29. maí 2015

Tjáning og miðlun í samþættum verkefnum

Ég tók þátt í vefnámskeiði á vegum Samspil 2015 í dag. Í þetta sinn var það Erla Stefánsdóttir frá Margmiðlunarveri Skóla og frístundasviðs Reykjavíkur.
Erla er að vinna að mörgum spennandi verkefnum í samstarfi við grunnskóla Reykjavíkur.
Erla kynnti aðeins margmiðlunarverið og þau verkefni sem framundan eru. Hún sagði m.a. að námskeiðin sem eru í boði hjá henni verði væntanlega birt á heimasíðu versins í framtíðinni.
Hún kynnti síðan eitt og annað áhugavert sem kennarar ættu að nýta sér í kennslu.

AirServer er íslenskt hugvit sem er ókeypis fyrir íslenska skóla. Með AirServer er hægt að tengja iPadinn við skjá og vinna þannig með hann þráðlaust í skólastofunni.

Turfhunt er smáleikjaforrit fyrir snjallsíma. Mjög skemmtilegt til þess að útbúa ratleiki úti. Forritið vísar nemendum á örnefni og fl. í nágrenninu. Mjög góðar leiðbeiningar eru á heimasíðu Locatify.

Erla sagði frá nokun Green screen í hreyfimyndagerð. Þá eru fígúrurnar settar fyrir framan grænan bakgrunn. Valið er í smáforritinu StoppMotion aðgerðinn "Green screen" og svo þá verður bakgrunnurinn svartur í forritinu. Þá er hægt að setja inn bæði þemu sem eru til í forritinu og sækja ljósmyndir sem við erum með í iPadinum. Skemmtilegur fídus sem ég vissi ekki af og kem örugglega til með að nota. Skemmtilega einfalt.

Erla fór einnig yfir ljósmyndatökur og á hvern hátt við getum nýtt ljósmyndir og ljósmyndun í skólastarfi. Hún lagði áherslu á að við kennum börnunum grunnatriðin og kennum þeimm ekki hvað síst að skoða ljósmyndir. Fór yfir gullinsnið sem ég hef einmitt nýtt mér mikið í kennslu elstu barnanna í leikskólanum í ljósmyndun. Hér má sjá ýmislegt um gullinsnið "rule of thirds".

Explain Everything smáforritið er algjör snilld og fór Erla aðeins yfir möguleikana í notkun þess. Frábært t.d. til þess að leyfa börnum að gera kynningar um eitt og annað.

Erla sagði einnig frá heimildagerð í grunnskólum. Af hverju ekki að kenna börnunum að nýta miðilinn til þess að börnin fræðist um leið og þau vinna að kvikmyndagerð. Hún nefndi nokkur áhugaverð dæmi. Mér finnst þetta mjög áhugavert og sé fyrir mér möguleika hjá okkur í leikskólnum með elstu börnunum.

Undirbúningur skiptir miklu máli í allri kvikmyndagerð. Til eru í dag forrit til þess að auðvelda undirbúningsvinnuna t.d. Celtex. Hér er að finna stutt myndbönd sem hægt er að nota við stuttmyndagerð. Hér er einnig myndband þar sem notaðir eru postit miðar til þess að útbúa senur í stuttmynd. Skoðið einnig vef sem Björgvin útbjó fyrir Náms.is, alveg frábær.

Frábært að hlusta á Erlu og ég fékk margar góðar hugmyndir sem gaman væri að vinna að.

27. maí 2015

Hreyfimyndagerð

Í morgun voru tvö börn að vinna í Stop Motion smáforritinu í iPad. Hér má sjá afraksturinn sem þau eru ákaflega stolt af. Það eina sem ég hjálpaði þeim með var að skrifa textann.



12. maí 2015

Snilldar bók

Ég bara verð að segja ykkur að þessi bók The free education technology resources eBook er algerlega að mínu skapi og er ókeypis í þokkabót. Þarna er vísað í 200 frí verkfæri til þess að nýta í kennslu og ekki nóg með það heldur er vísað á efni til þess að læra að nota þau líka. Getur kona beðið um meira?


Stafræn borgaravitund

Áhugaverður fyrirlestur hjá henni Sólveigu Jakobsdóttur. Ég held að okkur veitti ekki af að fá svona fyrirlestur reglulega, það er svo auðvelt að gleyma sér í hinu starfræna umhverfi. Hver á? og Hver má?
Vinnu minnar vegna hef ég undanfarið mikið verið að spá í siðferði kennara og þá sérstaklega á samfélagsmiðlum, velti því fyrir mér hvort við þurfum aðrar siðareglur fyrir hið stafræna umhverfi.. Það er með ólíkindum hvað fólk lætur frá sér fara og þeir sem fyrir verða eru algjörlega máttlausir gagnvart því.
Það er eiginlega ekki hægt að tala um stafræna borgaravitund öðruvísi en að ræða um siðferði um leið.

Á vefnámskeiðinu var vísað í áhugaverðan vef í Alberta fylki í USA. Greinilegt að þar á bæ eru skólayfirvöld komin mun lengra en við í að nálgast kennsluhætti 21. aldarinnar. Hvet alla til þess að skoða vefinn. Þar á bæ hafa verið gefnar út sérstakar leiðbeinandi reglur. Digital Citizenship Policy Development Guide

11. maí 2015

Glæsilegir fulltrúar leikskólabarna

Það hefur varla farið fram hjá neinum að Kópavogur varð 60 ára í dag. Í morgun var opnuð formlega sýning á listaverkum leikskólabarna. Sýningin er afrakstur þróunarverkefnis sem leikskólarnir hafa unnið að í vetur, Sjálfbærni og vísindi. Ég hvet alla til þess að líta við og skoða viðfangsefnin sem eru æði mörg og fjölbreytt. Hér má sjá myndband frá MBL af elstu börnunum syngja við opnunina. 

Tackk prófað

Jæja, þar kom að því að ég fann not fyrir Tackk, búin að hlusta á þetta form dásamað í hástert. Ekki það að ég sé því ekki sammála, var bara ekki búin að finna til hvers ég gæti notað það.
Núna áðan fann ég sem sé leiðina. Þannig er að ég er vefstjóri hjá Faghópi leikskólasérkennara og það fylgir starfinu að setja upp reglulega Fréttabréf fyrir faghópinn. Fréttabréfið hefur alltaf verið sent rafrænt á félagsmenn og birt á heimasíðunni, en núna fór ég semsé alla leið.

Vola!! hér er Fréttabréf Faghóps leikskólasérkennara í Tackk.


10. maí 2015

Menntaspjall - Samstarf atvinnulífs og skóla

Í morgun var #menntaspjall á dagskrá á Twitter. Að þessu sinni var umræðuefnið samstarf atvinnulífs og skóla. Það voru fjörugar umræður að vanda sem Katrín Dóra Þorsteinsdóttir sá um að stjórna af mikilli röggsemi. Það var greinilegt að samstarfsfletir milli skóla og atvinnulífsins liggja víða.
Ég gat að vísu aðeins talað út frá leikskólanum og við höfum á margan hátt nýtt okkur fyrirtæki og stofnanir til þess að auðga nám barnanna. Við höfum bæði farið í heimsóknir til foreldra og fengið þá til okkar til þess að segja börnunum frá starfi sínu. Svo höfum við alltaf að einhverju leiti nýtt okkur vettvangsheimsóknir í fyrirtæki í tengslum við ákveðin þemu sem eru í gangi.
Ég man eftir því í "gamla daga" hvað hann Finnur í fiskbúðinni á Smiðjuveginum var duglegur að aðstoða okkur í leikskólanum Efstahjalla þegar við vorum að vinna með þemað fiskur. Finnur safnaði mörgum fisktegundum og kröbbum og kallaði svo í okkur svo börnin fengju að skoða fjölbreyttar tegundir af fiski. Við fórum svo alltaf með einhver sýnishorn með okkur í leikskólann. Einu sinni krufum við ýsu af því börnin vildu fá að sjá inn í hana. Börnin lærðu þannig ýmislegt um líffæri fiska. Margt sem kom þeim á óvart þá, en lyktin var víst ekki alltaf vinsæl og ég varð stundum að henda út skeljum og kröbbum vegna kvartana frá samstarfsfólki og öðrum sem ekkert vit höfðu á sjávarfangi. En það er nú önnur saga.
Hér er samantekt Ingva Hrannars á menntaspjalli dagsins.

4. maí 2015

Leikskólinn Myrertoppen í hreyfimyndagerð

Ég hef áður sagt ykkur frá leikskólanum sem ég heimsótti fyrir stuttu í Osló, en það er leikskólinn Myrertoppen Það nýjasta sem þau hafa verið að gera í upplýsingatækni er hreyfimyndagerð. Elstu börnin sem eru í Froskahóp gerðu þetta fína myndband með Stop Motion appinu í iPad. Hér má sjá bloggfærslu þeirra um vinnuna við myndbandið. Ég hef gert þó nokkuð af því að vinna með börnunum í leikskólanum í hreyfimyndagerð og það er alltaf jafn gaman. Fljótlega ætla ég að birta hér nokkrar myndir frá vinnu okkar.

Menntavarp um Samspil 2015

Ég var að hlusta á Menntavarp þeirra Ragnars og Ingva Hrannars áðan. Í þetta sinn var Bjarndís Fjóla þátttakandi og umræðuefnið var Samspil 2015. Þau fóru vítt og breytt yfir í umræðunni sem var mjög jákvæð. Þau ræddu m.a. um ábyrgð þeirra sem kunna aðeins meira fyrir sér í upplýsingatækni að hjálpa hinum sem eru óöruggir í tækninni. Ég er algerlega sammála þeim þar því það er alveg nauðsynlegt og það er einmitt tilgangur Samspils 2015 verkefnisins. Takk kærlega fyrir umræðuna.