27. apríl 2015

Tagxedo-Creator

Fékk ábendingu um Tagxedo - Creator um daginn og langaði til þess að prófa það. Prufaði fyrst að búa til hundamynd úr texta bloggsins og útkoman var þessi. Skemmtilegt hvað orðið DEILA kemur skýrt fram, en það er einmitt megin markmið bloggsins, að deila með ykkur lesendum því sem ég er að læra.


Svo langaði mig að prófa að leika með krökkunum í leikskólanum og útkoman var þessi.
Hvað finnst þér skemmtilegast að leika þér að í leikskólanum? Tek það fram að það voru stúlkur sem kláruðu verkefnið með mér svo kannski er útlit myndarinnar þess vegna bleikt hjarta.


Menntaspjall á Twitter

Það var mikið fjör á Twitter #menntaspjall (inu) í gær. Man bara ekki eftir svo fjölmennu spjalli áður. Frábært hvað kennarar eru duglegir að leggja það á sig á sunnudagsmorgni að taka þátt í spjalli með kollegum sínum.
Í þetta sinn var ekkert ákveðið þema í gangi, heldur var leitað eftir spurningum hjá öllum fyrir laugardagssíðdegið og svo völdu þeir Tryggvi og Ingvi Hrannar umsjónarmenn menntaspjallsins úr spurningunum. Yfirskriftin að þessu sinni var því „Úr öllum áttum“. Hér má sjá samantekt Ingva Hrannars á því sem fram fór.

Máttur samfélagsmiðla

Þema aprílmánaðar í Samspil 2015 er Samfélagsmiðlar. Ég hlustaði um daginn á fyrirlestur Svövu Pétursdóttur um samfélagsmiðla og hvernig hægt er að nýta þá í kennslu. Mjög áhugavert erindi hjá henni og svo skemmdi ekki fyrir að við þátttakendur í útsendingunni fengum að vera nokkuð með. Mér finnst alltaf gaman þegar tæknin er nýtt á skemmtilegan hátt.

Í morgun var frétt á Vísi um það hvernig íslenskir foreldrar fundu son sinn í Nepal í gær. Þau höfðu áhyggjur af honum eðlilega vegna þess að mikill jarðskjálfti reið yfir stutt frá því sem þau töldu hann vera á ferð. Það er frábært hvert tæknin hefur leitt okkur og sjá hve máttur samfélagsmiðlanna er orðinn mikill í daglegu lífi fólks.

24. apríl 2015

Sprengjugengið í heimsókn

Við fengum Sprengjugengið í heimsókn í leikskólann í morgun. Þvílíkt fjör.

21. apríl 2015

Tvö Menntavörp á einum degi

Í gær hlustaði ég á tvö Menntavörp sem mig langar til þess að fjalla um.
Hið fyrra var spjall um fullyrðingu Sugata Mitra: Börn geta kennt sér sjálf. Þar sem ég hef fylgst með Sugata í mörg ár, eða áður en við í stjórn 3f fengum hann til þess að koma í heimsókn hingað til Íslands, vildi ég ekki missa af þessum viðburði.
Þátttakendur í spjallinu voru auk Sugata Mitra @Sugatam Founder, School in the Cloud
Amy Harrington @amygharrington Self-directed learning advocate
Mike Godsey @TheMrGodsey
High school teacher  og
Sunita Sehmi @WalkTheTalkGVA
Skype Granny
Spjallið var mjög áhugavert og greinilegt að starf Sugata Mitra hefur vakið áhuga viðmælendanna, en t.d. Mike Godsey telur aðferðir hans ógn við það skólastarf sem hann telur best.  Sugata var beðinn um að skýra frá því hvernig hann telji að framtíðarskólinn verði. Sugata sagði að hann vildi lýsa þessu eins og ferðalagi í strætisvagni. Þú getur ákveðið að stýra vagninum sjálfur, en þú getur líka ákveðið að leyfa nemendum að læra að aka sjálfum. Þau voru svo sannarlega ekki sammála og æstu sig stundum upp. Það er greinilegt að Sugata er að hræra vel upp í fólki og mér finnst það mjög áhugavert. Hægt er að hlusta á umræðurnar hér.  Ég hvet lesendur einnig til þess að skoða vel Twitter tístin, en samantekt á þeim eru fyrir neðan varpið. 

Seinna Menntavarpið sem ég hlustaði á var íslenskt, en þar voru að spjalla saman Ragnar Þór, Ingvi Hrannar og Björn Gunnlaugsson verkefnastjóri spjaldtölvuvæðingar í Kópavogi. Þeir voru að spjalla um væntanlega iPadvæðingu í grunnskólum Kópavogs. Þeir félagar voru mun meira sammála í þessu spjalli en í því fyrra. Björn er ósmeikur að takast á við þetta stóra verkefni. Þeir félagar Ragnar og Ingvi Hrannar spurðu hann hvort það væri ekki gefið að verkefnið myndi mistakast, því mun stærri verkefni með mikla peninga á bak við sig hefðu fallið um sjálft sig. Þar áttu þeir við iPadinnleiðinguna á LA svæðinu í USA. 
Ég reyndi að senda inn fyrirspurn í spjallið, en það var svo sem ekki mikið um svör. Hægt er að hlusta á Menntavarpið hér. 

14. apríl 2015

Lærum saman

Í gær bauð ég heim til mín leikskólakennurum sem eru með mér í Samspil 2015 til þess að „læra saman“.
Við áttum saman gott síðdegi þar skiptumst á ýmsum upplýsingum, skoðunum og aðstoðuðum hvor aðra. Við skoðuðum m.a. hvaða form væri heppilegt sem ferilmappa í Samspil 2015.
Við skoðuðum vel Twitter og ræddum um notagildi samfélagmiðla í leikskólum. Bjarndís sem var með okkur og benti okkur á mjög sniðugt verkfæri til þess að auðvelda yfirsýn í Tvitter. Það er vefurinn Tweet Deck. 








12. apríl 2015

Menntaspjall - Samstarf skólastiga

Í dag var #menntaspjall á Twitter sem ég tók að mér að stjórna. Ingvi Hrannar tók saman umræðurnar svo hægt er að skoða þær hér.


Spennandi ráðstefna og fl.

Ég var að vafra um á Netinu og rakst á mjög spennandi ráðstefnu "iPad Summit Boston 2015" sem verður í Boston í 17 og 18. nóvember 2015. Það er svo einnig boðið upp á vinnustofur daginn áður 16. nóvember. Auðvitað poppar strax upp í hugann "Ég fer" en þegar niður á jörðina er komið er það auðvitað borin von að ég hafi efni á því. Svona ferð á ráðstefnu myndi kosta mig mánaðarlaun. Það kostar rúm 100.000 kr. bara ráðstefnugjaldið, meira ef maður tæki þátt í vinnustofunni á undan og svo er það flug, gisting og uppihald eftir og ég er búin að nýta alla styrkjamöguleika hjá vísindasjóði FL/FSL.

Þar fór það, en hvað annað get ég gert, jú það eru nú þegar gefin upp nöfn þeirra sem munu verða aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar og ég get fylgst með þeim. Ég sé að nokkur þeirra þekki ég nú þegar, kennarar sem eru duglegir við að blogga og segja frá hvernig þeir nýta upplýsingatækni í kennslu. Nú þegar er allt þetta fólk og fleiri áhugasamir farnir að tísta  á Twitter með hastakinu #ettipad og skiptast þar á fróðleik sem afar áhugavert er að fylgjast með. Svo er bara að fylgjast reglulega með heimasíðu ráðstefnunnar og pikka upp nöfn þeirra sem bjóða sig fram til að vera með í málstofum. Það verður spennandi að sjá hvort þar verða ekki einhverjir kennarar sem hafa verið að prófa sig áfram með iPad í kennslu og hafa orðið góða reynslu og færni sem nýtist okkur hinum.

Hér fyrir neðan eru krækjur á blogg þeirra sem verða aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar og hvet ég alla til þess að fylgjast með þeim.

Gay Kawasaki útskrifaðist frá Stanford 1976 sem sálfræðingur, hann segist sjálfur hafa verið latur í skóla og enginn sérstakur námsmaður. Hér er hægt að lesa meira um náms og starfsferil hans.
Gay heldur úti bloggi á heimasíðu sinni sem er áhugavert að fylgjast með. Ég hef allavega einu sinni hlustað á hann á TED, sjá hér. 

Kathy Schrock er kennari sem ég hef fylgst með lengi. Hún hefur starfað sem kennsluráðgjafi frá því 1990 og einbeitt sér að upplýsingatækni í skólum, bókasöfnum og öðrum opinberum stöðum í sínu nágrenni. Hún heldur úti nokkrum vefsíðum þar sem hún er að fjalla um upplýsingatækni m.a. í kennslu. Hún er mjög afkastamikill bloggari og bendir á margt áhugavert sem við getum nýtt okkur í kennslu.

Kristen Wideen er iPad fan og hefur kennt í leikskóla og upp í sjötta bekk. Hún setur stöðugt inn á bloggið sitt áhugavert efni sem nýtist nemendum, kennurum og foreldrum vel. Hún er hætt að kenna því það er svo mikið að gera hjá henni við að ferðast um Bandaríkin og halda erindi á ráðstefnum. Þar talar hún eingöngu um það hvernig hægt er að nýta iPad í skólastofunni. Kristen hefur á heimasíðu sinni gert lista yfir áhugaverð blogg, þar sem fjallað er um upplýsingatækni í kennslu. Endilega skoðið listann.

Justin Reich er áhugasamur um kennslufræði og menntaður fræðimaður frá Harvard háskóla og heldur úti að eigin sögn rafrænni ferilmöppu þar sem hann segir frá því sem hann upplifir og lærir í upplýsingatækni. Hann er einn af stofnendum Ed Teach Teacher sem heldur ráðstefnuna.

Kyle Pearce er stærðfræðikennari af líf og sál. Hann bloggar um stæðrfærði og vísindi og hvernig hægt er að nýta iPad í kennslu. Margt mjög áhugavert sem hann er að bendir á. Tab into TeenMinds heitir bloggið hans.

Reshan Richards er framkvæmdastjóri Educational Technology ans Mobile learning sem ég hef fylgst mikið með lengi. Reshan hefur í seinni tíð snúið sér að smáforritagerð og er t.d. einn af höfundum Explain Everything appinu. Hann samdi líka bókina Leading Online sem hægt er að kaupa á Appstore.

Greg Kulowic veit ég bara lítið um, en hann er einn af þeim sem eru með Ed Teach Teacher og bloggið hans heitir The History 2.0 Classroom. 

Patrick Larkin er kennari sem starfar sem kennsluráðgjafi í Burlington skóla. Hann hefur verið að innleiða iPad í skólastarfið. Margt hægt að græða af reynslu hans.

Jonathan R Werner er bókasafns og upplýsingafræðingur sem er afar áhugasamur um upplýsingatækni í kennslu. Hann starar sem bókasafnsfræðingur og tækniráðgjafi í Cape Elizabet bókasafninu í Maine í USA. Hann er mjög virkur á Twitter með hastakið #1to1teacht, en hann var í mastersnámi og hélt þá úti bloggi sem er að finna hér. 

Thomas Daccord er víðförull kennsluráðgjafi, hefur verið til ráðgjafar við námskrárgerð í mörgum heimsálfum. Hér er hægt að hlusta á eitt af erindum hans.

Sabba Quitwai er háskólkennari í Suður Californíu. Hún hefur reynslu af því að innleiða iPad í kennslu á unglingastigi. Heimasíðan sem hún kemur að var valin ein sú besta í fyrra. Það er síðan iPad Educators: iPad in Education

Graig Badura er upplýsingatækni kennari og hefur verið að innleiða UT í kennslu Auroraskóla í Nebraska í USA. Bloggið hans var valið eitt af 10 bestu bloggum um kennslustarf í fyrra.

Beth Holland er kennari sem útskrifaðist með meistaragráðu frá Harvard. Hún er ein af Ed Teach Teacher teyminu og bloggar um UT í skólatarfi. 

Lawrence Reiff er sögukennari í Roslyn High School in Roslyn, NY. Hann er þekktastur fyrir Shakespeare’s Romeo & Juliet 

9. apríl 2015

ChatterPix Kids

Það var fjör á Lundi í Álfaheiði í morgun. Við vorum að prófa nýtt smáforrit í iPadinum sem heitir ChatterPix Kids. Börnunum fannst þetta algerlega frábært smáforrit og það var mikið hlegið. Þau geta tekið ljósmyndir eða teiknað myndir og tekið ljósmyndir af þeim. Síðan er hægt að teikna munn á það sem er á teikningunni og tala inn á. Þegar því er lokið þá er hægt að skreyta myndina að vild með ýmsum smámyndum, breyta litasamsetningum, gera ramma og fl. Myndin vistast svo í myndagallerí, en það er líka hægt að senda (export) hana sem myndband inn í myndaalbúm iPadsins.





Hér má svo sá afraksturinn:








7. apríl 2015

Fréttabréf Samspil 2015

Það var að koma út fyrsta Fréttabréf Samspil 2015. Ég er alltaf að vona að fleiri leikskólakennarar vilji vera með. Það kemur fram í fréttabréfinu að það eru 250 kennarar skráðir og er það ljómandi gott.

Það eru þemu í hverjum mánuði og í apríl verður þemað samfélagsmiðlar og í maí verður það sköpun. Ég hlakka til að takast á við viðfangsefnin sem boðið verður uppá. Búin að skrá hjá mér tímasetningar svo það fari ekki fyrir mér eins og síðast þá missti ég af vefnámskeiðinu þar sem Hans Rúnar fjallaði um skýjalausnir. Það er hægt að hlusta á upptökur frá hans erindi fyrri hluti er hér og seinni hluti hér.


Meira af PowToon

Þetta forrit PowToon er alveg að slá í gegn hjá börnunum hér í Álfaheiði. Hér má sjá þessa fínu draugasögu sem börnin gerðu alveg sjálf. Þau þurftu smá aðstoð við að vista verkefnið, en það var líka það eina. Þau skemmtu sér vel og greinilegt að þetta höfðar til þeirra.


4. apríl 2015

Vefnámskeið með Richard Byrne

Mjög seint á s.l. fimmtudagskvöld (skírdag) tók ég þátt í vefnámskeiði (Best Backchannel and Informal Assessment Tools) hjá Richard Byrne. Richard þessi heldur reglulega svona stutt námskeið þar sem hann fjallar um margskonar veftól sem hægt er að nýta í námi og kennslu. Námskeiðið var fjölmennt og þátttakendur héðan og þaðan úr veröldinni. Richard, sem er Íslandsvinur og á leið í sína þriðju ferð til landsins, er afar afkastamikill bloggari (Free Technology for teachers) og óspar á góð ráð og hugmyndir um það á hvern hátt við kennarar getum nýtt upplýsingatækni í starfi okkar við kennslu.
Námskeiðið fór fram í vefkerfi sem heitir Training Wiewer. Bráðsniðugt tól til þess að halda svona stutt námskeið. Richard tók upp námskeiðið jafnóðum svo þið getið séð og heyrt það hér. 

Á námskeiðinu fjallaði hann m.a. um eftirfarandi veftól sem eru ókeypis:

Todays Meet sem er mjög sniðugt til þess t.d. að nota í bekknum, þá geta börnin skipst á hugmyndum, lagt inn fyrirspurnir til hvers annars eða fjallað um eitthvað ákveðið efni. Nemendur geta t.d. safnað saman heimildum sem varða ákveðið verkefni sem þau eru að vinna að. Möguleikarnir eru í raun óþrjótandi.

Tozzl er svipað kerfi, en hefur þó meiri möguleika á að deila ljósmyndum og myndböndum til þess að kalla fram umræðu í bekknum. Mér sýndist þetta kerfi sniðugra og auðveldara í notkun, gæti líka hentað með mjög ungum börnum. Hægt er að vista umræðuna sem fór fram og líka að senda hana í tölvupósti.

QR Droid Zapper sem er forrit til þess að útbúa QR kvóða til þess að vísa nemendum á viðeigandi verkefni. Börn hafa svakalega gaman af slíkum kvóðum, það hef ég reynt sjálf í leikskólanum.

Padlet er sniðugt til þess að vinna með börnum og Richard sýndi nokkra einfalda möguleika á að nýta það kerfi í kennslu. Hér er líka kennslumyndband á hvern hátt hægt er að nota Padlet sem hann hefur gert og sett á YouTube.

Socrative er skemmtilegt til þess að útbúa t.d. spurningar. Hægt er að fara í spurningaleiki með nemendum og það þykir þeim ákaflega skemmtilegt. Reyndar gekk kerfið ekki alveg upp hjá okkur þetta kvöld, netsambandið var ekki nógu tryggt.

Kahoot er að mínu mati einfaldara kerfi til þess að útbúa skemmtilega spurningarleiki. Það er mun sjónrænna og því heppilegra fyrir t.d. ung börn. Börnunum í leikskólanum þykir mjög gaman að fara í svona spurningarleiki.

81Dash er kerfi til þess að nota með bekknum á svipaðan hátt og hin kerfin sem ég benti á hér á undan. Þú getur sent nemendum skilaboð og vísað þeim á ákveðið efni og sett inn krækjur og verkefni sem börnin eiga að vinna að.

Frábært að taka þátt í svona örnámskeiðum á Netinu og mæli ég með að allir prófi að taka þátt.

Takk fyrir mig Richard Byrne.








2. apríl 2015

Sway

Ég ákvað að prófa Sway vefumsjónarkerfi, en það er eitt af þeim kerfum sem okkur var bent á til þess að útbúa ferilmöppur. Ég hef ekki áður fengist við þetta kerfi, en verð að segja að það kom bara nokkuð á óvart. Ég nýtti það til þess að útbúa auglýsingu fyrir námskeið sem FL ætlar að vera með í samstarfi við Háskólann á Bifröst.
Við vorum við búin að útbúa auglýsingu í pdf formi, en svo sá ég að það væri upplagt að nota Sway til þess að útbúa auglýsinguna. Þannig kom ég líka fyrir fleiri upplýsingum og góðri krækju á skráningarformið sem ég útbjó í Google drive. Hér má svo sjá auglýsinguna.