að finna ýmislegt skemmtilegt sem gaman verður að prófa í skólastarfi. Við prófuðum að nota spurningarleik eins og notaður er í Útsvari og svo var notast við Stopwatch niðurtalningu í kaffipásunni. Bara gaman að kynnast svona skemmtilegum tólum.

Socrative er vefsvæði þar sem hægt er að búa til spurningarleiki. Ég á eftir að skoða það betur, en ég þekki Kahoot! og hef notað það í leikskólanum með foreldrum, kennurum og börnum. Frábær leikur sem notaður er með snjallverkfærum eins og iPad og snjall símum.

Group Maker tools var kynnt fyrir okkur, en með því er hægt að skipta nemendum í hópa.  Getur verið sniðugt að prufa þetta í hópastarfi í leikskólanum.

Svo voru kynnt fyrir okkur nokkrar leiðir til þess að gera dagbækur til þess að halda utan um það sem við erum að fást við á námskeiðinu.  Hér eru nokkur:
Sway - https://sway.com/

Weebly - http://www.weebly.com/

Wix - http://www.wix.com/

Wordpress - https://wordpress.com/

Google vefsíða - https://www.google.com/webdesigner/




Samspil 2015

Ég ætla að taka þátt í UT átaki sem kallast Samspil 2015 og hef ákveðið að nota þetta gamla blogg mitt til þess að halda utan um þau verkefni sem ég vinn að.
Þetta blogg er orðið gamalt og ég ákvað að hreinsa til og henda út öllum gömlum persónulegum færslum en halda nokkrum sem tengjast upplýsingatækni. Ég byrjaði nefnilega með þetta blogg þegar ég var á námskeiði hjá Salvöru hér í denn þegar ég var í framhaldsnámi í upplýsingatækni í HÍ.
Á námskeiðinu Samspil 2015 erum við hvött til þess að prófa hin og þessi vefumsjónarkerfi og ætla ég að gera það. Ég hef reyndar enn sem komið er nýtt mér öll þau kerfi sem nefnd hafa verið. Ég hef nefnilega oft tekið að mér að útbúa vefi til þess að halda utan um ráðstefnur og þá hef ég nýtt mér það að prófa ný og ókeypis vefumsjónarkerfi. Síðast gerði ég þessa vefsíðu fyrir Faghóp um skapandi leikskólastarf: http://utumgrundir.weebly.com